Jón Þorsteinsson píslarvottur
Jón Þorsteinsson (um 1570 – 17. júlí 1627), sem kallaður var Jón píslarvottur eftir að hann var veginn í Tyrkjaráninu, var íslenskur prestur og skáld á 16. og 17. öld. Seinustu tuttugu árin var hann prestur í Vestmannaeyjum.
Prestur og skáld
breytaJón var sonur Þorsteins Sighvatssonar lögréttumanns í Höfn í Melasveit og Ástríðar (Ástu) Eiríksdóttur konu hans. Faðir hans var tvíkvæntur og átti að minnsta kosti nítján börn, þar af mörg launbörn. Jón gekk í skóla og tók prestvígslu 1598. Sama ár varð hann prestur á Húsafelli í Borgarfirði en varð að víkja þaðan tveimur árum síðar því annar prestur, sem var stjúpsonur prófastsins og tengdasonur sýslumannsins, vildi fá brauðið. Árið 1601 fékk séra Jón svo Torfastaði í Biskupstungum og var þar til haust 1607 eða vors 1608, en þá fékk hann Kirkjubæ í Vestmannaeyjum eftir að fyrri prestur hafði verið sviptur embætti og flutist þangað.
Séra Jón þótti snjall ræðumaður, trúheitur og boðaði sóknarbörnum sínum harðar refsingar guðs fyrir drýgðar syndir. Þetta kemur meðal annars fram í skáldskap hans en hann orti mikið af sálmum og trúarkvæðum. Katla gaus árið 1612 og sagði prestur að það væri fyrirboði illra atburða vegna synda Eyjamanna og þegar Jón Gentilmaður og félagar hans rændu og rupluðu í Eyjum sumarið 1614, stálu öllu sem verðmætt gat talist en meiddu þó engan eða drápu, sagði prestur að þeir atburðir væru refsing guðs og orti um það kvæði. Þar spáði hann meðal annars meiri hörmungum ef menn sæju ekki að sér:
- Heyrið nú frómir hvað eg verð
- hrópa út og fram segja:
- Hér er nú stærri hefnd á ferð,
- í hverri menn munu deyja,
- ef vér gerum ei yfirbót,
- afleggjum skammarverkin ljót.
- Þar yfir má ei þegja.
Píslarvættisdauði Jóns
breytaÞegar sjóræningjar óðu um Vestmannaeyjar í Tyrkjaráninu faldi séra Jón sig ásamt fjölskyldu og heimilisfólki í Rauðhelli, skammt frá Kirkjubæ, en ræningjarnir urðu þeirra varir vegna þess að gamall karl sem var heimilsmaður hjá prestinum gat ekki verið kyrr og var að stjákla utan við hellinn. Þeir komu þá og fundu fólkið, en tvær konur höfðu falið sig í sprungu og ræningjarnir sáu þær ekki en þær fylgdust með því sem gerðist. Þær sögðu að presturinn hefði gengið á móti ræningjunum, sem hefðu höggvið hann þrisvar í höfuðið en hann mælti guðsorð við hvert högg. „Hjó þá fordæðan þriðja höggið. Þá sagði presturinn: „Það er nóg, herra Jesú! Meðtak þú minn anda.“ Hafði hann þá í sundur klofið hans höfuð. Lét hann svo líf sitt,“ segir í Tyrkjaránssögu. Frásögnin er reyndar með nokkrum ólíkindablæ en stuðlaði að því að séra Jón fékk píslarvottsnafnið.
Fjölskylda
breytaKona séra Jóns, gift 10. október 1596, var Margrét Jónsdóttir frá Hæli í Flókadal. Hún var flutt til Algeirsborgar ásamt tveimur börnum þeirra, Margréti og Jóni yngra, sem kallaði sig seinna Jón Vestmann. Prestfrúin mun hafa dáið innan fárra ára, Margrét var sögð hafa verið seld spænskum eða frönskum kaupmanni sem giftist henni, en Jón, sem var 15 ára þegar honum var rænt, kastaði trúnni, gerðist múslimi og komst til einhverra metorða. Honum tókst að lokum að komast til Kaupmannahafnar og þar settist hann að, giftist og átti dóttur og dó þar 29. mars 1651. Hann skrifaði nokkur bréf heim, bæði úr Barbaríinu og frá Kaupmannahöfn, en þau eru nú glötuð.
Tveir eldri synir þeirra hjóna voru ekki í Vestmannaeyjum þegar Tyrkjaránið var framið, þeir séra Jón Jónsson prestur og skáld á Melum í Melasveit og séra Þorsteinn Jónsson prestur í Holti undir Eyjafjöllum.