Íslam

(Endurbeint frá Múslimi)



Íslam (arabíska الإسلام al-islām framburður), einnig nefnt múhameðstrú, er eingyðistrú og er guð þeirra nefndur Allah á arabísku og rekur uppruna sinn til arabíska spámannsins Múhameðs sem var uppi á 6. og 7. öld eftir Krist. Fylgjendur íslams kallast múslimar. Íslam er af abrahamískum stofni og talin næst fjölmennustu trúarbrögð heims á eftir kristni. Í samanburði við önnur trúarbrögð á íslam einna mest skylt við kristni og sækir ýmislegt til gyðingdóms þar sem lifað er eftir reglum svo sem hvað varðar matarvenjur, föstu á ákveðnum tímum, umskurn á kynfærum, reglulegar bænir og fleira. Margir trúarsiðir í íslam eru upprunnir úr heiðnum trúarbrögðum araba frá því fyrir tíma Múhameðs. Íslam er ekki einungis trúarbrögð heldur er þeim oft lýst sem allsherjar lífsreglum sem taka til allra þátta lífs múslima, bæði félagslegra, efnahagslegra, siðferðislegra og andlegra.[1] Stjórnskipan, réttarfar, löggjöf, refsingar og almennar lífsvenjur múslima taka mið af trúartextum íslams og lífi spámannsins Múhameðs.

Íslam er stundum nefnd múhameðstrú á íslensku. Samsvarandi heiti voru notuð í flestum Evrópumálum en eru nú óðum á undanhaldi. Ástæðan er sú að múslimar (fylgjendur íslam) álíta hugtakið „múhameðstrú“ villandi þar sem Múhameð er spámaður en ekki Guð.

Múslimar

breyta
 
múslimi maður að biðja

Múslimar (Arabíska: مسلم) eru fylgjendur íslams, en orðið þýðir bókstaflega sá sem „sýnir undirgefni“ eða „hlýðir“ Guði. Þeir fylgja leiðsögn Múhammed spámanns en þeir trúa á Guð og tilbiðja Guð, skapara alheimsins. Múslimi trúir að Guð sé einn (án milliliða) og þess vegna verðskuldar aðeins Guð (Allah á Arabísku) tilbeiðslu. Hann trúir líka að Guð hafi sent öllum þjóðum jarðar þessi skilaboð gegnum spámenn (Adam, Nóa, Abraham, Móses og Jesús, auk Muhammeðs) og að í Kóraninum sé lokaopinberun Guðs til manna. Múslimi lifir í undirgefni við vilja Guðs því hann trúir að með þessum hætti öðlist hann innri frið og hamingju í þessu lífi og ekki síst eftir dauða, í himnaríki.

Orðsifjar

breyta

Á arabísku kemur orðið „múslimi“ úr þriggja stafa rótinni S-L-M, sem hefur merkinguna „friðsamleg undirgefni; að gefa sig; að hlýða; friður“. Önnur arabísk orð sem eru dregin af S-L-M rótinni: Islām sem þýðir „undirgefni/hlýðni“, það er að segja undirgefni við Guð. Múslimar greinast í mörg trúfélög, langstærst þeirra eru sjía-múslimar og súnní-múslimar. Bænahús múslima heita moskur. Talið er að fjöldi múslima í heiminum í dag sé 1,57 milljarðar, þar af búa 38 milljónir múslima í Evrópu og 2,4 milljónir í Bandaríkjunum.[2] Múslimar á Íslandi eru um 1300 samkvæmt Hagstofu Íslands.[3]

Orðsifjar

breyta

Á arabísku kemur orðið Islām úr þriggja stafa rótinni S-L-M, sem hefur merkinguna „undirgefni; að gefa sig; að hlýða“.[4] Islām þýðir bókstaflega „undirgefni/hlýðni,“ það er að segja undirgefni við Allah, sem er nafn guðs í íslam.

Önnur arabísk orð sem eru dregin af S-L-M rótinni:

  • Salām, þýðir „friður“, og er algengt að heilsast með þessu ávarpi
  • Muslim, fylgjandi íslam, þýðir sá sem „sýnir undirgefni“ eða „hlýðir“ Guði.

Múslímar trúa því að Guð (á arabísku Allah; einnig á arameísku Alaha) hafi opinberað boðskap sinn til manna fyrir Múhameð spámanni sem uppi var í Arabíu 570-632 (samkvæmt gregoríanska tímatalinu). Þeir trúa því einnig að aðrir spámenn Guðs, þar á meðal Adam, Nói, Abraham, Móses og Jesús (sem þeir kalla Isa) hafi fengið opinberanir frá honum. Múslimar trúa því að Múhameð sé síðasti og mesti spámaðurinn eða „innsiglið“. Opinberanir hans munu endast fram að Dómsdegi.

 
Elsta mynd sem til er af Múhameð

Aðalrit múslíma er Kóraninn en þeir trúa því að hann hafi verið skrifaður af Múhameð beint eftir Gabríel erkiengli samkvæmt boði Guðs. Kóraninn er samkvæmt múslímum óbrengluð orð Guðs (ólíkt Biblíu kristinna manna, sem á að vera texti venjulegra manna innblásinn af Guði) og var opinberaður á arabísku. Mikið er lagt upp úr því í samfélögum múslima að fólk geti lesið (og helst talað) arabísku og þar með lesið Kóraninn á frummáli. Múslimar trúa því að hluti af guðspjöllunum, Torah og spádómabækur Gyðinga hafi, þrátt fyrir heilagan uppruna þeirra, verið vantúlkaðar og þær misfarist af manna völdum. Frá þessu sjónarhorni er Kóraninn leiðrétting á heilögum ritum Gyðinga og kristinna manna og lokaopinberun.

Múslímar álíta að íslam sé í aðalatriðum sú sama trú sem aðrir spámenn og sendiboðar Guðs hafa opinberað mönnum allt frá Adam og Abraham. Kóraninn kallar Gyðinga og kristna „fólk bókarinnar“.

Grundvallartrúarjátningu íslam er að finna í šahādatān („tvær erfðaskrár“, á arabísku: لا إله إلا الله ومحمد رسول الله ): lā ilāhā illā-llāhu; muhammadur-rasūlu-llāhi— „Það er enginn guð nema Guð (Allāh); Múhameð er spámaður Guðs (Allah).“ Til að gerast múslimi verður að hafa þessa setningu yfir (á arabísku) og trúa henni í vitna viðurvist. Það er ekki hægt að neyða neinn til að gerast múslimi, einungis sá sem virkilega óskar þess getur orðið það.

Fyrir utan Kóraninn eru frásagnirnar um gerðir og ummæli Múhameðs, sem nefndar eru hadith, mikilvægustu undirstoðir trúarskoðana og réttarkerfis múslima.

Fimm stoðir íslam

breyta

Íslam hefur fimm stoðir, fimm grundvallaratriði trúarinnar. Staða þeirra er umdeild milli gerða íslam, en í öllum eru þær mikilvægar. Stoðirnar fimm eru:

  • Shahādah (sjahada, trúarjátningin) – Yfirlýsing um að það sé enginn guð annar en Allah og Múhameð sé sendiboði hans.
  • Salat (salat, bænin) – Það að biðja skuli fimm sinnum á dag og krjúpa í átt að Kaaba hofinu í Mekka
  • Sawm (saúm, fastan) – Að sleppa því að borða, drekka og stunda kynlíf frá dögun til sólseturs í tunglmánuðinum Ramadan.
  • Zakāt (sakat, ölmusa) – Ætlast er til þess að allir múslimar greiði fasta prósentu sem svo er útdeilt til fátækra.
  • Hajj (hadsjí (pílagrímsferð) – Ætlast er til þess að allir múslimar, svo lengi sem fjárhagur og heilsa leyfi, fari til Mekka í það minnsta einu sinni um ævina.
 
Arabíska orðið Allāh, eða Guð, skrifað með skrautskript.

Grundvallarhugmynd íslam er að Guð sé einn og óskiptanlegur (á arabísku tawhid). Íslam er því eingyðistrú. Guð er skapari heimsins og drottnar yfr öllu sem lifir, eins og í kristinni trú.

Guð er skilgreindur í Kóraninum, súru 112 á þennan hátt:

Segðu „Hann er Guð, einn og sá eini. Allāh, hinn Eilífi, Allsherjar sjálfvaldur meistari. Hann getur engan og er ekki getinn, og enginn er líkur Honum.“ (Yusuf A. Ali Geymt 5 september 2019 í Wayback Machine).

Orðið Allāh er einnig notað um Guð af arabískumælandi Gyðingum og kristnum. Nafnið Allāh er einungis hægt að nota í eintölu og það hefur ekkert kyn. Múslímar deila ekki hugmynd kristninnar um „heilaga þrenningu“ (samfélag föður og sonar og heilags anda í einum guðdómi).

Skurðgoðasmíð er litin hornauga í Kóraninum eins og Biblíunni. Ekki skal gera mynd af Guði, hvorki tví- eða þrívíða. Nöfn Guðs eru 99 talsins í Kóraninum en allar súrurnar, utan einnar, hefjast á orðunum: „Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama“.

 
Yfirráðasvæði kalífatsins árið 750

Árið 610 fékk Múhameð (samkvæmt múslimum) kall sitt sem spámaður í helli nokkrum stutt frá Mekka. Honum á þá að hafa verið falið það verkefni að opinbera þann texta sem í dag er kallaður Kóraninn og boða stranga eingyðistrú þar sem kjarninn var koma dómsdags þar sem fólk yrði reist úr dauðanum, ranglátir myndu brenna í vítislogum Allah en réttlátir hefðu vísa vist í paradís hans.

Mikið er til af heimildum um líf Múhameðs og fyrstu ár íslams, færðar í rit einni til tveimur öldum eftir dauða hans. Samtímaheimildir eru helst vers kóranins, en mikið af þeim höfðu verið rituð niður um og eftir dauða Múhameðs. Helstu heimildir, og þær virtustu meðal múslima, eru Kóraninn (sem var fyrst skráð eftir dauða Múhameðs) sjálfur, Hadith textarnir (eða hefðirnar) og Sira (fyrsta ritið um ævi Múhameðs). Ef þessi rit eru lesin í samhengi má sjá glögglega flesta meginatburði á upphafstíma íslams og hvernig og hvers vegna vitranir Múhameðs koma fram. Þetta er mjög frábrugðið sagnfræði kristinna manna, búddista og annarra trúarhópa þar sem lítið er til af sagnfræðilegum heimildum öðrum en trúartextum. Söguhefðir shía og súnnímúslima um upphafstíma íslam er ýmsum atriðum allólíkar og grundvöllur klofnings safnaðanna.[5]

Múhameð fékk fáa fylgismenn í upphafi, og aðallega úr lægri stéttum samfélagsins, en Múhameð sjálfur tilheyrði yfirstéttinni í Mekka, sem meðal annars stjórnaði hofinu Kaba. Árið 622 voru Múhameð og fylgismenn hans neyddir til að flýja til borgarinnar Medína. Í kjölfar þess taka Múhameð og fylgismenn hans upp vopnaða baráttu og herja á yfirstéttina í Mekka og samfélög gyðinga í og kringum Medína. Meðal annars með ránum og mannvígum tókst Múhameð og fylgismönnum hans að beygja undir sig fleiri og fleiri ættbálka á Arabíuskaganum.

Þegar Múhameð lést árið 632 náði veldi hans og þar með veldi íslam yfir bróðurpart Arabíu. Þegar hann lést tók vinur hans Abu Bakr við völdum en næstu tveir kalífar (leiðtogar hins íslamska ríkis) voru skyldmenni Múhameðs. Á þessum tíma stækkaði yfirráðasvæði íslamska ríkisins, sem nefnt hefur verið Kalífatið, mjög mikið og varð að mjög stóru heimsveldi. Fjórði kalífinn var hins vegar tengdasonur Múhameðs, Alí ibn Abu Talib, og deilan um réttmæti valda hans eru undirrótin að skiptingu múslima í sjía og súnní. Sjía-múslimar trúa því að þeir sem á undan honum voru hafi verið ólögmætir vegna þess að Múhameð hafi nefnt hann sem eftirmann sinn á dánarbeði sínu, en súnníar eru ósammála þessu. Kalífatið náði hámarki sem eitt ríki um 750. Það klofnaði í fleiri ríki í raun, en hinir nýorðu múslimar Tyrkir náðu völdum yfir nokkurn veginn öllu landsvæðinu á elleftu öld með Ottómanska veldinu. Fjölmennasta nútímaríki þar sem meirihluti íbúa eru múslimar er Indónesía.

 
Kort sem sýnir áætlað hlutfall múslima eftir löndum. Rauði liturinn táknar hér sjía og sá græni súnní, drekkt litar sýnir hlutfall

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Islam í stuttu máli, Grein á vefsíðu Félags íslenskra múslima, http://www.islam.is/index.php?option=com_content&view=article&id=6&Itemid=3&lang=is[óvirkur tengill]. Skoðað 3.10.2009.
  2. A Report on the Size and Distribution of the World's Muslim Population, The Pew Forum on Religion and Public Life, október 2009, http://pewforum.org/docs/?DocID=451 Geymt 17 apríl 2010 í Wayback Machine, skoðað 17.10.2009
  3. Hagstofa Íslands, http://www.hagstofa.is, skoðað 19.10.2009
  4. „USC-MSA Compendium of Muslim Texts“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. september 2008. Sótt 16. mars 2016.
  5. Madelung, Wilferd (1997). The Succession to Muhammad: A Study of the Early Caliphate. Cambridge University Press. ISBN 0-521-64696-0.

Tenglar

breyta