Jón Þorkelsson Thorkillius

Jón Þorkelsson (16975. maí 1759), sem nefndi sig Thorkillius eða Thorchillius, var skólameistari í Skálholti á 18. öld, latínuskáld og höfundur yfirlitsrita um menntir og menningu Íslendinga. Jón var einn af boðberum upplýsingarinnar á Íslandi.

Jón var fæddur í Innri-Njarðvík í Vatnsleysustrandarhreppi, einkasonur Þorkels Jónssonar bónda og lögréttumanns þar og konu hans, Ljótunnar Sigurðardóttur. Hann nam við Skálholtsskóla og fór síðan í Kaupmannahafnarháskóla. Jón varð skólameistari í Skálholti 1728. Hann þótti umkvörtunarsamur og greindi oft á við Jón Árnason biskup, bæði um aðbúnað og fæði í skólanum og um kennslutilhögun.

Jón Thorkillius gagnrýndi ástandið í íslenskum skólamálum við lénsyfirvöld á Íslandi og lagði meðal annars til að settur yrði á stofn sérstakur prestaskóli. Þegar séra Jón Halldórsson í Hítardal lést haustið 1736 vildi Jón fá Hítardal og koma þar á prestaskóla. Ekki fékkst það samþykkt og sagði Jón þá af sér skólameistaraembætti og hélt til Kaupmannahafnar til að reyna að fá stjórnvöld þar til að gera umbætur í menntamálum Íslands. Hann færði m.a. fyrir því rök að kirkjustjórn á Íslandi væri betur borgið ef biskuparnir væru danskir eða norskir. Honum varð ágengt í gangrýni sinni þegar danska Allsherjarkirkjueftirlitsnefndin (á dönsku: Generalkirkeinspektionskollegiet) fékk áhuga á málinu og tók það upp. Þessari nefnd, sem var stofnuð árið 1737, var ætlað það hlutverk að sinna trúarlegu eftirliti með kennurum og kennslu í skólum, prestum í kirkjum og prófessorum við Kaupmannahafnarháskóla. Jafnframt fékk hún yfirumsjón með ritskoðun guðfræðilegra og trúarlegra rita. Síðar tók nefndin einnig við stjórn trúboðsins í þrælanýlendunni í Vestur-Indíum. Niðurstaða nefndarinnar var að senda þýska guðfræðinginn og prestinn Ludvig Harboe ásamt Jóni sjálfum til Íslands sem eftirlitsmenn með kristnihaldi Íslendinga, áttu þeir að prófa læsi ungs fólks á guðsorðabækur, athuga bókakost á bæjum og kanna siðferði landsmanna almennt eftir forskrift píetismans.

Jón og Harboe ferðuðust um allt landið með biskupsvald í báðum biskupsdæmum. Þeir reyndu meðal annars lestrarkunnáttu barna, prófuðu presta í guðfræðiskoðunum, blöðuðu í bókum landsmanna og fleira. Þeim var sérstaklega í mun að venja Íslendinga af ýmis konar óalvarlegu hátterni og léttúð, s.s. lestri veraldlegra sagna og því að kveða og hlíða á rímur um ástir og frægðarverk í fornöld, að ekki sé minnst á vikivaka, hina vinsælu sagnadansa á 17. og 18. öld. Þess í stað hvöttu þeir til aukins biblíulesturs og kristilegra kennirita.

Þótt Jón og Harboe væru sammála um flest, kom það einkum í hlut Jóns, vegna tungumálsins, að bera fram aðfinnslur og gagnrýni þeirra við landsmenn og varð hann af því mjög óvinsæll og lítt þokkaður. Aftur á móti féll Harboe Íslendingum allvel í geð, þótti viðmótsþíður og virðulegur, en honum bauð þó mjög við mat, húsnæði og sóðaskap á Íslandi. Jóni var aldrei fyrirgefið að hafa gagnrýnt Ísland í Danmörku og sigað klerkunum í Allsherjarkirkjueftirlitsnefndinni á landsmenn, ekki síst þegar eymd lénsins og óhamingja höfðu augljóslega aðrar orsakir en léttúð sagnadansa, eins og margir höfðu bent á. Jón og Harboe luku störfum sínum sumarið 1745 og héldu þá til Danmerkur. Þeir settu fram húsagatilskipanir til að styrkja enn frekar yfirráð fjölskyldufeðra á bæjum í landinu og lögðu til auknar typtingar barna og alþýðufólks en auk þess bönn við hvers kyns gleðskap eða meðferð lesefnis sem ekki stæðist danska ritskoðun. Sumar þessara tillagna komust fljótt í framkvæmd, aðrar ekki. Vafasamt er að þessi trúarlega eftirlitsferð hafi skilað öðrum árangri en að niðurlægja Íslendinga.

Jón settist aftur að í Kaupmannahöfn að lokinni eftirlitsferðinni til Íslands og bjó þar til æviloka 1759. Hann hélt áfram störfum fyrir kirkjueftirlitsnefndina en sat einnig við önnur ritstörf á kirkjulofti Þrenningarkirkjunnar þar sem háskólabókasafnið var þá til húsa ásamt handritasafni Árna Magnússonar. Á námsárunum í Þýskalandi og sem rektor í Skálholti hafði hann skrifaði fáein rit á latínu um íslenskar bókmenntir og lærdómsmenn en einnig setti hann saman sjálfsævisögu sína á fornmálinu. Þessi latínurit hans komu ekki út fyrr en löngu síðar og sum eru enn óútgefin. Helsta rit Jóns fyrir utan sjálfsævisöguna er Specimen Islandiæ non barbaræ sive litteratæ et cultioris (Tilraun um ó-barbarískt Ísland eða land bóklista og betrimenningar) sem inniheldur hundrað æviskrár íslenskra rithöfunda og lærdómsmanna.

Jón Thorkillius var vel stæður en ókvæntur og barnlaus og átti enga nána ættingja á lífi. Skömmu fyrir andlát sitt gerði hann erfðaskrá þar sem kveðið var á um að allar eigur hans skyldu renna til stofnunar skóla þar sem fátækustu börn í Kjalarnesþingi hlytu kristilegt uppeldi með húsnæði, klæðum og fæði uns þau gætu unnið fyrir sér sjálf. Ekki varð af því strax en stofnaður var sjóður, Thorcilli-sjóðurinn (eða Thorkelli-sjóðurinn), og árið 1792 var loks reistur barnaskóli á Hausastöðum á Álftanesi á kostnað sjóðsins og var það annar fyrsti barnaskóli á Íslandi. Allt fram á 20. öld fengu börn við barnaskóla Reykjavíkur styrk úr Thorkellisjóðnum til náms.

Minnisvarði um Jón, gerður af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara, var reistur í Innri-Njarðvík 1965.

Heimildir

breyta
  • „Kastalaklerkurinn óttalegi. Tíminn, 21. júlí 1990“.