Jón Grunnvíkingur
Jón Ólafsson, nefndur Jón Ólafsson úr Grunnavík eða Jón Grunnvíkingur (1705 – 1779) var íslenskur fræðimaður sem dvaldist mestan hluta ævinnar í Kaupmannahöfn.
Jón var sonur séra Ólafs Jónssonar prests á Stað í Grunnavík í Jökulfjörðum og konu hans Þórunnar Pálsdóttur. Faðir hans lést úr Stórubólu 1707 og fór Jón nokkru síðar í fóstur til vinar hans, Páls Vídalín, sem ól hann upp, kom honum í Hólaskóla og styrkti hann síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Jón sigldi til Kaupmannahafnar haustið 1726 til þess að gerast skrifari Árna Magnússonar prófessors og var í þjónustu Árna þrjú síðustu æviár hans. Jón tók guðfræðipróf frá Hafnarháskóla 1731. Hann varð fyrsti styrkþegi Árnasjóðs og vann mestan hluta ævinnar við fræðistörf í Árnasafni í Kaupmannahöfn.
Hann vann að mikilli íslenskri orðabók með alfræðiefni sem enn hefur ekki birst, skrifaði um menntamál og ýmisleg efni og safnaði tóbaksvísum.
Jón er meðal annars þekktur fyrir að hafa skrifað upp Heiðarvígasögu eftir minni, en eina þekkta handrit Heiðarvígasögu varð eldinum að bráð í brunanum í Kaupmannahöfn 1728. Til þess notaðist hann við minnispunkta sína sem voru aðallega orðatiltæki og orðasambönd úr sögunni. Hann skrifaði einnig lýsingu á brunanum skömmu eftir atburðinn. Jón Helgason, prófessor, skrifaði doktorsrit sitt um Jón Grunnvíking.[1]
Jón Grunnvíkingur kemur fyrir sem sögupersóna í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness og nefnist þar: Jón Grindvicensis (latína: Grindavíkur Jón).
Tilvísanir
breyta- ↑ Jón Helgason. Jón Ólafsson frá Grunnavík. Kaupmannahöfn 1926.
Heimildir
breyta- Jón Helgason. Jón Ólafsson frá Grunnavík. (Safn Fræðafjelagsins V.) Kh. 1926.
- Jón Ólafsson úr Grunnavík. Ævisögur ypparlegra merkismanna. Guðrún Ása Grímsdóttir annaðist útgáfu. Rv. 2013.
- Úrval bréfaskrifta Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá Kaupmannahöfn til Íslands 1728–1738. Guðrún Ása Grímsdóttir bjó til prentunar.
- Vitjun sína vakta ber: Safn greina eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík. Ritstj. Guðrún Ingólfsdóttir, Svavar Sigmundsson. Rv. 1999, bls. 103–142.
- Lærður Íslendingur á Turni. Af Jóni Ólafssyni Grunnvíkingi. Guðrún Ása Grímsdóttir, Gripla XII. Rv. 2001, bls. 125–147.