Staður í Grunnavík

Staður í Grunnavík var prestsetur og kirkjustaður frá gamalli tíð. Kirkjan er helguð Maríu mey. Sjómenn hafa í gegnum tíðina heitið á Maríuhorn en þar er sviptivindasamt og hafa áheitin runnið til Maríukirkju í Grunnavík. Pantaleon Ólafsson var prestur á Stað á 16. öld og er örnefni á stað Pontagil eða Pontapartur kennt við hann. Einar Vernharðsson (1817-1900) varð prestur á Stað 1852 en hann var áður prestur á Söndum í Dýrafirði.

Séra Pjetur Maack Þorsteinsson varð prestur á Stað árið 1884 en hann drukknaði á heimleið úr kaupstað 8. september 1892 skammt undan landi og er kennt um svipvindi.

Kjartan Kjartansson tók við sem prestur af Pétri Maack. Hann byggði íbúðarhús í Sætúni. Kjartan var talinn fyrirmynd að sögupersónunni Jóni Prímusi í Kristnihaldi Halldórs Laxness. Jónmundur Halldórsson tók svo við af Kjartani árið 1918 og var prestur á Stað til 1954. Jónmundur skrifaði dagbók um líf og starf í Grunnavík. Prestsetrið á Stað brann 1920 á sama tíma og séra Jónmundur jarðsöng menn sem fórust við leit að Sumarliða pósti Brandssyni er hvarf fram af hengibrún við Vébjarnarnúp rétt fyrir jól árið 1920.

Heimildir breyta

   Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.