Jómsvíkinga saga
Jómsvíkinga saga er íslensk fornsaga sem segir frá víkingum sem stofnuðu virkið Jómsborg, og komu þar á bræðralagi hermanna sem voru kallaðir Jómsvíkingar.
Gerðir sögunnar
breytaJómsvíkingasaga var samin á Íslandi um 1200 og er til í nokkrum handritum, sem eru talsvert ólík hvert öðru, og hefur samband þeirra valdið fræðimönnum heilabrotum. Yfirleitt er talað um fimm gerðir sögunnar.
Sagan er oftast prentuð eftir elsta handritinu, AM 291 4to. Flateyjarbók hefur náskyldan texta. Handritin AM 510 4to, og Sthlm. perg. 4to nr. 7 eru um sumt frábrugðin, og sama er að segja um latneska þýðingu sem Arngrímur lærði gerði eftir handriti sem nú er glatað. Jómsvíkinga saga var einnig notuð í Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk og Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu. Allar þessar gerðir má rekja til sama frumtexta.
Í Fagurskinnu og Heimskringlu er stuðst við gerð sem virðist hafa verið talsvert frábrugðin þeim sem nú eru varðveittar.
Um söguna
breytaÞó að Jómsvíkingasaga sé ekki talin traust söguleg heimild, hefur hún sögulegan kjarna. Skipta má sögunni í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum er sagt frá nokkrum Danakonungum fram til Haraldar Gormssonar. Þessi hluti er ítarlegastur í AM 291, hann vantar í AM 510, og er talsvert frábrugðinn í öðrum handritum. Í miðhlutanum er sagt frá nokkrum höfðingjum frá Fjóni í Danmörku. Koma þar mest við sögu Vagn Ákason og Pálnatóki, en sá síðarnefndi stofnaði víkingaborgina Jómsborg á suðurströnd Eystrasalts. Þriðji hlutinn segir frá því að Sveinn tjúguskegg Danakonungur býður Jómsvíkingum í veislu og vélar þá til að fara í herför til Noregs, til að setja Hákon jarl af. Þar bíða þeir ósigur í orrustunni í Hjörungavogi, og eru flestir drepnir (um 986). Helsti foringi þeirra þar var Sigvaldi jarl.
Sú gerð sögunnar sem varðveitt er í AM 291 4to hefur sérstöðu vegna þess hvað viðhorf höfundarins til Danakonunga er meinlegt. Ólafur Halldórsson segir að höfuðeinkenni sögunnar sé „frásagnargleðin, sem kalla má að hver setning sé mótuð af“ (54). „Höfundur Jómsvíkinga sögu lítur á mannlíf það sem hann segir frá með prakkaralegu glotti“ (51). Hetjuskapur Jómsvíkinga og óttaleysi þeirra gagnvart dauðanum, minnir nokkuð á forn hetjukvæði.
Erfitt er að skipa sögunni í flokk. Hún er stundum flokkuð með konungasögum, því að efnislega tengist hún Danakonungum, en hún er sem bókmenntir skyldari fornaldarsögum eða Íslendingasögum.
Helstu útgáfur
breyta- Þorleifur Hauksson og Marteinn Helgi Sigurðsson (útg.): Jómsvíkinga saga, Reykjavík, Hið íslenzka fornritafélag, 2018, 322 s.
- Ólafur Halldórsson (útg.): Jómsvíkinga saga, Reykjavík, Prentsmiðja Jóns Helgasonar 1969, 224 s. — Með rækilegum formála. Byggt á AM 291 4to.
- Ólafur Halldórsson (útg.): Danish kings and the Jomsvikings in the greatest saga of Óláfr Tryggvason, London: Viking Society for Northern Research 2000, 105 s.
- Carl Richard Unger og Guðbrandur Vigfússon (útg.): Flateyjarbók, I, Christiania 1860.
- Carl af Petersens (útg.): Jómsvíkinga saga, efter Arnamagnæanska handskriften no. 291 4to, i diplomatariskt aftryck, Kbh. 1882, xxiii+138 s.
- Carl af Petersens (útg.): Jómsvikinga saga (efter Cod. AM. 510 4to), samt Jómsvíkinga drápa, Lund: Gleerup 1879, xxxviii+136 s.
- Gustaf Cederschiöld (útg.): Jómsvíkinga saga, efter skinnboken 7, 4to å Kungl. Biblioteket i Stockholm, Lund 1875, xii+38 s. — Sérpr. úr Lunds Universitets Årsskrift, 1874.
- A. Gjessing (útg.): Jómsvíkinga saga, i latinsk oversættelse af Arngrim Jonsson, Kristianssand 1877.
- Jakob Benediktsson (útg.): Bibliotheca Arnamagnæana, Vol. IX, Hafniæ 1950, 87–140. — Þýðing Arngríms Jónssonar lærða, gerð eftir handriti sem nú er glatað.
Heimildir
breyta- Ólafur Halldórsson: Jómsvíkinga saga. Medieval Scandinavia: An Encyclopedia, 1993:343–344. — Ritstj.: Phillip Pulsiano o.fl.
- Torfi H. Tulinius: Um Jómsvíkinga sögu. Íslensk bókmenntasaga II, Reykjavík 1993:186.
- Torfi Tulinius: The Matter of the North, Odense: Odense University Press 2002.
- Jakob Benediktsson: Jómsvíkinga saga. Kulturhistorisk Leksikon for nordisk middelalder VII, Kbh. 1962:607–608. —
- Finnur Jónsson: Den oldnorske og oldislandske litteraturs historie II, Kbh. 1923:653–659.
Tenglar
breyta- Jómsvíkinga saga, Kaupmannahöfn 1824. — Carl Christian Rafn gaf út.
- Jómsvíkinga saga, Kaupmannahöfn 1828. — Fornmanna sögur XI. Carl Christian Rafn gaf út.
- Jómsvíkinga saga — heimskringla.no. Eftir AM 291 4to, í útgáfu Ólafs Halldórssonar.
- Jómsvíkinga saga — Eftir AM 291 4to.