Ismail Ibn Sharif
Ismaïl Ibn Sharif (1634 eða 1645 − 1727; arabíska: مولاي إسماعيل بن الشريف ابن النصر) var annar soldán Marokkó af ætt Alavíta. Hann tók við völdum eftir andlát hálfbróður síns Rashid af Marokkó árið 1672 og ríkti til dauðadags. Hans er minnst sem eins af mikilvægustu soldánum í sögu Marokkó. Honum tókst að verjast ásælni Tyrkja og sigraði þá í þremur orrustum 1679, 1682 og 1695-6. Hann vann líka aftur hafnarborgir sem Evrópubúar höfðu lagt undir sig: La Mamora af Spánverjum 1681, Tanger af Englendingum 1684 og Larache af Spánverjum 1689. Hann flutti höfuðborgina til Meknes og byggði þar svo íburðarmiklar hallir að Evrópubúar kölluðu borgina Versali Marokkó. Hann átti í miklum viðskiptum við Frakka. Hann var líka þekktur fyrir grimmd sína. Sagt er að hann hafi notað 25.000 þræla til að byggja höfuðborg sína og að hann hafi hengt 10.000 afhöggvin höfuð á borgarmúrana til að hræða burt óvini. Í valdatíð hans tífaldaðist Svarti vörðurinn, lífvarðasveit soldáns skipuð hermönnum frá Afríku sunnan Sahara, og taldi 150.000 hermenn þegar mest var.