Isaac Singer
Isaac Merritt Singer (27. október 1811 - 23. júlí 1875) var bandarískur uppfinningamaður, leikari og iðnjöfur. Hann er þekktur fyrir að hafa endurbætt tækni í saumavélum og látið framleiða fyrstu saumavélina sem varð algeng á heimilum. Foreldar hans voru fátækir þýskir innflytjendur sem bjuggu í New York. Singer vann fyrir sér frá unga aldri sem vélsmiður og húsgagnasmiður og var leikari sem fór um með eigin leikhóp.
Árið 1839 fékk hann fyrsta einkaleyfi sitt en það var fyrir vél sem boraði í stein. Hann seldi einkaleyfið fyrir $2,000 og það gerði honum kleift að starfa áfram sem leikari. Hann stofnaði leikhópinn "Merritt Players" og ferðast um með hópinn í fimm ár og kom fram á sviði undir nafninu "Isaac Merritt" ásamt ástkonu sinni Mary Ann Sponsler.
Singer hannar vél til að skera við og málma
breytaSinger þróaði vél til að skera við og málma og fékk einkaleyfi á þeirri vél 10. apríl 1849. Hann hafði starfað um tíma í verksmiðju í Fredericksburg í Ohio sem framleiddi viðarletur fyrir prentvélar og hann endurbætti þá tækni. Hann flutti með fjölskyldu sína til New York City til að reyna að selja viðarskurðvél sína og tókst að búa til starfhæfa frumgerð. Þar kynntist hann einnig G.B. Zieber sem lagði til fjármagn og varð viðskiptafélagi hans. Skömmu eftir að frumgerðin var tilbúin þá sprakk hins vegar gufuketill í málmsmíðaverkstæðinu og eyðilagði frumgerðina. Zieber fékk Singer til að byrja upp á nýtt í Boston sem var þá miðstöð prentiðnaðarins.
Singer endurbætir hönnun á saumavél
breytaÁrið 1850 fór Singer og viðskiptafélagi hans með frumgerð af skurðvélinni til Boston til að leita að fjármagni til að framleiða hana. Singer leigði sýningarsvæði í verkstæði Orson C. Phelps og sýndi skurðvélina sína en ekki var mikil eftirspurn eftir henni. Á sama verkstæði var í hönnum frumgerð af saumavél sem Phelps var að smíða fyrir Lerow and Blodgett. Singer varð hugfanginn af saumavélahönnuninni og greindi hvað þyrfti að lagfæra í þessari hönnun og setti fram eigin hönnun þannig að skyttan í saumavélinni færi eftir beinni línu en hönnunin fyrir Lerow and Blodgett miðaði við að skyttan hreyfðist í heilan hring og nálin var bogin og lárétt. Singer sá líka fyrir sér að í stað boginnar láréttar nálar þá mætti búa til saumavél með beinni nál sem hreyfðist upp og niður. Phelps samþykkti hugmyndir hans og Singer vann við að endurbæta sína saumavél. Singer fékk fyrsta einkaleyfi á saumavélahönnun sinni Patent No. 8,294 þann 12. ágúst 1851 og var hún framleidd í vélsmiðju Orson C. Phelps í Boston. Sú saumavél var miðuð við saumavél fyrir saumastofur og klæðaverksmiðjur, ekki heimili. Singer var afar slyngur og sannfærandi auglýsandi og kynnti saumavél sína á mannamótum.[1]
Saumavélastríðið
breytaNæstu ár gekk á með málaferlum þar sem ýmsir framleiðendur og hönnuðir saumavéla og saumavélaíhluta veifuðu einkaleyfum sínum og saksóttu aðra fyrir að brjóta móti sínu einkaleyfi. Þetta tímabil hefur verið kallað Saumavélastríðið (e. The Sewing Machine War) en því lauk með sátt sem kallast "Sewing Machine Combination of 1856" þar sem nokkrir einkaleyfishafar mynduðu samlag um einkaleyfi sín. Þetta var fyrsta slíka einkaleyfissamlagið og það gerði mögulegt að framleiða flókna vél sem nýtti einkaleyfisvarða hönnun margra aðila. [2]
Þetta samlag einkaleyfa gilti um níu einkaleyfi og var gert milli Singers, Howe, Grover and Baker og framleiðendanna Wheeler og Wilson. Þrjú þessara einkaleyfa voru sérstaklega mikilvæg en það var einkaleyfi Elias Howe á saumnum "lockstitch", einkaleyfi Wheeler og Wilson á "four-motion feed" og einkaleyfi Singers á því að sameina lóðrétta nál og lárétt saumayfirborð. Einkaleyfasamlagið gerði mögulegt fyrir alla framleiðendur að framleiða og selja saumavélar gegn því að greiða gjald til einkaleyfishafa. Það var Singer saumavélin sem varð ofan á og vinsælust og það er þakkað lögfræðingnum Edward Clark sem var meðstofnandi félagsins I.M. Singer & Co. Clark skipulagði fyrstu auglýsingaherferðir fyrirtækisins og sett á stofn kaupleigu fyrir viðskiptavini sem ekki höfðu efni á að kaupa dýra saumavél. Þetta var fyrsta slíka afborganagreiðslukerfið í Bandaríkjunum. Clark losaði sig við Singer úr úr rekstrinum árið 1863 og stofnaði Singer Manufacturing Company. [3]
Tenglar
breytaTilvísanir
breyta- ↑ 1851 - Isaac Singer's Sewing Machine Patent Model (National Museum of American History)
- ↑ Mossoff, Adam, The Rise and Fall of the First American Patent Thicket: The Sewing Machine War of the 1850s (March 6, 2009). Arizona Law Review, Vol. 53, pp. 165-211, 2011, George Mason Law & Economics Research Paper No. 09-19, Available at SSRN: https://ssrn.com/abstract=1354849
- ↑ Alex Palmer, How Singer Won the Sewing Machine War, Smithsonian Magazine, July 14,2015