Saumavél er vél sem notuð er til að sauma flíkur og fleira. Til eru ýmsar tegundir saumavéla sem hafðar eru til mismunandi nota.

Nútímasaumavél
Hluti af nútímasaumavél.

Saumavélar urðu til í Iðnbyltingunni en áður hafði allur saumaskapur verið unninn í höndunum. Almennt er talið að Englendingurinn Thomas Saint hafi fundið saumavélina upp árið 1790 en hann fékk raunar aðeins einkaleyfi á vél sem ætluð var til að sauma leður og segldúk en smiðaði aldrei gangfæra vél.

Austurrískur klæðskeri, Josef Madersperger, bjó til nothæfa saumavél árið 1814. Árið 1830 fékk franski klæðskerinn Barthélemy Thimonnier einkaleyfi á vél sem saumaði beint keðjuspor (lykkjuspor) og árið 1841 hafði hann smíðað 80 vélar sem notaðar voru til að sauma einkennisbúninga fyrir franska herinn. Verksmiðja hans var hins vegar eyðilögð af klæðskerum sem óttuðust að missa vinnuna og var ekki endurreist.

Stingsaumur.

Árið 1833 fann Walter Hunt upp vél sem saumaði með stingsaum, sem er grunnsporið í nútímasaumavélum. Notaðir eru tveir þræðir, annar undir klæðinu sem á að sauma en hinn yfir, og vélin tengir þá síðan saman í hverju saumspori. Hann tók þó ekki einkaleyfi á vél sinni. Ýmsir gerðu endurbætur á uppfinningunni en það var Isaac Merritt Singer sem gerði fyrstu fjöldaframleiddu saumavélina og er hann oft talinn faðir saumavélarinnar.

Sumar saumavélar eru tiltölulega einfaldar og sauma aðeins nokkur grunnspor en einnig eru til flóknar tölvustýrðar saumavélar sem geta saumað alls konar skrautspor og mynstur. Eldri gerðir voru ýmist handknúnar með sveif eða fótstignar en nú eru flestar saumavélar knúðar áfram með rafmagni.

Gamlar saumavélar breyta

Tenglar breyta