Hvammur (Dalasýsla)

Hvammur er bær og kirkjustaður í Hvammssveit í Dalasýslu. Bærinn er fornt höfðingjasetur og landnámsjörð og síðar var þar prestssetur.

Kirkjan í Hvammi

Auður djúpúðga Ketilsdóttir nam að sögn allt land meðfram Hvammsfirði og bjó í Hvammi. Ólafur feilan sonarsonur hennar bjó svo í hvammi og sonur hans, Þórður gellir, sem þótti einhver helsti höfðingi Vestlendinga á 10. öld. Eftir hann bjó sonur hans, Þórarinn fylsenni, í Hvammi og síðan Skeggi sonur hans. Dalurinn sem Hvammur er í, Skeggjadalur, er sagður kenndur við hann. Skeggi er líka sagður hafa byggt fyrstu kirkju í Hvammi en það er þó mjög óvíst.

Á 12. öld bjó svo Hvamm-Sturla Þórðarson á jörðinni og Snorri Sturluson er fæddur þar. Eftir lát Sturlu bjó Guðný Böðvarsdóttir ekkja hans þar lengi en enginn sona þeirra kaus sér bústað í Hvammi. Teitur Þorleifsson ríki, lögmaður norðan og vestan, bjó þar á fyrri hluta 16. aldar og gaf guði og kirkjunni Hvamm 1531. Ögmundur Pálsson biskup lét svo Daða í Snóksdal hafa Hvamm og fleiri jarðir og af því urðu deilur þeirra Jóns Arasonar, sem lauk þegar Daði handtók biskup og hann var síðan hálshöggvinn.

Nokkru síðar var Hvammur gerður að prestssetri og á meðal presta þar má nefna séra Ketil Jörundarson, afa Árna Magnússonar, sem var fróðleiksmaður. Árni ólst upp í Hvammi hjá honum. Séra Þórður Þórðarson var þar 1721-1739 og skrifaði Hvammsannál. Það orð lá á að prestar væru afar þaulsætnir í Hvammi og afar fáir færu þaðan. Hvammskirkja var vígð 1884.

Á Krosshólaborg í landi Hvamms er minnismerki um Auði djúpúðgu. Sagt er að hún hafi beðist fyrir þar á borginni.