Hrísbrú er býli í Mosfellsdal í Mosfellsbæ.

Fornleifauppgröftur

breyta

Fornleifauppgröftur hefur verið staðið yfir á Hrísbrú frá árinu 1995 á vegum verkefnisins MAP, The Mosfell Archaeological Project. MAP er alþjóðlegt þverfaglegt rannsóknarverkefni þar sem stuðst er við fornleifafræði, sagnfræði, mannfræði, erfðafræði og náttúruvísindi. Samvinna er við Þjóðminjasafn Íslands og Mosfellsbæ. Jesse L. Byock prófessor er framkvæmdastjóri verkefnisins en Davidi Zori, fornleifafræðingur hefur umsjón með uppgreftinum.[1] Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á líf íbúa Mosfellsdals og á svæðinu þar í kring við upphaf landnáms og næstu aldir þar á eftir.[2]

Uppgröftur hófst á tveimur hólum með könnunarskurðum en þeir kallast Kirkjuhóll og Hulduhóll. Þessi örnefni eru forn en einnig höfðu munnmælasögur gengið mann fram að manni að á Kirkjuhóli hafi verið kirkja og að í Hulduhóli væri álfabyggð. Þessu greindi Ólafur Ingimundarson bóndi á Hrísbrú frá en þessar sagnir eru skýring þess að ekki hafði verið hreyft við þessum hólum áður en uppgröftur hófst. [3]

Kirkjuhóll - kirkja og kirkjugarður

breyta

Á Kirkjuhóli var komið niður á leifar byggingar sem talið er geta verið af fjárhúsi. Undir því fannst kirkja og í kring um hana voru grafir. Aldursgreiningar og gjóskulagarannsóknir benda til þess að kirkjan sé frá 10.-11. öld. Undir kirkjunni fannst öskuhaugur og laskaðir torfveggir. Þau lög gætu verið frá þvi um 900 en bíða frekari rannsókna.[4]

Við uppgröftinn kom í ljós steinhlaðinn grunnur kirkjunnar. Kórinn hefur verið 2,5 m á lengd og breidd og fannst óvenju stór tóm gröf undir honum. Kirkjuskipið var 3,2m á breidd og 4,3m á lengd og dyrnar snéru í vestur. Fótstykki kórsins (aursylla) hefur setið á grjótundirstöðu og möl. Litlir steinar voru notaðir til að skorða fótstykkið .[5] Í mölinni fundust leifar af timbri, líklega úr fótstykkinu en það reyndist vera úr síberíulerki (Larix siberica)[6] og þá er það væntanlega rekaviður. Líklega er þarna um stafkirkju að ræða. [7].

Í kirkjugarðinum reyndust sumar grafirnar hafa verið tæmdar. Það bendir til að beinin hafi verið flutt en frá því er sagt í Egils sögu að bein hafi verið flutt frá kirkju á Hrísrú til nýrrar kirkju á Mosfelli í byrjun 12. aldar. Ákvæði um beinaflutning frá aflögðum kirkjum eru einnig í Grágás[8] Við vesturgafl kirkjunnar fundust 9 grafir með beinagrindum í. Þar fundust átta fullorðnir, sex karlmenn og ein kona, auk þess ein beinagrind sem ekki var hægt að kyngreina. Einnig var þar beinagrind af barni, illa varðveitt. Norðan við kirkjuna voru 5 grafir, allt karlar. Í gröfunum fundust kistuleifar og líkkistunaglar. Í einni gröfinni fannst útskorið hvalbein og ein beinagrindin virðist hafa haldið um staf. Einnig fundust viðarleifar og brot af járnpotti. Í heiðnum sið var algengt að grafa muni með líkum og hefur þetta verið túlkað þannig að þarna skarist áhrif heiðni og kristni.[9]

Hulduhóll

breyta

Hulduhóll virðist að hluta til vera manngerður. Í hólnum fundust leifar í 5 cm jarðvegslagi og hefur það verið túlkað sem líkbrennslustaður frá víkingaöld. Þarna var lag af viðarkolum, öskulag og brennd bein úr hauskúpu manns. Einnig voru þarna beinbrot og leifar af bronsplötu og járnplötu. Höfuðkúpubrotin voru öll úr sama einstaklingi, dreifð á 2,5m svæði og ummynduð í kalk. Það gerist við 800°C hita í alllangan tíma. Kolefnisgreiningar á kolaðri trjágrein ú rlaginu benda til að það hafi myndast í kringum kristnitöku. Höfuðkúpubrotin voru greind í Læknaháskólanum í Osló og niðurstaðan var að þau væru öll úr sama einstaklingi sem var líklega á fertugsaldri, en ekki var hægt að ákvarða kyn.[10] Brunakuml eru óþekkt á Íslandi og ef þessi túlkun reynist rétt er þetta það fyrsta sinnar tegundar á landinu.

Skáli

breyta

Skáli er tíu metrum norður af kirkjunni. Húsið er dæmigerður víkingaaldarskáli með bogadregnum hliðum, byggður úr torfi og grjóti og með þeim stærri sem fundist hafa á Íslandi, 25x5m að innanmáli. Langeldur var í miðju húsinu og bekkir til hliðanna. Skálinn er talinn hafa verið þiljaður að innan og einnig var timburgólf í vesturhlutanum.[11] Í skálanum fundust meðal annars 30 perlur[12], ásamt mörgum fleiri gripum. Rannsóknir á torfi í veggjum skálans leiddi í ljós að það var ekki tekið úr túninu nærri skálanum, heldur úr mýrinni nærri Hrísbrú. [13]

Beinarannsóknir

breyta

Rannsókn á beinagrind frá 11.öld bendir til að um 28% af fæðu einstaklingsins hafi verið sjávarfang. Mælingar á strontium samsættum úr glerungi tanna þriggja einstaklinga í kirkjugarðinum sýna að allir voru fæddir og uppaldir á Íslandi. Líkamshæð fólks á Hrísbrú er talin vera lægri en almennt gerðist á Íslandi á sama tíma og gæti bent til að það hafi búið við óblíð kjör. Beinagrindurnar báru merki um slitgigt, sem gæti stafað af vinnuálagi, næringarskort og sjúkdóma. Merki um berkla fundust á tveimur beingrindum. Einnig voru merki um ofbeldi en sjá mátti greinilegt far eftir beitt eggvopn á hauskúpu.[14]


Tilvísanir

breyta
  1. Bycock (á.á.b)
  2. Bycock (á.á.b)
  3. Byock o.fl.(2007 c)
  4. Byock o.fl.(2007 c)
  5. Byock o.fl.2007 c)
  6. Byock( 2011 a)
  7. Byock (á.á.d)
  8. Grágás bls.10
  9. Byock o.fl.(2007 c).
  10. Byock o.fl.(2007 c)
  11. Byock,(á.á d)
  12. Byock,(á.á d)
  13. Bathurst, Zori & Byock (2010)
  14. Walker o.fl.(2004)

Heimildir

breyta
  • Bathurst, R.;D.Zori; J. Byock . „Diatoms as bioindicators of site use: locating turf structures from the Viking Age“. Journal of Archaerological Scene. 37(2010) 2920-2928
  • Byock, Jesse. (2011 a). „Research in Mosfellsdalur." Fyrirlestur, fluttur á fundi Félags íslenskra Fornleifafræðinga þann 19. desember 2011. http://fornleifafelag.org/?p=436 Geymt 29 september 2012 í Wayback Machine á heimasíðu Félags íslenskra fornleifafræðinga. Skoðað 23. febrúar 2012.
  • Byock, Jesse, (á.á.b) „The Mosfell Archaeological Project (MAP)“ http://www.viking.ucla.edu/mosfell_project/index.html. Skoðað 23. febrúar 2012.
  • Byock, Jesse; P. Walker; J. Erlandson; P.Holck; D.Zori; M. Guðmundsson & M. Tveskov (2007 c), „Valdamiðstöð í Mosfellsdal: Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú og Mosfelli. hjá Steinunn Kristjánsdóttir og Vala Björg Garðarsdóttir (ritstj.) Félagatal Ólafía-Rit Fornleifafræðingafélags II. http://www.viking.ucla.edu/archaeology/index.html skoðað 23. febrúar 2012
  • Byock, Jesse (á.á d). „MAP — Mosfell Archaeological Project Fornleifaverkefnið í Mosfellsdal“ http://www.viking.ucla.edu/archaeology/index.html, skoðað 23. febrúar 2012
  • Egils saga (1987). Íslendinga sögur og þættir. Í Bragi Halldórsson, Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson (ritstj.). Fyrsta bindi. Reykjavík: Svart á hvítu.
  • Grágás, lagasafn íslenska þjóðveldisins, 1992, Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður
  • Kristján Eldjárn,(1956). „Kuml og haugfé". Reykjavík:Bókaútgáfan Norðri.bls.225.
  • Walker P.L.; J. Byock, J. T. Eng, J.M. Erlandson, P. Holk, K. Prizer, M.A. Tveskov,(2004). „ Bioarchaeological evidence for the health status of an early Icelandic population“. Paper presented ar the 73rd meeting of the American Association of Physical Anthropologists, Tampa Florida