Holstentor er borgarhlið í Lübeck og eitt þekktasta mannvirkið í Þýskalandi. Holstentor er helsta kennileiti borgarinnar og eitt af tveimur miðalda borgarhliðum sem enn standa í borginni (hitt er Burgtor). Hliðið er á heimsminjaskrá UNESCO ásamt stórum hluta miðborgarinnar.

Holstentor er eitt þekktasta mannvirki Þýskalands. Til vinstri er Maríukirkjan, til hægri eru salthúsin.

Lega og lýsing

breyta

Holstentor stendur við ána Trave í miðborg Lübeck og var vesturhlið gömlu borgarmúranna. Hliðið sneri í átt að Holtsetalandi (á þýsku: Holstein) og þaðan er nafnið til komið. Byggingin var miklu stærri áður fyrr. Eiginlega var um fjögur hlið að ræða sem fara þurfti í gegn til að komast inn í borgina, en núvernadi hlið er það eina sem eftir stendur. Holstentor er með tvo háa turna og nokkra minni turna þar á milli. Það er ekki bara venjulegt borgarhlið, heldur eiginlegt varnarvirki. Á vesturhlið (úthlið) eru skotraufar fyrir fallbyssur. Suðurendinn hefur sigið talsvert, þannig að hliðið er rammskakkt og stafaði af því hætta á hruni á tímabili. Á austurhliðinni er platti með áletruninni: S.P.Q.L., ásamt ártölunum 1477 og 1871. Skammstöfunin er eftirhermun á skammstöfun Rómaveldis (S.P.Q.R.) og stendur fyrir Senatus populusque Lubesensis (þingið og fólkið í Lübeck). Fyrra ártalið stendur fyrir vígsluárið og það seinna fyrir árið sem hliðið var gert upp. Á vesturhliðinni er annar platti með áletruninni: Concordia domi foris pax (eining að innan, friður að utan).

Saga Holstentor

breyta
 
Teikning af hliðunum fjórum. Núverandi hlið er nr. 2 frá vinstri.

Hliðin fjögur

breyta

Holstentor var upphaflega byggt innan við Trave, en hliðin voru fjögur þegar mest lét. Þá var eitt fyrir innan Trave og þrjú fyrir utan. Talið er að elsta hliðið hafi verið reist 1376 ásamt því að ný brú var lögð yfir Trave. Með tilkomu betri skotvopna á 15. öld var ákveðið að reisa annað og betra hlið. Það var vígt 1478 að talið er (ekki 1477 eins og stendur á plattanum). Þetta hlið er núverandi Holstentor eins og það er í dag. Á 16. öld var nýr virkisveggur lagður fyrir utan hliðið nr. 2 og því reis enn eitt hlið, þriðja hliðið. Það var fullgert 1585. 1621 var svo fjórða hliðið reist. Það var að sama skapi fyrsta hliðið sem hvarf aftur, árið 1808, aðeins tveimur árum eftir að Frakkar réðust á borgina.

Árás Frakka

breyta

1806 voru Frakkar á þýskri grundu. Napoleon hafði sigrað í orrustunum við Jena og Auerstedt. Blücher herforingi fór fyrir prússneska hernum. Hann náði að safna liði og bjarga 34 fallbyssum og flýja til Lübeck. Frakkar fylgdu í humátt á eftir og réðust á borgina tveimur dögum eftir að Blücher komst þangað. Þar sem Holstentor var of sterkt vígi fyrir Frakka, einbeittu þeir sér að Burgtor, sem var miklu veikara. Eftir harða bardaga komust Frakkar inn í borgina og náðu henni smám saman á sitt vald. Blücher ákvað því að hörfa og notaði til þess Holstentor meðan Frakkar fóru rænandi um borgina. Þetta voru einu bardagar sem fram hafa farið við Holstentor.

Síðustu aldir

breyta
 
Sýningarsalur í einum turninum

Í upphafi iðnbyltingarinnar í borginni var þörf fyrir meira athafnasvæði. Því þurftu borgarmúrar og borgarhlið að víkja. 1808 rifu Frakkar fjórða hliðið. 1828 var fyrsta hliðið rifið og 1853 þurfti þriðja hliðið að víkja fyrir lagningu járnbrautarlínu. Til stóð að rífa annað hliðið einnig, en vegna vilja borgarbúa var ákveðið (með eins atkvæða mun) að leyfa því að standa. Hliðið var þá í lélegu ásigkomulagi. Bæði vegna lélegs viðhalds og einnig sökum þess að hliðið seig niður í jarðveginn, um nokkra cm á ári. Þegar hliðið var gert upp seint á 7. áratug 19. aldar voru neðstu skotraufirnar sunnanmegin komnar 50 cm niður í jarðveginn. Hallnn var þá orðinn ískyggilegur. Hliðið var þó gert upp og lauk þeirri vinnu 1871. Síðan þá hefur það verið einkennistákn borgarinnar og er enn. Þó hélt hliðið áfram að síga. 1933-1934 var framkvæmd mikil jarðvinna til að stöðva sigið og mun það hafa tekist að mestu. 1950 var safn innréttað inni í hliðinu. Þar eru munir úr sögu borgarinnar, skipsmódel, stórt módel af borginni eins og hún var áður fyrr, og pyntingarkjallari (sem var fjarlægður 2006).

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta

erlendir