Hilmar Baunsgaard

Forsætisráðherra Danmerkur (1920-1989)

Hilmar Tormod Ingolf Baunsgaard (26. febrúar 1920 – 2. júlí 1989) var forsætisráðherra Danmerkur frá 1968 til 1971. Hann er síðasti danski forsætisráðherrann sem hefur komið úr Róttæka vinstriflokknum.

Hilmar Baunsgaard
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
2. febrúar 1968 – 11. október 1971
ÞjóðhöfðingiFriðrik 9.
ForveriJens Otto Krag
EftirmaðurJens Otto Krag
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. febrúar 1920
Slagelse, Danmörku[1]
Látinn2. júní 1989 (69 ára) Kaupmannahöfn, Danmörku
DánarorsökHjartaáfall
ÞjóðerniDanskur
StjórnmálaflokkurRóttæki vinstriflokkurinn
MakiEgone Baunsgaard (1944-1989)

Ferill breyta

Hilmar Baunsgaard var menntaður í verslunarfræði og starfaði í viðskiptum í einkageiranum. Hann gekk í Róttæka vinstriflokkinn og var einn af leiðtogum flokksins frá árinu 1948. Sama ár varð hann formaður ungliðahreyfingar flokksins og gegndi því hlutverki til ársins 1951. Árið 1957 var hann kjörinn á danska þingið og hóf þingsetu sem entist til ársins 1977. Hann var verslunarráðherra í samsteypustjórn Róttæka vinstriflokksins og Jafnaðarmannaflokksins á forsætisráðherratíðum Viggo Kampmann og Jens Otto Krag frá 1961 til 1964. Nokkuð bar á ósætti milli flokkanna í stjórninni varðandi afstöðu Krags til söluskatta og hinnar svokölluðu heildarlausnar.

Hilmar Baunsgaard gerði sér grein fyrir möguleikum sjónvarpsins í stjórnmálum og það var ekki síst með því að biðla til kjósenda í gegnum sjónvarpsútsendingar sem Róttæka vinstriflokknum tókst að tvöfalda þingfylgi sitt í kosningum árið 1968.[2] Baunsgaard varð í kjölfarið forsætisráðherra Danmerkur í samsteypustjórn ásamt Venstre og Íhaldssama þjóðarflokknum. Í samfélagsmálum var stjórn hans ein sú róttækasta í sögu Danmerkur og stóð hún meðal annars fyrir lögleiðingu á þungunarrofum og afléttingu á ritskoðun kláms. Stjórnin átti hins vegar í vandræðum með síaukna skattbyrði og með samskipti við jaðarmenningu danskra ungmenna. Aftur var kallað til þingkosninga árið 1971. Róttæka vinstriflokknum tókst að halda öllum þingsætum sínum en stjórnin missti hins vegar meirihluta sinn og Krag varð því forsætisráðherra á ný.

Baunsgaard var helsti hugsuðurinn á bak við NORDEK, sem var fyrirhugað efnahagsbandalag Norðurlandanna svipað Evrópska efnahagsbandalaginu. Svíar, Norðmenn og Íslendingar tóku vel í hugmyndina en hún féll að endingu um sjálfa sig því Finnar vildu ekki styðja hana af ótta við að skaða samband sitt við Sovétríkin. Danmörk gekk að endingu í Evrópska efnahagsbandalagið.

Vegna innanflokksdeilna gat Baunsgaard ekki haldið áfram sem leiðtogi Róttæka vinstriflokksins. Árið 1977 hætti hann á þingi og gerðist formaður ritstjórnar Politiken.

Einkahagir breyta

Hilmar Baunsgaard var bróðir stjórnmálamannsins Bernhards Baunsgaard. Eiginkona hans var Egone Baunsgaard.

Baunsgaard er grafinn í Ordrup-kirkjugarðinum.

Ritverk breyta

  • Bidragsyder til Meninger om Danmark og EF. Aktuelle Bøger, 1972. ISBN 87-7000-054-9
  • Bidragsyder til Debat om forsvaret. Hasselbalch, 1967.

Ítarefni breyta

  • Henning Nielsen, Hilmar Baunsgaard – Statsminister med tv-tække, Syddansk Universitetsforlag, 2005. ISBN 978-87-7838-316-7.

Tilvísanir breyta

  1. „Hilmar Baunsgaard“. Lesbók Morgunblaðsins. 31. janúar 1971. bls. 12-14.
  2. Siune, Karen (1984). "Bestemmer TV valgresultatet?" í Elklit, Jørgen & Tonsgaard, Ole (ritstj.) Valg og vælgeradfærd – Studier i dansk politik. Århus: Forlaget Politica, bls. 132. ISBN 87-7335-058-3.


Fyrirrennari:
Jens Otto Krag
Forsætisráðherra Danmerkur
(2. febrúar 196811. október 1971)
Eftirmaður:
Jens Otto Krag