Olga af Kænugarði

(Endurbeint frá Helga af Kænugarði)

Olga (kirkjuslavneska: Ольга; fornnorræna: Helga; u.þ.b. 890–925 – 969) var ríkisstjóri Kænugarðsríkisins í nafni sonar síns, Svjatoslavs, frá 945 til 960. Eftir skírn sína tók Olga upp nafnið Elena. Hún er þekkt fyrir að sigra Drevljana, þjóðflokkinn sem hafði drepið eiginmann hennar, Ígor, og leggja þá undir Garðaríki.

Furstynja af Kænugarði
Rúriksætt
Olga af Kænugarði
Olga
Ríkisár 945–960
SkírnarnafnѠлена
FæddU. þ. b. 890–925
 Pleskov eða Vybuty, Garðaríki
Dáin11. júlí 969
 Kænugarðu, Garðaríki
GröfTíundarkirkjan í Kænugarði
Konungsfjölskyldan
Faðir Óþekktur
Móðir Óþekkt
EiginmaðurÍgor af Kænugarði
BörnSvjatoslav 1.

Þrátt fyrir að það hafi verið sonarsonur Olgu, Valdimar, sem gerði kristni að ríkistrú í Garðaríki var Olga fyrsti leiðtogi Garðaríkis sem tók skírn. Olga er þess vegna hyllt sem dýrlingur innan rétttrúnaðarkirkjunnar og er talin „jafningi postulanna“. Dýrlingadagur hennar er 11. júlí.

Æviágrip

breyta

Samkvæmt annálnum Sögu liðinna ára eftir Nestor sagnaritara var Olga frá Pskov. Árið 911 giftist hún Ígori, syni Rúriks fursta af Hólmgarði. Ígor varð fursti í Kænugarði eftir að frændi hans, furstinn Oleg (eða Helgi), lést árið 913.[1]

Barátta Olgu við Drevljani

breyta

Ígor var drepinn árið 945 þegar hann reyndi að heimta skatt af þjóðflokki Drevljana í borginni Ískorosten. Olga var þá stödd í Kænugarði ásamt barnungum syni þeirra Ígors, Svjatoslav.[2] Eftir dráp Ígors gengu Drevljanir á fund Olgu og kröfðust þess að hún giftist konungi þeirra, Mal. Olga þóttist í fyrstu ætla að samþykkja bónorðið og sagði sendimönnum Drevljana að hún vildi sýna þeim sæmd með því að láta bera þá heim í báti. Þegar þeir voru komnir í bátinn lét hún hins vegar fleygja þeim ofan í gryfju sem hún hafði látið grafa og lét síðan grafa þá lifandi.[3]

Olga gerði því næst boð til Drevljana og sagði þeim að þeir yrðu að senda bestu menn sína á hennar fund til þess að hún gæti tekið bónorði konungsins, því annars myndu Kænugerðingar ekki leyfa henni að fara. Þegar næsta sendinefnd Drevljana kom til hennar lét hún hins vegar loka hana inni í baðstofu og brenna hana inni.[4]

Næst sendi Olga boð til Drevljana og sagðist vera á leiðinni til þeirra ásamt sendinefndinni til þess að giftast Mal. Hún kom á fund þeirra og sagðist vilja halda erfidrykkju fyrir eiginmann sinn við gröf hans. Þegar Drevljanir höfðu drukkið sig til óvitis segir Saga liðinna ára frá því að Olga hafi skipað sveit sinni að höggva þá og hafi þeir drepið fimm þúsund Drevljana þetta kvöld. Síðan hafi hún snúið aftur til Kænugarðs til að safna liði.[5]

Árið 946 hafði Olga safnað herliði og gerði árás á land Drevljana. Hún fór með syni sínum, Svjatoslav, og herliði þeirra og sat um borgina Ískorosten í heilt ár, án þess þó að borgin félli.[6] Samkvæmt Sögu liðinna ára bauðst hún síðan til þess að stöðva umsátrið gegn því að Drevljanir greiddu henni skatt og krafði þá um að færa sér þrjá spörva og þrjár dúfur úr hverju húsi. Drevljanir gengu að þessu en þegar þeir höfðu fært Olgu fuglana skipaði hún her sínum að binda glóandi tundur við hvern þeirra og sleppa þeim svo. Fuglarnir flugu aftur í hreiður sín í borginni og báru þannig eld að henni svo hún brann niður. Þannig á Olga að hafa hertekið borgina, tekið öldunga hennar til fanga og drepið aðra, og heimti skatt af þeim sem eftir voru.[7]

Skírn Olgu

breyta

Árið 955 ferðaðist Olga til Miklagarðs og gekk á fund Konstantíns Býsanskeisara. Hún féllst þar á að láta skírast til kristinnar trúar, með því skilyrði að keisarinn og patríarkinn skírðu hana sjálfir.[8]

Olga reyndi að telja son sinn, Svjatoslav, á að taka einnig skírn en tókst ekki að sannfæra hann. Svjatoslav lét engu að síður ekki ofsækja þegna sína sem kusu að taka upp kristni heldur gerði gys að þeim.[9]

Olga lést árið 969, stuttu eftir að Svjatoslav hafði tilkynnt henni að hann hygðist færa stjórnsetur sitt frá Kænugarði til Perejaslavets við Dóná.[10]

Tilvísanir

breyta
  1. Rússa sögur og Igorskviða. Þýðing eftir Árna Bergmann. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. 2009. bls. 56. ISBN 978-9979-66-238-9.
  2. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 59.
  3. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 61.
  4. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 62.
  5. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 62-63.
  6. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 63.
  7. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 65.
  8. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 66.
  9. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 69.
  10. Rússa sögur og Igorskviða. bls. 70.