Heimastjórnarsamtökin

Heimastjórnarsamtökin voru íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður 10. mars 1991 í aðdraganda kosninga til Alþingis sama ár. Flokkurinn lagði áherslu á að tryggja sjálfstæði Íslands gagnvart Evrópubandalaginu og stóð gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Jafnframt hvöttu Heimastjórnarsamtökin til aukinnar valddreifingar og að lágmarkslaun væru lögbundin. Formaður framkvæmdastjórnar flokksins var Tómas Gunnarsson.

Heimastjórnarsamtökin voru stofnuð fáeinum vikum fyrir þingkosningar. Aðstandendur framboðsins höfðu verið í viðræðum við ýmsa aðila um kosningabandalag eða sameiginlegt framboð, svo sem Þjóðarflokkinn, Flokk mannsins og félaga í Borgaraflokknum. Jafnframt kom til tals að Samtök um jafnrétti og félagshyggju, sérframboð Stefáns Valgeirssonar úr kosningunum 1987 kæmi að framboðinu. Ekkert varð úr þessum áformum, en Stefán Valgeirsson tók þó sæti neðarlega á framboðslista í Norðurlandskjördæmi eystra.

Heimastjórnarsamtökin buðu alls staðar fram á landinu nema í Vestfjarðakjördæmi, en fengu innan við þúsund atkvæði og engan mann kjörinn.

Flokkurinn kærði framkvæmd kosninganna til Alþingis og vísaði meðal annars í að framboðum hefði verið mismunað í fjölmiðlum og áróður hefði verið á kjörstöðum. Kæran bar engan árangur og lognaðist flokkurinn útaf skömmu síðar.