Hans Luther

Þýskur stjórnmálamaður (1879-1962)

Hans Luther (10. mars 1879 – 11. maí 1962) var þýskur stjórnmálamaður sem var kanslari Þýskalands í 482 daga, frá 1925 til 1926. Sem fjármálaráðherra Þýskalands hafði Luther átt þátt í því að koma stöðugleika á þýska markið eftir óðaverðbólguna árið 1923. Frá 1930 til 1933 var Luther bankastjóri þýska ríkisbankans og frá 1933 til 1937 var hann sendiherra Þjóðverja í Washington.

Hans Luther
Kanslari Þýskalands
Í embætti
15. janúar 1925 – 12. maí 1926
ForsetiFriedrich Ebert
Paul von Hindenburg
ForveriWilhelm Marx
EftirmaðurWilhelm Marx
Persónulegar upplýsingar
Fæddur10. mars 1879
Berlín, Prússlandi, þýska keisaraveldinu
Látinn11. maí 1962 (83 ára) Düsseldorf, Vestur-Þýskalandi
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiGertrud Schmidt (1907-1924)
Gertrud Mautz (1953-1962)
TrúarbrögðLúterskur
Börn3
HáskóliChristian-Albrechts-háskólinn í Kíl
Genfarháskóli
Berlínarháskóli
StarfStjórnmálamaður, bankastjóri, lögfræðingur, sendiherra

Æviágrip breyta

Hans Luther fæddist til ríkrar, lúterskrar kaupmannsfjölskyldu í Berlín árið 1879.[1][2]

Luther var kjörinn í borgarráð Magdeburg árið 1907. Hann varð borgarstjóri Essen sumarið 1918. Í byltingunum sem brutust út í lok ársins 1918 tókst honum að telja byltingarmennina á að viðurkenna stöðu hans og vinna með stjórn sinni. Árið 1922 þáði Luther boð um að gerast matvæla- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Wilhelms Cuno. Honum hafði áður verið boðið að gerast innanríkisráðherra og fjármálaráðherra en hafði afþakkað þau ráðuneyti. Luther gerðist fjármálaráðherra þegar Gustav Stresemann tók við kanslaraembættinu árið 1923 og sat áfram í því embætti í ríkisstjórnum Wilhelms Marx. Sem fjármálaráðherra tókst Luther að koma stöðugleika á þýska markið eftir mikla verðbólgu með því að lækka laun ríkisstarfsmanna og hækka skatta.

Eftir þingkosningar sem haldnar voru í desember 1924 kom stjórnarflokkunum ekki saman um hvort þeir ættu að hleypa vinstri- eða hægriflokkum inn í stjórnarsamstarfið til að styrkja minnihlutastjórn Marx. Friedrich Ebert forseti Þýskalands bað því hinn óflokksbundna Luther að mynda ríkisstjórn og gerast kanslari. Luther stofnaði stjórn með aðkomu fjögurra hægri- og miðhægriflokka en skipaði hana að mestu óflokksbundnum stjórnsýslumönnum. Ebert forseti lést þann 28. febrúar 1926 og Luther tók því við skyldum þjóðhöfðingja til bráðabirgða. Í forsetakosningunum sem haldnar voru í kjölfarið vann hershöfðinginn rómaði Paul von Hindenburg sigur.

Luther bauðst til að segja af sér í maí sama ár vegna ágreinings um fána Þýskalands. Luther hafði beðið Hindenburg að undirrita tilskipun sem skyldaði þýskar ríkisstofnanir til að flagga þýska verslunarfánanum auk þjóðfána lýðveldisins. Verslunarfáninn var áþekkur hinum rauða, hvíta og svarta fána þýska keisaraveldisins og því litu lýðveldissinnar á þingi á fánamálið sem árás á lýðveldið, sérstaklega í ljósi þess að Hindenburg var kunnur einveldissinni af gamla skólanum. Málið leiddi til þess að Luther féll fyrir vantrauststillögu á þinginu[3] og Marx varð kanslari á ný.

Eftir kanslaratíð sína varð Luther bankastjóri þýska ríkisbankans árið 1930. Hann sagði af sér að tilskipan Adolfs Hitler árið 1933 eftir valdatöku nasista í Þýskalandi. Hitler bauð Luther þess í stað að gerast sendiherra til Bandaríkjanna. Luther þáði boðið og gegndi sendiherraembættinu til ársins 1937.

Tilvísanir breyta

  1. „Biografie Hans Luther (á þýsku)“. Bayerische Nationalbibliothek. Sótt 31. ágúst 2018.
  2. „Biografie Hans Luther (á þýsku)“. Deutsches Historisches Museum. Sótt 31. ágúst 2018.
  3. Clingan, C. Edmund (2010). The Lives of Hans Luther, 1879–1962: German Chancellor, Reichsbank President, and Hitler's Ambassador. Lexington Books. bls. 66.


Fyrirrennari:
Wilhelm Marx
Kanslari Þýskalands
(15. janúar 192512. maí 1926)
Eftirmaður:
Wilhelm Marx