Wilhelm Cuno

Kanslari Þýskalands (1876-1933)

Wilhelm Carl Josef Cuno (2. júlí 1876 – 3. janúar 1933) var þýskur athafnamaður og stjórnmálamaður sem var kanslari Þýskalands frá 1922 til 1923, í alls 264 daga. Á kanslaratíð hans hertóku franskir og belgískir hermenn Ruhr-héraðið í vesturhluta Þýskalands og verðbólga jókst svo mjög að farið var að stefna í óðaverðbólgu. Cuno var einnig framkvæmdastjóri Hapag-skipafélagsins.

Wilhelm Cuno
Kanslari Þýskalands
Í embætti
22. nóvember 1922 – 12. ágúst 1923
ForsetiFriedrich Ebert
ForveriJoseph Wirth
EftirmaðurGustav Stresemann
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. júlí 1876
Suhl, Þýska keisaraveldinu
Látinn3. janúar 1933 (56 ára) Aumühle, Weimar-lýðveldinu
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiMartha Berta Wirtz
TrúarbrögðKaþólskur
Börn3
HáskóliHumboldt-háskólinn í Berlín
Háskólinn í Heidelberg
StarfStjórnmálamaður, athafnamaður

Æviágrip breyta

Cuno fæddist í bænum Suhl, sem var þá í prússneska Saxlandi en er nú í Þýringalandi.[1] Hann nam lögfræði í háskólum í Berlín og Heidelberg og útskrifaðist með doktorsgráðu. Frá 1907 til 1912 vann hann ýmis störf fyrir þýska fjármálaráðuneytið og síðar fyrir ríkisþingið. Á meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð vann Cuno við að skipuleggja sendingar matarbirgða til þýska hersins. Eftir stríðslok vann hann sem fjármálaráðgjafi fyrir ríkisstjórnir nýja Weimar-lýðveldisins.

Cuno féllst á að mynda eigin ríkisstjórn eftir að Joseph Wirth kanslari sagði af sér í nóvember árið 1922. Sem kanslari skipaði Cuno ríkisstjórn sína aðallega óflokksbundnum hagfræðingum og öðrum sérfræðingum. Ríkisstjórn Cuno var ýmist kölluð „viðskiptastjórnin“, „hagfræðingastjórnin“ eða „persónuleikastjórnin“ (Geschäftsministerium, Regierung der Wirtschaft og Kabinett der Persönlichkeiten) þar sem hún var ekki formlega mynduð með stjórnarsamstarfi þingflokka.[1][2][3]

Þjóðverjar bundu miklar vonir við ríkisstjórn Cunos en bandamenn, að frumlagi franska forsætisráðherrans Poincaré, höfnuðu tillögum hans um endursamningu stríðsbótaupphæðarinnar. Þegar Þjóðverjum tókst ekki að greiða viðar- og kolagreiðslur á tilsettum tíma ákváðu Frakkar og Belgar að hertaka Ruhr-héraðið. Cuno kallaði á eftir því að Þjóðverjar sýndu hernámsliðinu friðsamlega andspyrnu: Hætt var að senda skaðabætur til Frakka og Belga, námum var skipað að senda birgðir sínar ekki til þessara landa og ríkisstarfsmönnum á hernámssvæðinu var skipað að óhlýðnast skipunum hernámsliðsins.

Hernámið frysti efnahag Ruhr-héraðsins, sem var helsti iðnkjarni Þýskalands. Þetta kom af stað mikilli verðbólgu og Cuno tókst ekki að stöðva hana þar sem Poincaré neitaði að semja við Þjóðverja nema að andspyrnunni yrði fyrst hætt. Að endingu báru Jafnaðarmenn á þingi fram vantrauststillögu gegn ríkisstjórn Cunos sem var samþykkt þann 12. ágúst 1923.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 „Biografie Wilhelm Cuno (á þýsku)“. Bayerische Nationalbibliothek. Sótt 31. ágúst 2018.
  2. „Das Kabinett Cuno - Einleitung (á þýsku)“. Bundesarchiv. Sótt 31. ágúst 2018.
  3. „Biografie Wilhelm Cuno (á þýsku)“. Deutsches Historisches Museum. Sótt 31. ágúst 2018.


Fyrirrennari:
Joseph Wirth
Kanslari Þýskalands
(22. nóvember 192212. ágúst 1923)
Eftirmaður:
Gustav Stresemann