Manngerðir hellar á Íslandi
Manngerðir hellar eru göng eða hvelfingar sem menn hafa holað í hart eða hálfhart berg. Á Suðurlandi allt frá Ölfusi og austur í Mýrdal eru manngerðir hellar víða á bæjum. Vitað er um meira en 170 hella á þessum slóðum og eru sumir þeirra ævagamlir. Í öðrum landshlutum eru manngerðir hellar nánast óþekktir. Hellarnir voru jafnan taldir til hlunninda, enda traustari og viðhaldsbetri hús en þau sem hlaðin voru úr torfi og grjóti. Til eru hellar sem gegna sínu gamla hlutverki enn í dag sem fjárhús, hlöður eða geymslur, en víðast hafa þeir lotið í lægra haldi fyrir járnbentri steinsteypu nútímans. Þegar hætt er að nota þá hnignar þeim ört eins og öðrum byggingum sem svo fer um. Nú eru síðustu forvöð eru að skoða og rannsaka marga þessara hella. Oftar en ekki er aldur þeirra gleymdur og nafn byggingameistarans týnt, aðeins er vitað, að hellarnir hafa gegnt hlutverki sínu um mannsaldra. Umdeildar kenningar hafa verið settar fram um tengsl þeirra við dvöl papa á landinu fyrir landnám norrænna manna. Blæja dulúðar hvílir því yfir hellunum. Í mörgum þeirra eru gamlar veggjaristur, fangamörk, ártöl, krossmörk, búmerki og jafnvel rúnir. Þekktustu manngerðir hellar á Íslandi eru Hellnahellir í Landsveit, Ægissíðuhellar við Rangá og Rútshellir undir Eyjafjöllum.
Heimildir
breyta- Árni Hjartarson, Guðmundur J. Guðmundsson og Hallgerður Gísladóttir (1991). Manngerðir hellar á Íslandi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.