Halldór Jónsson hertekni

Halldór Jónsson (15869. mars 1648), kallaður Halldór hertekni, var íslenskur bóndi og lögréttumaður sem hertekinn var í Tyrkjaráninu og fluttur til Marokkó en sneri aftur heim og var í röð merkari bænda á sinni tíð.

Halldór var sonur séra Jóns Jónssonar prests á Stað í Grindavík og konu hans Guðrúnar Hjálmsdóttur. Hann var hertekinn af sjóræningjum úr Barbaríinu undir stjórn Murat Reis á Járngerðarstöðum í Grindavík 20. júní 1627. Á Járngerðarstöðum bjó einnig systir Halldórs, Guðrún Jónsdóttir, ásamt manni sínum Jóni Guðlaugssyni og tveimur sonum þeirra, Jóni stúdent og Helga. Þau voru öll tekin en Jón bóndi var var skilinn eftir í fjörunni því hann var orðinn aldraður og ræningjunum þótti ekki taka því að hafa hann með. Einnig voru tveir bræður þeirra Halldórs og Guðrúnar teknir.

Fjölskyldan var flutt til Salé í Marokkó ásamt öðrum sem teknir voru í Grindavík en það voru alls tólf Íslendingar og þrír Danir, og þar voru þau seld í ánauð. Halldór og Guðrún systir hans voru ekki lengi í Barbaríinu og er sagt að hollenskur maður hafi greitt lausnargjald fyrir þau. Systkinin komust til Danmerkur 1628 og komu heim til Íslands með vorskipum sama ár, en bræður þeirra og synir Guðrúnar urðu eftir. Bræðurnir Helgi og Jón skrifuðu foreldrum sínum bréf 1630 og voru þá þrælar. Helgi var keyptur laus 1636 og sneri heim en Jón kom ekki aftur.

Halldór hertekni, sem var að sögn fatlaður eftir misþyrmingar ræningjanna, skrifaði frásögn af ráninu og herleiðingunni. Hún var í fórum Árna Magnússonar og brann í eldinum í Kaupmannahöfn 1728 en áður hafði Björn Jónsson á Skarðsá notað hana í frásögn sinni af Tyrkjaráninu og er því efni hennar varðveitt.

Halldór kvæntist Guðbjörgu Oddsdóttur og bjuggu þau á Hvaleyri við Hafnarfjörð. Hann var mektarbóndi, var orðinn lögréttumaður árið 1637 og gegndi því embætti til dauðadags. Frá þeim hjónum eru komnar miklar ættir.

Legsteinn Halldórs hertekna er í Garðakirkjugarði á Álftanesi og hljóðar grafskriftin svo: „Hjer under hvíler greptraður erlegur, krossreindur og rjett-trúaðurr maður, Halldór Jónsson, samtt hans sonarson. Ifirunnu i Christo, eru sigursins hluttakande orðner og deia ekki meir. Vegferðardagar 62 ár. Sofnaðe í guðe anno 1648, 9. Marci.“

Heimildir

breyta
  • „„Njarðvíkurbændur." Faxi, 6. tbl. 1947“.
  • „„Tyrkjaránið Grindavík." Á www.ferlir.is, skoðað 25. febrúar 2012“.
  • „„Gamlir legsteinar í Görðum á Álftanesi." Árbók hins íslenska fornleifafélags, 17. árgangur 1904“.