Björn Jónsson á Skarðsá
Björn Jónsson á Skarðsá (1574 – 29. júní 1655) var lögréttumaður en einkum þekktur sem höfundur Skarðsárannáls. Hann var sonur Jóns Jónssonar bónda á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd í Skagafirði og Guðrúnar Ketilsdóttur en missti föður sinn átta ára gamall og ólst upp hjá Sigurði Jónssyni lögmanni af Svalbarðsætt, bróður Magnúsar prúða. Hann bjó á Skarðsá í Skagafirði frá 1605 til dauðadags og varð lögréttumaður árið 1616. Hann lést úr steinsótt.
Björn var óskólagenginn en eftir hann liggja meðal annars skýringar á lögbókum og samantekt um Tyrkjaránið. Þorlákur Skúlason biskup fékk hann til að rita annála og er sagt að hann hafi fengið tólf ríkisdali árlega fyrir ritunina. Skarðsárannáll er ein af helstu heimildum um atburði á Íslandi frá 1400 til 1640.