Haganesvík
66°04′39″N 19°07′47″V / 66.07750°N 19.12972°V
Haganesvík er bæjahverfi og áður lítið kauptún í Fljótum í Skagafirði. Mikil útgerð var í Fljótum fyrr á öldum, ekki síst hákarlaútgerð, og í Haganesvík voru lengi þurrabúðir. Haganesvík varð svo löggiltur verslunarstaður árið 1897 og Einar Baldvin Guðmundsson bóndi á Hraunum, flutti þangað árið 1901 verslun sem hann hafði áður haft heima hjá sér frá 1879. Seinna var hann verslunarstjóri Gránufélagsins til 1910. Hinar sameinuðu íslensku verslanir tóku svo við rekstrinum og ráku verslun sína til 1922, en frá árinu 1919 var kaupfélag, Samvinnufélag Fljótamanna, starfandi í Haganesvík og rak þar verslun fram á 8. áratug 20 aldar. Þá sameinaðist það Kaupfélagi Skagfirðinga, sem rak verslunina áfram.
Í Haganesvík var líka reist sláturhús og frystihús. Höfnin var ótrygg, enda fyrir opnu hafi, en steinsteypt bryggja var gerð árið 1951. Hún eyðilagðist í óveðri fyrir allnokkrum árum. Þar var lengi útgerð smábáta, en í seinni tíð eru þar settir upp og geymdir bátar, sem að vor- og sumarlagi eru settir fram og gerðir út á grásleppu og strandveiði frá Siglufirði. Póstafgreiðsla og símstöð var í Haganesvík og einnig félagsheimili. Hnignun Haganesvíkur hófst þegar vegarstæðið var fært á núverandi stað, þá varð staðurinn úr leið og ekki leið á löngu þar til verslunin var færð að Ketilási. Nú eru aðeins nokkur íbúðarhús eftir í Haganesvík, mest sumardvalarhús.
Heimild
breyta- Jarða- og búendatal Skagafjarðarsýslu 1785-1949. IV. bindi. Sögufélag Skagfirðinga, 1959.