Haganesvík

bæjahverfi og áður lítið kauptún í Fljótum í Skagafirði

66°04′39″N 19°07′47″V / 66.07750°N 19.12972°V / 66.07750; -19.12972

Séð yfir Hópsvatn til Haganesvíkur.

Haganesvík er bæjahverfi og áður lítið kauptún í Fljótum í Skagafirði. Mikil útgerð var í Fljótum fyrr á öldum, ekki síst hákarlaútgerð, og í Haganesvík voru lengi þurrabúðir. Haganesvík varð svo löggiltur verslunarstaður[1] árið 1897 og Einar Baldvin Guðmundsson bóndi á Hraunum, flutti þangað árið 1901 verslun sem hann hafði áður haft heima hjá sér frá 1879.[2] Seinna var hann verslunarstjóri Gránufélagsins til 1910. Hinar sameinuðu íslensku verslanir tóku svo við rekstrinum og ráku verslun sína til 1922, en frá árinu 1919 var kaupfélag, Samvinnufélag Fljótamanna, starfandi í Haganesvík og rak þar verslun fram á 8. áratug 20 aldar.[3] Þá sameinaðist það Kaupfélagi Skagfirðinga, sem rak verslunina áfram.[1]

Í Haganesvík var líka reist sláturhús og frystihús.[1] Höfnin var ótrygg, enda fyrir opnu hafi, en steinsteypt bryggja var gerð árið 1951. Hún eyðilagðist í óveðri fyrir allnokkrum árum. Þar var lengi útgerð smábáta, en í seinni tíð eru þar settir upp og geymdir bátar, sem að vor- og sumarlagi eru settir fram og gerðir út á grásleppu og strandveiði frá Siglufirði. Póstafgreiðsla og símstöð var í Haganesvík og einnig félagsheimili. Hnignun Haganesvíkur hófst þegar vegarstæðið var fært á núverandi stað, þá varð staðurinn úr leið og ekki leið á löngu þar til verslunin var færð að Ketilási. Nú eru aðeins nokkur íbúðarhús eftir í Haganesvík, mest sumardvalarhús.[4]

Heimild

breyta
  • Jarða- og búendatal Skagafjarðarsýslu 1785-1949. IV. bindi. Sögufélag Skagfirðinga, 1959.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 „Haganesvík - NAT ferðavísir“. 4 maí 2020. Sótt 24 apríl 2025.
  2. „Einar B. Guðmundsson“. Alþingi. Sótt 24 apríl 2025.
  3. „Sveitarstjórnarmál - 5. tölublað (01.10.1984) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 24 apríl 2025.
  4. Unnarsson, Kristján Már (10. desember 2022). „Haganesvík langt frá því að vera eitthvert Disneyland - Vísir“. visir.is. Sótt 24 apríl 2025.