Habib Bourguiba
Habib Bourguiba (3. ágúst 1903 – 6. apríl 2000) var stofnandi og fyrsti forseti Lýðveldisins Túnis. Hann gegndi forsetaembættinu í þrjátíu ár, frá 1957 til 1987. Þar áður hafði hann leikið lykilhlutverk í sjálfstæðisbaráttu Túnis undan Frakklandi og hafði verið forsætisráðherra Túnis frá 1956 til 1957.
Habib Bourguiba | |
---|---|
حبيب بورقيبة | |
Forseti Túnis | |
Í embætti 25. júlí 1957 – 7. nóvember 1987 | |
Forsætisráðherra | Bahi Ladgham Hédi Nouira Mohammed Mzali Rachid Sfar Zine El Abidine Ben Ali |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | Zine El Abidine Ben Ali |
Forsætisráðherra Túnis | |
Í embætti 11. apríl 1956 – 25. júlí 1957 | |
Þjóðhöfðingi | Múhameð 8. al-Amin |
Forveri | Tahar Ben Ammar |
Eftirmaður | Bahi Ladgham |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 3. ágúst 1903 Monastir, Túnis |
Látinn | 6. apríl 2000 (96 ára) Monastir, Túnis |
Þjóðerni | Túniskur |
Stjórnmálaflokkur | Sósíalíski Destour-flokkurinn (1964–87) Neo-Destour (1934–64) Destour (1930–34) |
Maki | Mathilde Lorrain (g. 1927; sk. 1961) Wassila Ben Ammar (g. 1962; sk. 1986) |
Börn | 2 |
Háskóli | Parísarháskóli |
Starf | Lögfræðingur |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaHabib Bourguiba fæddist árið 1903 í Monastir í Túnis. Faðir hans var liðsforingi í heimavarnarliði landsins, sem þá var verndarsvæði undir yfirráðum Frakklands.[1] Faðir Habibs sendi hann til náms í París, þar sem Bourguiba nam lögfræði við Parísarháskóla. Hann sneri aftur til Túnis að loknu námi og gerðist málaflutningsmaður. Hann gekk í túnisku sjálfstæðishreyfingunna Destour en sagði skilið við hana árið 1934 vegna ágreinings við íslamista í flokknum og tók þátt í stofnun nýrra sjálfstæðissamtaka, Neo-Destour.[2] Bourguiba varð framkvæmdastjóri nýja flokksins sama ár.[3]
Árið 1935 var Bourguiba í fyrsta sinn handtekinn af frönskum stjórnvöldum fyrir aðild sína að sjálfstæðisbaráttunni. Hann sat oft í fangelsi og í útlegð næstu ár og varði meðal annars árum seinni heimsstyrjaldarinnar í fangelsi í Frakklandi. Þrátt fyrir ósigur Frakka gegn Þjóðverjum og hernám Frakklands var Bourguiba þess fullviss að Þýskaland gæti ekki unnið styrjöldina og skipaði því stuðningsmönnum sínum að styðja útlegðarstjórn Frjálsra Frakka og starfa með henni á hans ábyrgð og í hans nafni.[3] Þjóðverjar létu sleppa Bourguiba úr haldi árið 1942,[4] fluttu hann til Rómar og buðu honum að gerast leiðtogi túniskrar útlegðarstjórnar með þýskum stuðningi en Bourguiba hafnaði tilboði þeirra. Bourguiba sneri aftur til Túnis árið 1944 og hvatti þá landa sína til að styðja Frakka áfram í styrjöldinni.[1]
Vegna stuðnings síns við Frakka var Bourguiba í sterkri stöðu eftir lok styrjaldarinnar. Hann fékk leyfi til að taka þátt í stjórnmálum á ný og Neo-Destour varð brátt sterkasti stjórnmálaflokkur í Túnis. Bourguiba hlaut um skeið sæti í ríkisstjórn Túnis en vegna síaukinna tilþreifana í sjálfstæðisátt var hann handtekinn á ný árið 1952 og fluttur til Frakklands. Handtaka hans leiddi til mikilla óeirða í Túnis og staða Frakka í nýlendunni varð sífellt erfiðari. Bourguiba sat í fangelsi í tvö ár en þegar Pierre Mendès France varð forsætisráðherra Frakklands árið 1954 ákvað stjórn hans að veita Túnis sjálfstæði sitt. Sem leiðtogi Neo-Destour var Bourguiba í reynd sjálfkjörinn sem fyrsti ríkisstjórnarleiðtogi hins sjálfstæða Túnis. Neo-Destour hlaut nær öll þingsætin í fyrstu kosningum hins nýsjálfstæða ríkis þann 11. apríl 1956.[5]
Eftir sjálfstæði varð Túnis fyrst um sinn konungsríki og Múhameð 8. al-Amin, sem hafði verið leppstjórnandi Frakka með titlinum bey, varð konungur þess. Árið 1957 stóð Bourguiba hins vegar fyrir því að Túnis var lýst lýðveldi og Bourguiba varð sjálfur fyrsti forseti landsins.[5] Við upphaf stjórnartíðar sinnar átti Bourguiba einnig í valdabaráttu gegn öðrum leiðtoga Neo-Destour, Salah ben Youssef, sem hneigðist lengra til vinstri og var hallur undir hugmyndir Nassers Egyptalandsforseta um samheldni Arabaríkjanna.[5] Bourguiba greindi meðal annars á við Nasser og fylgismenn hans þar sem Bourguiba vildi viðhalda vinsamlegu sambandi við Vesturlönd, sér í lagi við gömlu herraþjóðina Frakkland. Í valdabaráttunni varð Bourguiba yfirsterkari, sem leiddi til þess að Youssef flúði úr landi og hlaut hæli hjá stjórn Nassers í Kaíró. Þetta olli miklum kala í samskiptum Bourguiba og Nassers og Bourguiba sleit um skeið samskiptum við Egyptaland.[6]
Í innanríkismálum beitti Bourguiba sér fyrir nútímavæðingu og umbótum í anda Atatürks í Tyrklandi. Hann lét nema úr gildi ýmis gömul íslömsk lög, setti nútímalegri lög um hjónaskilnaði og hvatti Túnisa til þess að halda áfram að vinna á föstunni.[3]
Bourguiba var leiðtogi Túnis í rúm þrjátíu ár og á þeim tíma fór dýrðarljóminn af honum sem sjálfstæðishetju landsins mjög að dofna. Lítið var um eiginlegt lýðræði í Túnis á stjórnartíð hans og Bourguiba réði því lengst af sem einræðisherra. Stjórn hans viðhélt eftirliti með fjölmiðlum og hvatti til persónudýrkunar á forsetanum.[7] Á áttunda áratugnum átti Bourguiba um skeið í viðræðum við Muammar Gaddafi, leiðtoga Líbíu, um að Túnis og Líbía skyldu sameinast í eitt ríki.[8] Aldrei varð þó neitt úr þessum fyrirætlunum.
Árið 1987 skipaði Bourguiba Zine El Abidine Ben Ali forsætisráðherra stjórnar sinnar og var þaðan af litið á Ben Ali sem líklegan eftirmann hans. Þann 7. nóvember sama ár lýsti Ben Ali því yfir að Bourguiba væri elliær og framdi blóðlaust valdarán gegn forsetanum. Leiðtogaskiptin fóru fram í skugga vaxandi óvinsælda Bourguiba og því kipptu fáir Túnisar sér upp við valdaránið.[9]
Bourguiba lést þann 7. apríl árið 2000.[10] Mikið hefur verið deilt um stjórnartíð hans og arfleifð hans til túnisku þjóðarinnar, sérstaklega eftir byltinguna árið 2010.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Habib Bourgíba“. Lesbók Morgunblaðsins. 21. júlí 1963. bls. 2.
- ↑ „Fyrsti forseti Tunis – Habib Bourgiba“. Fálkinn. 11. september 1959. bls. 11.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 „Habib Bourguiba, forseti Túnis“. Samtíðin. 1. júní 1961. bls. 21-23.
- ↑ „Sjálfstæðisbaráttan í Tunis“. Tíminn. 20. febrúar 1952. bls. 5.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 „Í Túnis er aðeins einn Bourguiba“. Tíminn. 17. febrúar 1958. bls. 6; 3.
- ↑ „Búrgíba ræðst harkalega að Nasser“. Morgunblaðið. 17. október 1958. bls. 1.
- ↑ „Bourguiba forseti vill einn öllu ráða í Túnis“. Tíminn. 29. ágúst 1973. bls. 9.
- ↑ „Stirðleg trúlofun“. Vísir. 14. febrúar 1975. bls. 6.
- ↑ Jóhanna Kristjónsdóttir (10. nóvember 1987). „Ben Ali, forseti, virðist njóta trausts Túnisa“. Morgunblaðið. bls. 28.
- ↑ „Tunisie. Le décès du père de l'indépendance. Bourguiba. La mort après l'oubli“. L'Humanité. 7. apríl 2000. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. júní 2005. Sótt 7. júlí 2020.
Fyrirrennari: Tahar Ben Ammar |
|
Eftirmaður: Embætti lagt niður | |||
Fyrirrennari: Fyrstur í embætti Múhameð 8. sem konungur Túnis |
|
Eftirmaður: Zine El Abidine Ben Ali |