H.f. Útvarp er fyrsta útvarpsstöð sem starfrækt hefur verið á Íslandi. Stöðin var í einkaeigu og sendi út á árunum 1926 til 1928. Reksturinn reyndist ekki bera sig og lagði fyrirtækið því upp laupana, en hafði þó náð að kynna Íslendingum möguleika útvarpstækninnar og ýtti þannig undir stofnun Ríkisútvarpsins.

Aðdragandi breyta

Ottó B. Arnar (1894-1972) var rétt kominn yfir fermingu þegar hann réð sig til starfa hjá Landssíma Íslands. Hann starfaði sem símritari og hafði árið 1915, 21 árs að aldri, forgöngu um stofnun Félags íslenskra símamanna. Félagið hóf þegar útgáfu blaðsins Elektron, sem síðar nefndist Símablaðið. Blaðið birti mikið af greinum um það sem nýjast var í heimi tækninnar, þar á meðal um útvarpstæknina. Hin nýja tækni heillaði Ottó, sem hélt bæði til Bandaríkjanna og Bretlands til að kynnast notkunarmöguleikum hennar.

Árið 1924 fékk hann Alþingismanninn Jakob Möller til að flytja frumvarp um sérleyfi til útvarpsrekstrar á Íslandi. Samkvæmt frumvarpinu skyldi fimm nafngreindum einstaklingum, með Ottó sjálfan fremstan í flokki, veitt heimild til stofnunar hlutafélags um rekstur útvarpsstöðvar, Að tíu árum liðnum hefði ríkið kauprétt að stöðinni.

Frumvarpið var samþykkt á þingi árið 1925, en þó með þeirri veigamiklu breytingu að félagið fékk ekki einkaleyfi á sölu útvarpsviðtækja eins og óskað hafði verið eftir. Með þessu var fótunum í raun kippt undan rekstri stöðvarinnar, þar sem tekjur af viðtækjasölu voru ein aðalrekstrarforsendan. Engu að síður var félagið stofnað, hlutafé safnað og fyrsta útvarpssendingin fór fram þann 31. janúar 1926.

Rekstur stöðvarinnar breyta

Útsendingarbúnaði H.f. Útvarps var komið fyrir í loftskeytastöðinni á Melunum, en stúdíó stöðvarinnar var í húsi Búnaðarfélags Íslands. Fyrstu vikurnar var haldið úti tilraunaútsendingum, en formlegur upphafsdagur útvarpsstöðvarinnar var 18. mars 1926 og flutti Magnús Guðmundsson atvinnumálaráðherra opnunarræðuna.

Takmarkaðar upplýsingar eru til um dagskrá þessarar fyrstu útvarpsstöðvar. Á morgnanna var stutt útsending með veðurfregnum og smáfréttum. Aðaldagskráin var á kvöldin með fréttum, sem einkum voru lesnar upp úr Morgunblaðinu, upplestrum, leikritum og söngvum. Þá var stundum útvarpað frá messum um helgar og naut það mikilla vinsælda.

Rekstur H.f. Útvarps var alla tíð þungur, ekki hvað síst úr því að félagið hafði ekki fengið einkaleyfið á viðtækjasölunni. Komið var á laggirnar Félagi útvarpsnotenda, sem ætlað var að tryggja hagsmuni viðtækjaeigenda en í raun var það fyrst og fremst stofnað til höfuðs hlutafélaginu. Hvatti Félag útvarpsnotenda mjög til þess að hið opinbera hefði frumkvæði að stofnun kraftmikillar útvarpsstöðvar.

Þegar komið var fram á árið 1928 var rekstur hlutafélagsins kominn í uppnám. Útsendingar urðu með tímanum stopular og lognuðust að lokum út af. Ekki er ljóst hvenær stöðin sendi síðast út, en vitað er um útsendingar um jólaleytið 1928. Þá um vorið hafði Alþingi samþykkt lög um stofnun Ríkisútvarpsins og voru örlög einkaútvarpsreksturs því ráðin. [1] [2]

Dreifing breyta

Þótt sendistyrkur stöðvarinnar teldist lítill eða um 0,5 kw, náðust útsendingarnar nokkuð víða, s.s. á Norðurlandi. Á Hvammstanga stofnuðu t.a.m. nokkrir menn hlutafélag um kaup á móttökutæki. Hlutafé félagsins var 650 kr. og skiptist í tíu jafna hluta. Fóru útvarpssendingar fram í þinghúsi hreppsins og voru fjölsóttar samkomur. Radíófélagið lagðist niður á árinu 1928, væntanlega um það leyti sem útsendingum H.F. Útvarps var hætt en þráðurinn tekinn upp að nýju með tilkomu Ríkisútvarpsins tveimur árum síðar. Með alemnnri eign útvarpsviðtækja hvarf þó grundvöllurinn fyrir sameiginlegum útvarpskvöldvökum.[3]

Tilvísanir breyta

  1. Gunnar Stefánsson Útvarp Reykjavík. Saga Ríkisútvarpsins 1930-1960. Sögufélag 1997.
  2. Þorsteinn J. Óskarsson Rafeindatækni í 150 ár og þættir úr sögu rafeindavirkja. Félag rafeindavirkja 2001.
  3. „Radíófélagið á Hvammstanga, af vef Skjaladags 2008“.