Högna Sigurðardóttir
Högna Sigurðardóttir (6. júlí 1929 - 10. febrúar 2017) var íslenskur arkitekt sem bjó og starfaði í París.
Högna fæddist í Vestmannaeyjum en lést í Reykjavík.
Foreldrar hennar voru Sigurður Friðriksson og Elísabet Hallgrímsdóttir. Högna átti tvær dætur þær Sólveigu Anspach (1960-2015) kvikmyndaleikstjóra og Þórunni Eddu Anspach (1964).
Ferill
breytaHögna ákvað ung að árum að leggja arkitektúr fyrir sig. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og hélt að því loknu til Parísar árið 1949 og varð fyrsti Íslendingurinn til að leggja stund á nám við listaskólann École des beaux-arts(fr). Hún útskrifaðist þaðan árið 1960 og hlaut viðurkenningu skólans fyrir lokaverkefni sitt og það tryggði henni starfsréttindi í Frakklandi og í kjölfarið opnaði hún teiknistofu í París.[1] Eitt af fyrstu verkum hennar var hönnun íbúðarhúss að Bústaðabraut 11 í Vestmannaeyjum og var það fyrsta húsið á Íslandi sem teiknað var af konu. Húsið eyðilagðist í eldgosinu árið 1973.[2]
Starfsvettvangur Högnu var í París en hún hélt góðum tengslum við Ísland og teiknaði fjögur einbýlishús sem risu á Íslandi, þar á meðal er eitt þekktasta verk hennar, húsið að Bakkaflöt 1 í Garðabæ en það teiknaði hún fyrir hjónin Ragnheiði Jónsdóttur myndlistarkonu og Hafstein Ingvarsson tannlækni. Byggingin hefur oft verið til umfjöllunar í erlendum fagritum á sviði hönnunar og arkitekturs og var hún valin ein af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu í útgáfu alþjóðlegs yfirlitsrits um byggingarlist. Húsið var friðað árið 2009 og árið 2019 valdi BBC það sem eitt af tíu draumahúsum byggð á síðustu öld.[3]
Önnur hús hér á landi sem Högna teiknaði eru Bústaðabraut 11 í Vestmannaeyjum, Hrauntungu 23 og Sunnubraut 37 í Kópavogi og Brekkugerði 19 í Reykjavík. Högna teiknaði einnig tillögu að Sundlaug í Kópavogi og almenningsgarð að Rútstúni í Kópavogi en þeir tillögur komust aldrei til framkvæmda, sama er að segja um tillögur hennar að kapellu í Vestmannaeyjum og sumarhúsabyggð Landsbankans við Álftavatn.[4]
Teikningasafn Högnu er nú í eigu Listasafns Reykjavíkur en hún ánafnaði það listasafninu.[4]
Viðurkenningar
breyta- 1992 - Tók sæti í akademíu franskra arkítekta
- 1994 - Menningarverðlaun DV fyrir byggingarlist
- 2007 - Hlaut heiðursorðu Sjónlistar fyrir einstakt framlag til íslenskrar nútímabyggingalistar[5]
- 2008 - Heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands[1]
- 2010 - Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrar og alþjóðlegrar húsagerðarlistar[6]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Mbl.is, „Andlát: Högna Sigurðardóttir“ (skoðað 17. júlí 2019)
- ↑ Mbl.is, „Fyrsta hús Högnu var í Eyjum“ (skoðað 17. júlí 2019)
- ↑ Frettabladid.is, „Hafsteinshús Högnu eitt af draumahúsum BBC“ (skoðað 17. júlí 2019)
- ↑ 4,0 4,1 Páll Baldvin Baldvinsson, „Hús eftir Högnu Sigurðardóttur“ Fréttablaðið, 14. nóvember 2009 (skoðað 17. júlí 2019)
- ↑ Ruv.is, „Högna Sigurðardóttir látin“ (skoðað 17. júlí 2019)
- ↑ Forseti.is, „Orðuhafaskrá“ Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine (skoðað 17. júlí 2019)