Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna

40°44′58″N 73°58′5″V / 40.74944°N 73.96806°V / 40.74944; -73.96806

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna; frá vinstri: Aðalskrifstofa Sameinuðu þjóðanna, ráðstefnuhöll og Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna eru í New York-borg í byggingum sem arktitektateymi undir stjórn Wallace Harrison hannaði og voru reistar af arkitektastofunni Harrison & Abramovitz. Byggingarnar hafa verið opinberar höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðarnar frá því þær voru fullkláraðar árið 1951. Þær eru í hverfinu Turtle Bay á Manhattan, á um 7 hektara landi við East River. Höfuðstöðvarnar eru stundum nefndar „Turtle Bay“ eftir hverfinu.

Höfuðstöðvarnar hýsa aðalstofnanir Sameinuðu þjóðanna, eins og Allsherjarþingið og Öryggisráðið, en ekki Alþjóðadómstólinn sem er í Haag. Auk höfuðstöðvanna í New York eru Sameinuðu þjóðirnar með þrjár svæðishöfuðstöðvar í Genf í Sviss (frá 1946), Vínarborg í Austurríki (frá 1980) og Naíróbí í Kenía (frá 1996). Þessar aukahöfuðstöðvar njóta úrlendisréttar, eins og höfuðstöðvarnar í New York, en hýsa ekki tilteknar stofnanir.

Höfuðstöðvarnar eru á bandarísku landi en standa utan við bandaríska lögsögu. Samkvæmt samkomulagi milli stofnunarinnar og Bandaríkjastjórnar hafa byggingarnar úrlendisstöðu og eru með sína eigin lögreglu, slökkvilið og aðra öryggisþjónustu; en samþykkja í staðinn að virða flest lög fylkisins og alríkisins.

Engin af 15 aðildarstofnunum Sameinuðu þjóðanna (eins og UNESCO) er með höfuðstöðvar í New York, en sumar undirstofnanir, eins og til dæmis UNICEF, eru þar með aðsetur.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.