Guðrún Eggertsdóttir

Guðrún Eggertsdóttir (16371724) var íslensk hefðarkona á 17. og 18. öld, þekkt fyrir auðsöfnun og hörku við leiguliða sína. Hún bjó lengi ekkja í Saurbæ (Bæ) á Rauðasandi og átti allar jarðir í sveitinni.

Guðrún var dóttir Eggerts Björnssonar ríka á Skarði á Skarðsströnd og Valgerðar Gísladóttur konu hans og var því af ætt Skarðverja. Hún fékk auð úr föðurgarði og giftist Birni Gíslasyni sýslumanni í Bæ, sem einnig var auðugur. Hann var töluvert yngri en hún, fæddur 12. apríl 1650, en dó í ágúst 1679, tæplega þrítugur að aldri, og er sagður hafa látist úr sárasótt. Þau áttu að sögn tvö börn sem bæði dóu kornung. Guðrún bjó áfram ekkja í Bæ í 45 ár og hélt jafnan stórt og mannmargt heimili. Hún lét séra Hjalta Þorsteinsson í Vatnsfirði mála minningartöflu eftir lát Björns og eru þar myndir af þeim hjónum.

Guðrún hefur einkum orðið kunn fyrir harðræði og kúgun sem hún beitti landseta sína en hún átti allar jarðir í Rauðasandshreppi og margar jarðir við Patreksfjörð og Tálknafjörð. Hún þvingaði leigjendurna til að taka við kúgildum sem þeir urðu að ábyrgjast og lét þá einnig fóðra fyrir sig búpening. Mörgum bændum tókst varla að heyja nema fyrir fé húsfreyjunnar í Bæ og eignaðist hún smám saman flestar skepnur í hreppnum. Hún bannaði landsetum sínum að eiga hesta en lét þá taka hesta á leigu hjá sér. En ef stóð svo á að hana vantaði sjálfa hesta til einhvers brúks lét hún sækja hestana til leiguliðanna en gaf þeim engan afslátt af leigugjaldinu á móti. Sumir leiguliðanna voru svo fátækir að þeir áttu ekki potta til að elda og leigði hún þeim þá potta á okurverði, en enginn þorði að mótmæla sökum ofríkis hennar. Ef landsetarnir vildu reyna að afla sér lífsbjargar með fiskveiðum haust og vor voru þeir einnig háðir Guðrúnu því hún átti verstöðvarnar, bátana og veiðarfærin. Hún mun hafa átt 25 báta sem gerðir voru út frá verstöðvum og tók skipsrúmsgjald af mönnum og leigði þeim veiðarfæri og eldunartæki til að sjóða fisk sér til matar.

Slík meðferð á leiguliðum var ekkert einstdæmi en Guðrún mun hafa þótt óvenju harðsækin og getur Árni Magnússon þess sérstaklega í Jarðabókinni en athugasemdir hans þar að lútandi eru á erlendum málum svo ekki gæti hver sem var lesið. Hún safnaði með þessu miklum auði til viðbótar því sem hún hafði erft og var langríkasta kona landsins þegar hún lést.

Heimildir breyta

  • „Þrælahald á Rauðasandi“. Tíminn, 21. júní 1987.
  • „Minningartafla eftir séra Hjalta Þorsteinsson í Vatnsfirði“. Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 78. árg. 1981.