Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (f. 1972) er íslenskur stjórnmálamaður. Hún er með BA-gráðu í sagnfræði frá Harvard og meistaragráðu í heimspeki frá Cambridge í Englandi.

Guðfríður Lilja varð ung kunnur skákmaður og varð 13 ára íslandsmeistari kvenna í skák. Hún varð fyrst kvenna til að gegna formennsku í Skáksambandi Íslands og Skáksambandi Norðurlanda.

Hún hóf afskipti af stjórnmálum fyrir Alþingiskosningarnar 2007 og tók þátt í forvali Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem haldið var sameiginlega fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Þar hafnaði hún í fjórða sæti og tók í kjölfarið annað sætið á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Guðfríður Lilja var varaþingmaður 2007-2009 og gegndi á sama tíma starfi framkvæmdastjóra þingflokksins.

Í febrúar 2009 tilkynnti Guðfríður Lilja um framboð sitt í forvali Vinstri grænna fyrir Alþingiskosningarnar 2009, þar sem hún stefnir á efsta sæti í suðvesturkjördæmi. Við sama tækifæri tilkynnti Ögmundur Jónasson, þingmaður flokksins í kjördæminu, að hann styddi Guðfríði Lilju í toppsætið og stefndi sjálfur á annað sæti.

Maki Guðfríðar Lilju er Steinunn H. Blöndal, hjúkrunarfræðingur og eiga þær saman þrjú börn.

  Þetta æviágrip sem tengist skák er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.