Nykurtjörn í Svarfaðardal er lítið stöðuvatn í 660 m y.s. í fjallinu fyrir ofan Grund. Hún er 150 x 500 m að stærð eða nálægt 7,5 hekturum. Dýpst hefur hún mælst 18 m. Útfall hennar er um lækjarós sunnarlega á vesturbakkanum. Ósinn er þó oftast þurr nema í snjóleysingum og vætutíð. Þetta eru efstu upptök Grundarlækjar. Ofan við Nykurtjörn eru háhnjúkar fjallsins Digrihnjúkur, Litlihnjúkur og Brennihnjúkur, 1100-1200 m háir. Neðan undir hnjúkunum er breiður stallur í fjallinu með fjölda smátjarna og polla. Nykurtjörn er þeirra langmest en þar eru líka Lómatjörn og Hólmatjörn. Ofan við Nykurtjörn og suður frá henni eru hamrar miklir og stallar þar uppi yfir, sem Nykurstallar heita. Sunnan tjarnarinnar er Útburðarhraun, stórgrýtisurð mikil og ill yfirferðar, en norðan hennar smágrýttari urðarhólar. Hrafnabjörg eru skammt neðan Nykurtjarnar og bera nafn með rentu, dökk ásýndum og vinsæll varpstaður hrafna. Neðan undir þeim eru víðáttumiklar mýrar, Hrafnabjargaflatir og síðan Grundarhausar, grónir urðarhólar með fjölmörgum giljum stórum og smáum. Grundargil er þeirra mest og um það fellur Grundarlækur. Stikuð gönguleið er upp að Nykurtjörn sem hefst við bæinn Steindyr.

Nykurtjörn í Svarfaðardal. Brennihnjúkur t.v., Litlihnjúkur t.h., Útburðarhraun er fyrir enda tjarnarinnar. Grundarlækur fellur úr tjörninni hjá hestunum.


Skriðuföll

breyta

Úr Grundargili hafa komið gríðarmiklar skriður og valdið tjóni á túnum og vegum. Strax í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1712 er minnst á skriður þessar. Þar segir um Grund: „Hætt er bænum fyrir því hræðilega skriðufalli sem túnið hefur eyðilagt og sýnist líklegt að þessi skaði eyðileggi jörðina um síðir.“ Nykurtjarnar og Grundarlækjar er síðan getið í öllum helstu ritum um Ísland frá 18. og 19. öld, t.d. í Ferðabók Eggerts og Bjarna, Ferðabók Ólavíusar og Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen.

Fyrr á öldum töldu menn að nykurinn í tjörninni væri valdur að skriðunum. Sagt var að á vorin kæmi í hann svo mikill galsi að hann ólmaðist um tjörnina þannig að vatnið flæddi í boðaföllum út yfir bakkana og færi svo í flóðbylgju niður Grundargil með tilheyrandi grjótflugi og aurburði. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er greint frá nykrinum í Nykurtjörn.

Hin náttúrufræðilega skýring á skriðunum er sú að snjóskafl mikill getur safnast fyrir við útfall tjarnarinnar á vetrum þegar lækurinn er þurr. Í leysingum á vorin stíflar skaflinn afrennslið svo það hækkar jafnt og þétt í tjörninni. Þar kemur að lokum að vatnið brýst í gegn um skaflinn og flóðbylgja fer niður Grundarlæk, rífur með sér urð og jarðveg á leið sinni og ber niður á láglendið. Á 19. öld höfðu skriðuföllin sorfið svo fast að túninu á Grund að jörðin lagðist í eyði um árabil. Hún byggðist síðan upp aftur og á síðustu áratugum hafa menn komið í veg fyrir skriðurnar með því að grafa sundur skaflinn áður en snjóleysingar hefjast á fjöllum.

Aðrar Nykurtjarnir

breyta

Fjölmörg nykur örnefni eru til um land allt, þar á meðal nokkrar Nykurtjarnir:

Nykurtjörn á Arnhólsstöðum í Skriðdal
Nykurtjörn í Breiðuvík sunnan Borgarfjarðar eystri
Nykurtjörn, Tindum í Geiradal
Nykurtjörn á merkjum Kvígsstaða og Mið-Fossa í Andakíl
Nykurtjörn í Kasthvammi í Laxárdal í S-Þingeyjarsýslu
Nykurtjörn á Reykjaheiði upp af Húsavík
Nykurtjörn upp af Þönglabakka í Fjörðum.
Nykurtjörn hjá Finnsstöðum í Fellum
Nykurtjörn í Lóni (nálægt Hraunkoti)

Heimildir

breyta
  • Árni Hjartarson. „Nykurtjörn og Útburðarhraun - Hvernig hefur tjörnin myndast og hvað býr í henni“. Norðurslóð. 1 (desember) (1978): bls. 13.

Tenglar

breyta