Geysisslysið
Geysisslysið var flugslys sem átti sér stað á Íslandi haustið 1950. Að kvöldi 14. september brotlenti flugvélin Geysir frá Loftleiðum á Bárðarbungu á Vatnajökli. Geysir var af gerðinni Douglas DC-4 sem Loftleiðir höfðu keypt fyrir millilandaflug með farþega, en vegna efnahagsaðstæðna á Íslandi var farþegaflug lagt niður 1950 og flugvélin leigð undir vöruflutninga. Sex voru í áhöfn í fluginu frá Lúxemborg til Íslands. Sagt var að slysið hefði stafað af mikilli þreytu flugmanna. Vélin barst af leið vegna veðurs, en snjókoma var og lítið skyggni og ísing á vélinni.
Strax daginn eftir hófst leit á stóru leitarsvæði við suðurströnd landsins. Allt að 15 flugvélar og 2 skip tóku þátt í leitinni. Þremur dögum síðar var talið fullvíst að vélin hefði farist með allri áhöfn. Þann 18. september barst svo veikt neyðarkall frá vélinni. Þegar flakið fannst og í ljós kom að áhöfnin var á lífi var fagnað um allt land. Björgunarleiðangur var skipulagður strax en 3 daga tók að bjarga áhöfninni af jöklinum. Í kjölfarið var Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík stofnuð með aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli.