Georgstímabilið
Georgstímabilið er tímabil í sögu Bretlands sem er kennt við fyrstu konungana af Hannóverætt, Georg 1., Georg 2., Georg 3. og Georg 4., frá 1714 til 1830. Oft er það líka látið ná yfir stutta valdatíð Vilhjálms 4 1830 til 1837 og endar þannig við upphaf Viktoríutímabilsins. Ríkisstjóratímabilið er stutt tímabil innan Georgstímabilsins, frá 1811 til 1820, þegar Georg prins af Wales var ríkisstjóri vegna geðveiki föður síns, Georgs 3.
Georgstímabilið einkenndist af miklum samfélagsbreytingum vegna iðnbyltingarinnar, aukinni stéttaskiptingu og átökum tveggja stjórnmálaflokka, Toría og Vigga, sem seinna urðu frjálslyndir og íhaldsmenn. Á þessum tíma uxu borgir á Bretlandi og fólksflutningar til nýlendna breska heimsveldisins jukust mikið. Skynsemishyggja einkenndi bókmenntir þessa tímabils, miðað við rómantík og dulhyggju Viktoríutímabilsins. Hugtakið er oftast notað í tengslum við félagssögu, stjórnmálasögu og sögu arkitektúrs frá þessum tíma.
Valdatíð Georgs 5. og Georgs 6. á 20. öld er ekki kennd við þá á sama hátt.