Georgios Kyriacos Panayiotou, betur þekktur sem George Michael, (fæddur 25. júní árið 1963 í London - dáinn 25. desember árið 2016) var breskur tónlistarmaður. Hann reis til frægðar með tvíeykinu Wham! á 9. áratugnum og hélt svo áfram með sólóferil.

George Michael árið 2006.
George Michael árið 1988 á Faith-tónleikaferðalaginu.

Æska Breyta

George Michael ólst upp í norður-London. Faðir hans var Kýpur-Grikki og veitingamaður og móðir hans var enskur dansari. Michael sagði að mikil vinna foreldra hans hafi komið niður á honum og þau hafi vanrækt hann. Á táningsárum Michaels flutti fjölskyldan til Hertfordshire. Í skóla þar hitti hann Andrew Ridgeley sem hann deildi tónlistaráhuga með.

Wham! Breyta

Michael og Ridgeley stofnuðu ska-hljómsveit sem lifði stutt en árið 1981 stofnuðu þeir hljómsveitina Wham!. Þeir gáfu út lagið Wham Rap! í fyrstu sem hlaut litlar undirtektir en síðar fengu þeir að koma fram með lagið Young Guns (Go For It) í þættinum Top of the Pops sem varð til þess að plata þeirra, Fantastic, fór í 3. sæti breska listans. Í fyrstu var tvíeykið klætt í leðurföt en síðar varð klæðnaðurinn tískumiðaðri. Hljómsveitin átti meðal annars smellina Wake me up before you go go og Careless whisper. Wham! hætti árið 1986 en það var orðið ljóst að Michael var mun áberandi og frambærilegri en félagi hans. Því hóf hann sólóferil.

Sólóferill Breyta

Michael gaf út árið 1987 lagið I Knew You Were Waiting (For Me) með tónlistargoði sínu Aretha Franklin. Platan Faith kom út sama ár og fór hún á toppinn í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fyrsta smáskífan, I Want Your Sex, olli nokkru fjaðrafoki í Bandaríkjunum og sumar útvarpsstöðvar neituðu að spila það. Árið 1988 var Michael uppgefinn eftir tónleikaferðalag og upplifði þunglyndi. Næsta plata hans, Prejudice Vol. 1, var hvorki fylgt eftir með tónleikaferðalagi né tónlistarmyndböndum. Fyrirætlunin var að gefa út síðar Prejudice Vol. 2 en Michael fór í málaferli við Sony-útgáfuna sem varð til þess að hann sagði skilið við útgáfuna.

Árið 1994 gaf Michael út lagið Jesus to a Child en það var óður til fyrrum elskuhuga síns, brasilíska fatahönnuðarins Anselmo Feleppa, sem lést af völdum heilablóðfalls árið áður. Lagið kom út á plötunni Older árið 1996 en það tók 3 ár að ljúka við hana. Platan gerði það gott í Bretlandi og Evrópu en í Bandaríkjunum seldist hún ekki vel. Dauði móður Michaels úr krabbameini varð til þess að Michael fór í annað þunglyndi. Hann íhugaði sjálfsmorð en sagði að nýr kærasti hans, Kenny Goss, hafi aftrað honum frá því.

Árið 1998 var Micheal handtekinn á almenningsklósetti í Los Angeles og kærður fyrir ósiðlega framkomu. Michael kom stuttu síðar út sem samkynhneigður og opinberaði samband sitt við Goss. Árið 2006 fór Michael í sitt fyrsta tónleikaferðalag í 15 ár. Hann var handtekinn dæmdur árið 2010 fyrir akstur af völdum fíkniefna og dæmdur í 8 vikna fangelsi. Árið 2011 fyrir tónlieka í Prag lýsti Michel því yfir að hann og Goss hefðu skilið 2 árum áður og kenndi hann fíknivanda beggja um það. Sama ár hafði hann dvalið á sjúkrahúsi vegna lungnabólgu.

George Michael lést á jóladag árið 2016 á heimili sínu í Goring, Oxfordshire. Umboðsmaður hans sagði andlátið tilkomið vegna hjartaáfalls.[1]

Sólóskífur Breyta

  • Faith (1987)
  • Listen Without Prejudice Vol. 1 (1990)
  • Older (1996)
  • Songs from the Last Century (1999)
  • Patience (2004)
  • Symphonica (2014)

Tilvísanir Breyta

  1. Obituary: George Michael BBC. Skoðað 26. des. 2016