Rómargangan
Rómargangan (ít. Marcia su Roma) var nafn á skipulögðum mótmælum í október árið 1922, sem leiddu til þess að Benito Mussolini og ítalski fasistaflokkurinn náðu völdum í Konungríkinu Ítalíu. Síðla í október árið 1922 lögðu leiðtogar fasistaflokksins á ráðin um uppreisn sem ætti að eiga sér stað þann 28. október. Þegar fasískir hermenn nálguðust Róm hugðist Luigi Facta forsætisráðherra lýsa yfir neyðarástandi en Viktor Emmanúel 3. konungur kom í veg fyrir það. Næsta dag, þann 29. október árið 1922, útnefndi konungurinn Mussolini forsætisráðherra og fól fasistunum því völdin án bardaga.[1][2]
Rómargangan | |||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Benito Mussolini og fasískir svartstakkar í göngunni | |||||||||
| |||||||||
Stríðsaðilar | |||||||||
Konungsríkið Ítalía | |||||||||
Leiðtogar | |||||||||
Luigi Facta Antonio Salandra |
Benito Mussolini Emilio De Bono Italo Balbo C. M. De Vecchi Michele Bianchi | ||||||||
Pólítískur stuðningur | |||||||||
Frjálslyndu og sósíalísku flokkarnir | Her- og viðskiptastéttirnar | ||||||||
Hernaðarlegur stuðningur | |||||||||
Ítalska lögreglan og herinn | 30.000 herliðar |
Aðdragandi
breytaÍ mars árið 1919 stofnaði Benito Mussolini vopnuðu sveitirnar Fasci Italiani di Combattimento (ísl. „ítölsku bardagaknippin“) við upphaf „rauðu áranna tveggja“ (biennio rosso). Mussolini bað ósigur í þingkosningum árið 1919, einkum þar sem hann hafði þar reynt að hlaupa til vinstri við sósíalista í ýmsum málefnum.[3] Eftir þingkosningar árið 1921 komst Mussolini þó á þing.
Fasistar höfðu eigin hersveitir á sínum snærum sem kölluðust svartstakkar vegna einkennisbúninga sinna. Í ágúst árið 1920 beittu fasistar hernaðarvæng sínum til að brjóta upp allsherjarverkfall sem hafði hafist í bílaverksmiðju Alfa Romeo. Eftir að hægrisinnaði héraðsráðgjafinn Giulio Giordani var myrtur í nóvember 1920 tóku svartstakkar þátt í ofbeldisfullum bælingum á sósíalistahreyfingunni (sem taldi til sín ýmsa meðlimi sem hlynntir voru stjórnleysis-samtakahyggju), sérstaklega í Pódalnum.
Stéttarfélög voru í kjölfarið leyst upp og vinstrisinnaðir bæjarstjórar sögðu af sér. Fasistarnir tóku þátt í kosningabandalagi við forsætisráðherrann Giovanni Giolitti í kosningum í maí 1921 og unnu 35 sæti. Mussolini dró til baka stuðning sinn við Giolitti og Frjálslynda flokkinnn síðar sama ár og reyndi að semja um tímabundið vopnahlé við Sósíalistaflokkinn, svokallað „friðþægingarsamkomulag“. Róttækari meðlimir fasistahreyfingarinnar voru mjög ósáttir við þetta, sér í lagi svartstakkarnir og foringjar þeirra, hinir svokölluðu „hertogar“. Í júlí árið 1921 reyndi Giolitti án árangurs að leysa upp svartstakkahreyfinguna. Fasistar rufu vopnahlé sitt við sósíalista á þriðja flokksþingi sínu í nóvember 1921. Þar kynnti Mussolini nýja þjóðernissinnaða stefnuskrá og endurnefndi fasistahreyfinguna „Fasíska þjóðernisflokkinn“. Síðla árs 1921 taldi flokkurinn til sín um 320.000 meðlimi.[4] Í ágúst blésu andfasistar til alsherjarverkfalls en náðu ekki stuðningi ítalska þjóðarflokksins (Partito Popolare Italiano) og fasistar kváðu síðan verkfallið í kútinn. Fáeinum dögum fyrir gönguna ráðfærði Mussolini sig við bandaríska sendiherrann Richard Washburn Child og spurði hann hvort ríkisstjórn Bandaríkjanna myndi mótmæla þátttöku fasista í væntanlegri stjórn Ítalíu. Child hvatti hann til að halda áfram á sömu miðum. Þegar Mussolini frétti að forsætisráðherrann Luigi Facta hefði falið Gabriele D'Annunzio að skipuleggja fjöldasamkomu þann 4. nóvember 1922 til að fagna sigri Ítala í fyrri heimsstyrjöldinni ákvað hann að flýta áætlunum sínum til að þurfa ekki að eiga í samkeppni um alþýðuhyllina.
Gangan
breytaFjórmenningaráðið sem fór fyrir stjórn Fasistaflokksins, Emilio De Bono, Italo Balbo, Michele Bianchi og Cesare Maria de Vecchi, skipulögðu gönguna á meðan Mussolini beið í Mílanó. Hann tók ekki þátt í göngunni, en leyfði þó ljósmyndurum að taka myndir af sér í för með fasísku göngumönnunum. Hann kom ekki til Rómar fyrr en næsta dag.[5] Hershöfðingjarnir Gustavo Fara og Sante Ceccherini hjálpuðu til við undirbúning göngunnar þann 18. október. Meðal annarra skipuleggjenda göngunnar voru markgreifinn Dino Perrone Compagni og Ulisse Igliori.
Þann 24. október 1922 lýsti Mussolini yfir fyrir framan 60.000 manns á flokksþingi fasista í Napólí: „Stefna okkar er einföld: Við viljum ráða yfir Ítalíu.“[6] Á meðan náðu svartstakkar, sem höfðu hertekið Pódalinn, stjórn á öllum hernaðarlega mikilvægum svæðum landsins. Þann 26. október gerði fyrrverandi forsætisráðherrann Antonio Salandra eftirmanni sínum, Luigi Facta, viðvart um að Mussolini hefði krafist afsagnar hans og hygðist nú gera atlögu á Róm. Facta trúði Salandra ekki og hélt að Mussolini yrði fús til að ganga friðsamlega í stjórn við hlið hans. Til að mæta ógninni sem stafaði af fasistaliðum sem söfnuðust nú saman fyrir utan Róm lagði Facta (sem hafði sagt af sér en ekki látið af embætti) fram neyðartilskipun þar sem lýst skyldi yfir umsátursástandi í Róm. Hann hafði þá rætt við konunginn um aðferðir til að bæla niður ofbeldisaðgerðir fasista og taldi sig því eiga stuðning hans vísan.[7] Viktor Emmanúel 3. konungur neitaði hins vegar að undirrita neyðarlögin.[8] Þann 29. október kallaði konungurinn Mussolini, sem naut stuðnings hersins, viðskiptastéttarinnar og hægrisinna, á sinn fund og skipaði hann forsætisráðherra Ítalíu.
Aðeins tæplega 30.000 menn tóku þátt í göngunni en konungurinn óttaðist að borgarastyrjöld kynni að brjótast út þar sem svartstakkar höfðu þegar náð stjórn á Pódalnum og stórum hlutum landsins og ekki var lengur litið á fasisma sem ógn við stjórnarkerfið. Mussolini var boðið að mynda eigin stjórn þann 29. október 1922 á meðan um 25.000 svartstakkar marseruðu um götur Rómar. Mussolini komst því löglega til valda í samræmi við stjórnarskrá Ítalíu. Rómargangan var ekki valdaránið sem fasistar áttu síðar eftir að fagna, heldur hvati að valdatilfærslu innan vébanda stjórnarskrárinnar. Þessi valdatilfærsla gerði yfirvöldum kleift að gefast upp fyrir hótunum fasista á löglegan hátt. Margir leiðtogar í fjármálageiranum töldu að hægt yrði að nýta sér Mussolini, sem hafði í gömlum ræðum sínum lagt áherslu á markaðsfrelsi og talað gegn ríkisafskiptum af efnahaginum.[9] Þessar vonir urðu ekki að veruleika þar sem samráðshyggja Mussolini gerði ráð fyrir algerum ríkisyfirráðum á fyrirtækjum í gegnum iðnaðarráð sem fasistaflokkurinn stýrði. Samkvæmt þessu kerfi héldu fyrirtækin ábyrgð á eignum sínum en nutu lítils sem einskis frelsis yfir þeim. Árið 1934 sagðist Mussolini hafa þjóðnýtt „þrjá fjórðu af ítalska efnahaginum, bæði í iðnaði og landbúnaði“, meira en nokkuð annað ríki að Sovétríkjunum undanskyldum.[10]
Mussolini lét í fyrstu sem hann gæti látið sér nægja að taka við ráðuneyti í ríkisstjórn sem Giolitti eða Salandra skyldu leiða en krafðist síðan forsætisráðherraembættisins.[11] Af ótta við átök gegn fasistum afhenti valdastéttin Mussolini því völdin og leyfði honum að koma á einræði eftir að sósíalistastjórnmálamaðurinn Giacomo Matteotti var myrtur þann 10. júní árið 1924. Matteotti hafði nýlokið við að skrifa verk undir titlinum Fasistar afhjúpaðir: Ár af fasískri harðstjórn þegar fasisti að nafni Amerigo Dumini myrti hann.
Tengt efni
breyta- Bjórkjallarauppreisnin (uppreisn Nasistaflokksins í Þýskalandi þar sem reynt var að líkja eftir Rómargöngunni)
Heimildir
breyta- Carsten, Francis Ludwig (1982). The Rise of Fascism. University of California Press.
- Cassells, Alan. Fascist Italy. Arlington Heights, IL: H. Davidson, 1985.
- Gallo, Max. Mussolini's Italy: Twenty Years of the Fascist Era. New York: Macmillan, 1973.
- Leeds, Christpher. Italy under Mussolini. Hove, East Sussex: Wayland, 1988 (1972).
- Chiapello, Duccio. Marcia e contromarcia su Roma. Marcello Soleri e la resa dello Stato liberale. Rome: Aracne, 2012.
- Gentile, Emilio. E fu subito regime. Il fascismo italiano e la marcia su Roma. Rome-Bari: Laterza, 2012.
Tilvísanir
breyta- ↑ Lyttelton, Adrian (2008). The Seizure of Power: Fascism in Italy, 1919–1929. New York: Routledge. bls. 75–77. ISBN 978-0-415-55394-0.
- ↑ „March on Rome | Italian history“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 25. júlí 2017.
- ↑ Denis Mack Smith, Modern Italy: A Political History, University of Michigan Press (1997) p. 297
- ↑ Charles F. Delzell, edit., Mediterranean Fascism 1919–1945, New York, NY, Walker and Company, 1971, bls. 26
- ↑ Morgan, Philip (1995). Italian Fascism 1919-1945. Basingstoke, Hampshire: Macmillan Press. bls. 58. ISBN 0-333-53779-3.
- ↑ Carsten (1982), p.62
- ↑ Chiapello (2012), p.123
- ↑ Carsten (1982), p.64
- ↑ Carsten (1982), p.76
- ↑ T Gianni Toniolo, editor, The Oxford Handbook of the Italian Economy Since Unification, Oxford University Press (2013) bls. 59; Mussolini’s speech to the Chamber of Deputies on May 26, 1934
- ↑ Lyttelton, Adrian (2009). The Seizure of Power: Fascism in Italy, 1919–1929. New York: Routledge. bls. 75–77. ISBN 978-0-415-55394-0.