Göteborg (herskip)

Göteborg (Giötheborg, Giothenborg, Gottenborg) var sænskt herskip sem Danir hertóku í Norðurlandaófriðnum mikla og var það nýtt af danska sjóhernum en hélt nafninu. Það fylgdi dönskum kaupskipum til Íslands vorið 1718 en herskip höfðu fylgt þeim í siglingum til og frá landinu frá árinu 1714 vegna sjórána Svía.

Skipið var línuherskip smíðað í Karlskrona og sjósett árið 1696. Það var um 900 tonn á stærð með 44 til 50 fallbyssur og bar 250-300 menn.

HerfangBreyta

Skipið var eitt þeirra sænsku herskipa sem Danir náðu á sitt vald eftir sigur þeirra í orrustunni við Fehmarn 24. apríl 1715.

ÍslandsferðinBreyta

Skipstjórinn í þessari ferð hét Jochum Friis, en áhöfnin var 190 norskir sjóliðar. Göteborg lá í Hafnarfirði sumarið 1718 og ætlaði herskipið að fylgja kaupskipunum utan um haustið. Skipin héldu af stað 23. október en við Reykjanes skall á aftakaveður. Kaupskipin komust leiðar sinnar en Göteborg ekki, skipið lenti í miklum erfiðleikum og hraktist loks upp í Hafnarskeið við Þorlákshöfn 7. nóvember 1718 (sumir annálar segja 4. nóvember). Um 170 sjóliðar björguðust á land.[1]

Þar sem öll kaupskip voru farin frá landinu þurfti að koma skipsbrotsmönnum fyrir víða um sveitir Suðurlands en Friis skipstjóri var á Bessastöðum hjá Cornelius Wulf landfógeta. Landfógeti greiddi bændum þóknun fyrir uppihald sjóliðanna. Einhverjir þeirra skildu eftir sig afkomendur eða eins og séra Jón Halldórsson í Hítardal segir í Viðauka Fitjaannáls: „... nokkrir guldu þjónustulaunin með óþægum barneignum.“

HeimildirBreyta

  1. Árni Óla 2 febrúar 1953, „Herskip fórst á Hraunsskeiði fyrir 235 árum". Morgunblaðið.: 93-99. Skoðað 23 júní 2018.
  • Bjarki Bjarnason: Ísland í aldanna rás: 1700-1799. JPV útgáfa, 2009. ISBN 978-9935-11091-6
  • Halldór Baldursson: „Linjeskibet Gøteborgs forlis ved Island 1718“, í Niels M. Prost (ritstj.) Marinehistorisk Tidsskrift 41 (2), Orlogsmuseets venner/Marinehistorisk selskab: Glumsø, maí 2008, ss. 3-23. ([1]).