Úrvalsgrein breyta

 
Blair Hall, Princeton

Princeton-háskóli (enska: Princeton University) er staðsettur í bænum Princeton í New Jersey og er fjórði elsti háskólinn í Bandaríkjunum. Princeton-háskóli, sem er oft talinn einn besti háskóli Bandaríkjanna, hefur auk þess að bjóða upp á grunnnám og framhaldsnám í hugvísindum, raunvísindum og félagsvísindum, arkítektaskóla, verkfræðiskóla og skóla fyrir stjórnsýslu- og alþjóðafræði. Við skólann eru stundaðar rannsóknir á mörgum sviðum, meðal annars í rafgaseðlisfræði, veðurfræði, og á þotuhreyflum.

Háskólinn er á tveimur háskólasvæðum. Aðalháskólasvæðið er í miðbæ Princeton en auk þess er háskólasvæði í lundi skammt frá bænum og nefnist „The Forestal Campus“. Þar eru rannsóknarstofur fyrir rafgaseðlisfræðiverkefni (Princeton Plasma Physics Laboratory, PPPL) og veðurfræðirannsóknir. Samvinna er með háskólanum og Brookhaven National Laboratories. Aðalbókasafn háskólans er Firestone-bókasafnið (gefið af Harvey S. Firestone og tekið í notkun 1948) en auk þess er veglegt bókasafn í listasafni háskólans.

Skólinn var stofnaður undir heitinu College of New Jersey árið 1746 en nú er annar skóli rekinn undir heitinu College of New Jersey. Upphaflega var skólinn í bænum Elizabeth í New Jersey. Árið 1756 var skólinn fluttur til Princeton og nafni skólans var formlega breytt í „Princeton University“ árið 1896. Enda þótt skólinn hafi í upphafi verið rekinn sem skóli á kristnum grundvelli, með „Presbyterian“ viðhorf, er háskólinn ekki lengur kristinn háskóli og gerir engar trúarlegar kröfur til nemenda sinna. Princeton University er einn af átta skólum sem kenndir eru við „bergfléttudeildina“ eða Ivy League.

Lesa áfram um Princeton-háskóla...


Gæðagrein breyta

 
Færibandavinna í fiskvinnslustöð HB Granda í Reykjavík.

Sjávarútvegur á Íslandi er atvinnuvegur á Ísland i sem nýtir sjávarfang til manneldis og dýraeldis. Sjávarútvegur fæst einnig við rannsóknir í haffræði, fiskifræði, fiskveiðar, matvælavinnslu og markaðssetningu sjávarafurða. Sjávarútvegur er því margþættur þó að lokamarkmiðið sé að selja fiskafurðir. Með stjórnsýslu sjávarútvegsmála fer Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Sjávarútvegur hefur verið mikilvæg atvinnugrein á Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar, en einhverjar gjöfulustu veiðislóðir í Norður-Atlantshafi eru í íslenskri lögsögu. Sjávarútvegur átti þátt í að breyta Íslandi frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í byrjun 19. aldar í eina af efnuðustu þjóðum heims um aldamótin 2000. Úr hafinu kom ekki einungis matur á borð Íslendinga því fiskurinn hefur einnig verið verðmæt útflutningsvara og er það enn. Sjávarútvegur stendur nú fyrir 40% útflutningsverðmæta landsins, ríflega 12% af vergri landframleiðslu og sér um það bil 7% íbúanna fyrir atvinnu. Saga íslensks sjávarútvegs snýst þó ekki einungis um efnahagslega velferð, heldur hefur sjávarútvegur skipað stóran sess í íslenskri menningu og arfleifð.

Lesa áfram um sjávarútveg á Íslandi...