Úrvalsgrein

breyta
 
Blair Hall, Princeton

Princeton-háskóli (enska: Princeton University) er staðsettur í bænum Princeton í New Jersey og er fjórði elsti háskólinn í Bandaríkjunum. Princeton-háskóli, sem er oft talinn einn besti háskóli Bandaríkjanna, hefur auk þess að bjóða upp á grunnnám og framhaldsnám í hugvísindum, raunvísindum og félagsvísindum, arkítektaskóla, verkfræðiskóla og skóla fyrir stjórnsýslu- og alþjóðafræði. Við skólann eru stundaðar rannsóknir á mörgum sviðum, meðal annars í rafgaseðlisfræði, veðurfræði, og á þotuhreyflum.

Háskólinn er á tveimur háskólasvæðum. Aðalháskólasvæðið er í miðbæ Princeton en auk þess er háskólasvæði í lundi skammt frá bænum og nefnist „The Forestal Campus“. Þar eru rannsóknarstofur fyrir rafgaseðlisfræðiverkefni (Princeton Plasma Physics Laboratory, PPPL) og veðurfræðirannsóknir. Samvinna er með háskólanum og Brookhaven National Laboratories. Aðalbókasafn háskólans er Firestone-bókasafnið (gefið af Harvey S. Firestone og tekið í notkun 1948) en auk þess er veglegt bókasafn í listasafni háskólans.

Skólinn var stofnaður undir heitinu College of New Jersey árið 1746 en nú er annar skóli rekinn undir heitinu College of New Jersey. Upphaflega var skólinn í bænum Elizabeth í New Jersey. Árið 1756 var skólinn fluttur til Princeton og nafni skólans var formlega breytt í „Princeton University“ árið 1896. Enda þótt skólinn hafi í upphafi verið rekinn sem skóli á kristnum grundvelli, með „Presbyterian“ viðhorf, er háskólinn ekki lengur kristinn háskóli og gerir engar trúarlegar kröfur til nemenda sinna. Princeton University er einn af átta skólum sem kenndir eru við „bergfléttudeildina“ eða Ivy League.

Lesa áfram um Princeton-háskóla...


Gæðagrein

breyta
 
Keila á færeysku frímerki.

Keila (fræðiheiti: Brosme brosme) er nytjafiskur af vatnaflekkaætt, sem er ný ætt, en tilheyrði áður þorskaætt. Hún lifir í Norður-Atlantshafi bæði austan og vestan megin við Ísland. Keilan er löng, með sívalan bol, einn bakugga eftir endilöngu bakinu og einn langan raufarugga, sem báðir eru með einkennandi dökkri rönd yst og hvítum jaðri, auk eyrugga og kviðugga. Sporðurinn er lítill og hringlaga. Hún er með skeggþráð á neðri vör sem skagar eilítið fram fyrir þá efri og rönd eftir bolnum endilöngum. Roðið er þykkt og hreistrið smátt. Hún er móleit á lit sem fer frá rauðbrúnu og yfir í gulbrúnan eftir umhverfi. Yngri fiskar eru með sex ljósar þverrákir á síðunni.

Lesa áfram um keilu...