Friðarhreyfing íslenskra kvenna

Hópur kvenna sem vinnur að friðar- og afvopnunarmálum

Friðarhreyfing íslenskra kvenna var stofnuð þann 27. maí árið 1983 af hópi kvenna úr öllum stjórnmálaflokkum til að vinna að friðar- og afvopnunarmálum. Hreyfingin var afar virk um miðjan níunda áratuginn en síðar dró úr krafti hennar.

Í júlímánuði 1982 hittist hópur kvenna í Norræna húsinu til að ræða stofnun þverpólitískrar friðarhreyfingar kvenna að norrænni fyrirmynd. Næstu vikur og mánuði hélt hópurinn áfram að funda, þar sem fulltrúar fleiri stjórnmálahreyfinga og félagasamtaka bættust í hópinn. Á fundum þessum var unnið að því að finna málefnagrunn sem sameinast mætti um, sem var ekki auðvelt á tímum Kalda stríðsins þar sem utanríkismál voru eitt helsta pólitíska deiluefnið.

Þann 30. ágúst undirrituðu 27 konur ávarp með ákalli um frið og eyðingu kjarnavopna. Konurnar voru úr öllum flokkum, þar á meðal Elín Pálmadóttir og Bessí Jóhannsdóttir úr Sjálfstæðisflokknum. Í kjölfarið var boðuð stofnun formlegrar hreyfingar.

Stofnfundurinn var haldinn í maílok 1983. Til stóð að fá friðarverðlaunahafann Ölvu Myrdal til fundarins, en í hennar stað kom sænska þingkonan Maj-Britt Theorin. Um 130 konur sátu stofnfundinn.

Ekki var kosin formleg stjórn Friðarhreyfingarinnar og var gert ráð fyrir að starfið yrði borið uppi af litlum staðbundnum friðarhópum, en nokkrir slíkir voru starfræktir víða um land. Hópurinn í Reykjavík sem staðið hafði að undirbúningnum starfaði áfram og hlaut nafnið Miðstöð.[1]

Friðarhreyfing íslenskra kvenna tók þátt í sameiginlegum verkefnum íslenskra friðarhreyfinga, svo sem Þorláksmessugöngu og Friðarpáskum árið 1984.

Á alþjóðlegu friðarári Sameinuðu þjóðanna árið 1985 lét hreyfingin mikið til sín taka. Samið var sérstakt friðarávarp kvenna og því lýst yfir að markmiðið væri að safna undirskrif 80 þúsund kvenna undir það, en það svaraði til allra fullorðinna kvenna í landinu. Ritaði Sólveig Ásgeirsdóttir biskupsfrú fyrst allra undir ávarpið.[2] Ekki náðust þessi metnaðarfullu markmið en tæplega 40 þúsund konur rituðu að lokum nöfn sín undir ávarpið, sem gerir það eina stærstu undirskriftasöfnunum Íslandssögunar.[3]

Friðarhreyfing íslenskra kvenna efndi á ný til undirskriftasöfnunar að bandarískri fyrirmynd í tengslum við Leiðtogafundinn í Höfða árið 1986.

Undir lok níunda áratugarins dró talsvert úr krafti hreyfingarinnar. Hún hélt áfram að standa að sameiginlegum aðgerðum með öðrum friðarhópum og samtökum í kringum 1990 en lognaðist síðan útaf án þess þó að félagið væri formlega lagt niður.

Meðal kvenna sem áberandi voru í starfi Friðarhreyfingarinnar má nefna Gerði Steinþórsdóttur, Margréti S. Björnsdóttur, sr. Auði Eir Vilhjálmsdóttur, Álfheiði Ingadóttur, Guðrúnu Helgadóttur, Elínu Pálmadóttur, Sigríði Thorlacius og Kristínu Ástgeirsdóttur.

Heimildir

breyta
  1. „Morgunblaðið 22. júní 1983, grein e. Gerði Steinþórsdóttur“.
  2. „Morgunblaðið 6. júní 1985“.
  3. „Morgunblaðið 13. janúar 1996“.