Frílisti er hugtak í hagfræði og haft um lista eða skrá yfir vörur, sem ekki þarf innflutningsleyfi fyrir, þó svo innflutningshöftum sé beitt, þ.e. vörulisti sem á tímum haftastefnu stjórnvalda inniheldur vörur (oftast nauðsynjavörur) sem má flytja inn án tilskilina leyfa.

Frílistinn tíðkaðist á Íslandi frá gengisfellingunni árið 1939 og í árslok 1940 mátti kalla að 40-45% innflutningsins væru á frílista. En heimsstyrjöldin setti strik í reikninginn og frílistinn var afnuminn að kröfu Breta og margvísleg höft og skömmtun fylgdu í kjölfarið. Byrjað var að afnema skömmtunina í júní mánuði árið 1950, og skömmtunarskrifstofan var lögð niður í september 1950. Eftir það var skömmtun aðeins miðuð við niðurgreiðslu á verðlagi vara, eins og smjörlíki og fleiri vörutegunda. Hinn 1. júní 1960 voru 60% innflutnings til landisins gefin frjáls, það er frílistinn var færður upp í 60% innflutnings.

Ríkisstjórnin ákvað í byrjun hvers árs að höfðu samráði við Seðlabanka heildarupphæð leyfaúthlutunar í frjálsum gjaldeyri. Upphæðinni var skipt milli vöruflokka og nefndist upphæð hvers vöruflokkskvóti hans. Leyfaveitingar fyrir innflutningi frá vöruskiptalöndum voru í samræmi við viðskiptasamninga, sem voru í gildi við hvert einstakt land, en þeim fylgdu vörulistar. Vöruskiptalöndin á 7. áratugum voru Austur-Þýskaland, Brasilía, Pólland, Rúmenía, Rússland, Tékkóslóvakía og Ungverjaland. Rússland (Sovétríkin) var langmikilvægasta vöruskiptalandið og kom um 51% innflutnings frá þessum löndum frá því 1965. Vörutegundum á frílista fjölgaði ár frá ári á 7. áratugnum. Haustið 1965 voru gólfteppi, skyrtur og nærföt sett á frílista svo að dæmi sé nefnt. Fyrir kom þó, að vörur væru teknar af frílista og mun þetta stundum hafa verið gert með hag innlends iðnaðar fyrir augum. Einnig kom fyrir í þrengingunum 1967-1968 og um miðbik 8. áratugsins, að vörur væru teknar af frílista til að draga úr innflutningi og gjaldeyriseyðslu.

Eitt og annað breyta

  • Hugtakið frílisti tengist því ekkert þegar talað er um það á íslensku að frílysta sig Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine, þ.e. skemmta sér, einkum með einhvers konar ferðalagi.

Tengt efni breyta

Tenglar breyta

   Þessi hagfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.