Fljótsdalshreppur
Sveitarfélagið Fljótsdalshreppur í Fljótsdal nær yfir 1.516 km2 og nær að norðanverðu við Lagarfljótið frá Hrafngerðisá og að austanverðu frá Gilsá við Fljótsbotninn, og allt suður að Vatnajökli. Fljótsdalur skiptist í Suðurdal og Norðurdal með Múlann á milli. Allstórt landssvæði á hásléttu Fljótsdalshrepps fellur undir Vatnajökulsþjóðgarð sem hefur að geyma einstaka náttúru og menningarsögu.
Fljótsdalshreppur | |
---|---|
Hnit: 65°49′48″N 15°30′0″V / 65.83000°N 15.50000°V | |
Land | Ísland |
Kjördæmi | Norðausturkjördæmi |
Þéttbýliskjarnar | Engir |
Stjórnarfar | |
• Sveitarstjóri | Helgi Gíslason |
Flatarmál | |
• Samtals | 1.517 km2 |
• Sæti | 22. sæti |
Mannfjöldi (2024) | |
• Samtals | 95 |
• Sæti | 59. sæti |
• Þéttleiki | 0,06/km2 |
Póstnúmer | 701 |
Sveitarfélagsnúmer | 7505 |
Vefsíða | fljotsdalur |
Snæfell, hæsta fjall Íslands utan jökla (1.833 m h.y.s.), er eitt megineinkenni svæðisins. Skógur í Fljótsdalshreppi þekur nærri 2.500 ha sem svarar til þess að skógur og skógræktarsvæði þeki nær 18% af flatarmáli hreppsins neðan 400 m h.y.s. Láglendið, Fljótsdalsgrundin, einkennist af búsældarlegum og gjöfulum túnum og engjum.
Íbúar sveitarfélagsins eru um 100. Enginn þéttbýlisstaður er í sveitarfélaginu en fyrirhugað er að skipuleggja byggðakjarna á næstu árum. Helstu vinnustaðir utan búreksturs eru Fljótsdalsstöð Landvirkjunar, Snæfellsstofa - gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs, Gunnarsstofnun og Klausturkaffi á Skriðuklaustri, gistihúsið Fjótsdalsgrund, Skógarafurðir ehf., Óbyggðasetur Íslands í Norðurdal auk skrifstofu sveitarfélagsins í Végarði.
Sérstaða Fljótsdalshrepps
breytaSjálfbær auðlindanýting
breytaUm aldir hefur verið stundaður sauðfjárbúskapur á nær öllum jörðum í Fljótsdal. Landið er frjósamt og gróður víða í framför. Flæðiengjar eru í dalnum og ræktanlegt undirlendi. Sýnilegur árangur er af uppgræðslu- og ræktunarstarfi. Bændaskógrækt á Íslandi hófst með Fljótsdalsáætlun árið 1970. Skógar eru því vel sýnilegir í dalnum og nytjaðir í margvíslegar skógarafurðir, s.s. klæðningar, pallaefni, parket og girðingarstaura, auk þess sem framleiðsla er á jólatrjám. Afgangstimbur úr skógunum er jafnframt nýtt til kyndingar á húsum. Vatnsafl hefur verið nýtt til rafmagnsframleiðslu úr vötnum og lækjum. Sjálfbærar og skipulagðar veiðar eru stundaðar á hreindýrum.
Einstök náttúra
breytaFljótsdalur er einstök náttúruperla sem fjölmargir ferðamenn heimsækja ár hvert, þá helst Hengifoss sem að er eitt helsta aðdráttarafl svæðisins.[1] Veðursæld er rómuð með hlýjum sumrum og úrkomulitlum vetrum. Búskaparskilyrði eru góð, einkum til sauðfjárræktar. Fuglalíf er afar fjölbreytt, t.d. hafa verið taldar 50 fuglategundir við Snæfell. Eyjabakkasvæðið upp af Fljótsdal nýtur sérstakrar verndar, RAMSAR. Svæðið er verndað vegna alþjóðlega mikilvægra flæðiengja sem eitt stærsta votlendissvæði hálendisins og eitt stærsta fellisvæði heiðagæsa sem verpa í þúsundatali á Snæfellsöræfum. Á hálendi Fljótsdals er samfelld gróðurheild í um 600 m h.y.s. sem einnig telst einstakt.
Vatnajökulsþjóðgarður fellur að hluta innan Fljótsdalshrepps en hann er viðurkenndur á heimsminjaskrá UNESCO og telst einn stærsti þjóðgarður í VesturEvrópu. Aðalbúsvæði hreindýrastofns Íslands og ferðaleiðir eru innan Fljótsdalshrepps. Aðalaðdráttarafl ferðamanna eru náttúruperlurnar Hengifoss, Strútsfoss, Kirkjufoss og ekki síst Snæfell. Villtu birkiskógarnir Kleifarskógur og Ranaskógur eru einstakir og jarðargróðurinn með krossmöðru sem einkennisjurt Fljótsdals. Í Fljótsdal vaxa bláklukka, þrílitafjóla, villilín, vorperla, blágresi og hrútaber í meira mæli en á öðrum stöðum Austurlands.
Byggingarlist og saga
breytaGunnarshús á Skriðuklaustri er þekktast, hannað í anda herragarðs af þýska arkitektinum Fritz Höger. Á Skriðuklaustri eru einnig rústir munkaklausturs af reglu heilags Ágústínusar frá 16. öld. Minjarnar eru sýnilegar en jafnframt hefur verði bætt við upplifunina með stafrænum tæknilausnum og sýndarveruleika út frá hugmyndafræðinni ,,safn án veggja“. Snæfellsstofa, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs, er hönnuð af ARKÍS arkitektum og var fyrsta nýbyggingin á Íslandi til að hljóta bæði hönnunarvottun og fullnaðarvottun af breska umhverfisvottunarkerfinu BREEAM árið 2016.
Þjónustuhúsnæði er við Hengifoss sem valið var eftir opinbera hönnunarsamkeppni.[2] Húsið er hannað af norska arkitektinum Eirik Rönning Andersen, vísar til landslagsrýmisins og fellur vel að nánasta umhverfi. Auk þess má nefna félagsheimilið Végarð, hannað af Gísla Halldórssyni arkitekt, Fljótsdalsstöð, sem Arkitektastofan OG vann í samstarfi við Verkís og Landmark, og fjölda byggingar sem eru upprunnar á Teiknistofu landbúnaðarins. Bæjartorfan á Langhúsum með byggingum úr torfi og grjóti er einstök og uppbygging Óbyggðaseturs Íslands vísar til gamalla tíma.[3] Víða má sjá torfhús, tóftir og rismiklar vörður. Þjóðargersemin Valþjófsstaðarhurðin kemur úr stafkirkju sem eitt sinn stóð í dalnum og er eftirlíking af henni í Valþjófsstaðarkirkju.
Aðalskipulag
breytaÍbúðarhúsnæði
breytaFljótsdalshreppur er með gildandi aðalskipulag til ársins 2030. Samkvæmt því er heimilt að reisa allt að þrjú íbúðarhús á hverri jörð án þess að ráðast þurfi í deiliskipulag. Fljótsdalshreppur samdi árið 2020 við TGJ hönnun, ráðgjöf og rannsóknir um að finna stað fyrir eftirsóknarverðan, einstakan og vistvænan byggðarkjarna, sem falli að landslagi, sé öruggur frá náttúrunnar hendi, aðgengilegur og henti vaxandi starfsemi í dalnum. Staðsetning kjarnans skyldi einnig valin út frá forsendum umhverfissálfræði, þannig að uppbyggingin hámarki vellíðan og jákvæða upplifun íbúa og gesta. Í gildandi aðalskipulagi er jafnframt lögð áhersla á að öll deiliskipulagsgerð stuðli að vandaðri umhverfismótun, s.s. um umfang, form, efni, útlit og litaval nýbygginga. Byggðakjarnanum hefur verið valinn staður í landi Hjarðarbóls og er unnið að deiliskipulagsgerð og breytingum á aðalskipulagi í samræmi við það.
Atvinnuhúsnæði
breytaStærstur hluti atvinnuhúsnæðis í Fljótsdal tengist búrekstri en annar rekstur er á Skriðuklaustri, í Végarði, á Fljótsdalsgrund, í Snæfellsstofu, á Valþjófsstað og í Óbyggðasetrinu. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi eru skilgreind verslunar - og þjónustusvæði að finna við Hengifoss, á Eyrarlandi/Bessastöðum, við Végarð og Laugarfellsskála. Iðnaðarsvæði fyrir skógar - og landbúnaðarafurðir er á Hvammseyri innan við Valþjófsstað. Svæði er einnig skilgreint undir iðnað í tengslum við Fljótsdalsstöð, alls um 10 km3. Samkvæmt eldra skipulagi var gert ráð fyrir að í landi Ytri -Víðivalla II yrði úrvinnslusvæði skógarafurða þar sem nú er búið að byggja upp öfluga starfsemi. Aðgengilegt rými er til staðar á Hvammseyri í landi Valþjófsstaðar.
Veitur
breytaRaforkuframleiðsla
breytaFljótsdalsstöð í Fljótsdal er stærsta aflstöð Landsvirkjunar. Hún er 690 MW að uppsettu afli og getur unnið 4.800 gígavattstundir af rafmagni á ári. Stöðvarhúsið er staðsett um 800 m inni í Valþjófsstaðarfjalli með um 400 m fallhæð vatnsins. Frá Hálslóni, aðalmiðlunarlóninu, rennur vatnið um 40 km í aðrennslisgöngum að stöðinni. Tvö minni lón nýta vatn úr Jökulsá í Fljótsdal, Ufsarlón og Kelduárlón, en þaðan rennur vatn í jarðgöngum og mætir vatni frá Hálslóni í einum aðrennslisgöngum að stöðinni með samanlagðri fallhæð um 600 m. Vatnið knýr sex öfluga hverfla áður en það rennur um skurð út í Jökulsá í Fljótsdal innan við Valþjófsstaði. Meginhluti orkunnar fer frá stöð yfir Hallormsstaðaháls og yfir til Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði.
Ný háspennulína Landsnets, Kröflulína 3, tengir saman Þeistareykjavirkjun og Kröfluvirkjun við Fljótsdalsvirkjun. Saman mynda þær sterkan kjarna sem bætir raforkuflutningskerfið, eykur stöðugleika og gæði orkuafhendingar. Heimili og fyrirtæki í Fljótsdal hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni. Á nokkrum jörðum eru 6-20 kV smávirkjanir. Möguleikar eru á stækkun þeirra. Fyrirhugað er einnig að byggja upp fleiri slíkar smávirkjanir með nýrri tækni er hentar vatnsmiklum lækjum. Fyrir liggur úttekt á smávirkjanakostum í Fljótsdal frá Verkfræðistofunni Vatnaskil.
Úrgangsmál
breytaHeimili sem greiða sorpgjald flokka í almennt, endurvinnanlegt og lífrænt sorp. Lífrænt sorp er ekki sótt heldur er heimilum lagðar til sérstakar tunnur fyrir þann úrgang. Öðrum úrgangi er safnað og ýmist urðaður á viðurkenndum urðunarstað eða fer í endurvinnslu. Fyrirtækjasorpi er ekki alfarið sinnt af sveitarfélaginu heldur eru fyrirtækin með samninga við rekstraraðila um ílát og tæmingu.
Gámasvæði er rétt hjá Végarði þar sem sveitarfélagið er með leigugáma fyrir járn, timbur, almennt/óflokkanlegt sorp og spilliefni (rafgeyma). Rotþrær eru við alla bæi og fyrirtæki. Viðurkennd safngryfja fyrir seyru er neðan við Valþjófsstað.
Hitaveita
breytaÍ Fljótsdal er ekki hitaveita en á nokkrum stöðum má finna volgt vatn. Við Laugarfell er heitt vatn sem er nýtt til að kynda húsnæðið og náttúrulaugar. Við Óbyggðasetur Íslands er volgra sem tengd er inn á varmadælu til að kynda heitan pott og fleira (sjá mynd til hægri). Samkvæmt aðalskipulagi er stefnt á frekari rannsóknir og jarðhitaleit. Viðarkynt hitaveita er í Végarði. Á nokkrum stöðum eru hús kynt upp með viðarkyndingu þar sem grisjunarviður en nýttur í háhitabrennslu.
Vatnsveita
breytaFlestar jarðir í Fljótsdal hafa sína eigin vatnsveitu en skráðar vatnsveitur með leyfi eru fimm. Tvær eru nýttar af Landsvirkjun, þ.e. við Fljótsdalsstöð og við Ufsarlón. Ein veita er á Skriðuklaustri sem þjónar nokkrum aðilum, frá Skriðuklaustri að Végarði. Auk þess er vatnsveita við Laugarfell og neðan vegar við Hengifossárgil.
Fjarskipti
breytaFjarskiptasendar vegna sjónvarps- og útvarpssendinga sem og endurvarpar vegna farsímasambands eru á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu og ljósleiðari á alla bæi. Víða er 3G og 4G samband. Samkvæmt aðalskipulagi er lagning stofnlagna fjarskiptakerfa í jörð meðfram vegum og stígum heimil án breytingar á aðalskipulagi.
Umhverfi og auðlindir
breytaVeðurfar
breytaFljótsdalur er þekktur fyrir blíðviðri, staðviðri sem er þurrt og hlýtt. Vindáttir taka mið af landslagi. Í Fljótsdal er suðvestanátt ríkjandi. Vatnajökull og Austfjarðahálendið skýlir svæðinu fyrir sunnan- og suðaustanátt. Meðahiti ársins 2020 á Hallormsstað var 4,1°C og sumarhiti (frá júní til september) 9,5°C. Heildarúrkoma sama ár var 982,4 mm en að jafnaði rignir töluvert minna inn í Fljótsdal en utar. Snjólétt er á láglendi á vetrum en þurrkar geta háð gróðri, einkum framan af sumri.
Náttúruvá
breytaFljótsdalshreppur er utan jarðskjálftaog eldgosasvæða. Dalurinn hefur þó orðið fyrir öskufalli og ekki óalgengt að yfir hann gangi ösku- og leirfok af hálendinu í ákveðnum áttum. Talsverð hætta er á skriðuföllum þar sem grunnt er niður á fast berg og jarðvegsþekja þunn. Jarðvegsskriður koma einkum í kjölfar mikillar úrkomu. Ekki er vitað hvort sífrera er að finna á svæðinu. Þekktustu skriðusvæðin eru í austurhlíðum Múlans í Suðurdal og Valþjófsstaðarfjallinu ofan við Valþjófsstaði og Skriðuklaustur. Ekki liggur fyrir opinbert hættumat vegna ofanflóðahættu, snjóflóða eða gróðurelda.
Fyrirliggjandi er mat á hættu við stíflurofi úr Kelduárlóni og Ufsarlóni niður í Lagarfljót. Ef stíflurof ætti sér stað er talið að sex bæir og ræktunarland gætu mögulega verið í hættu vegna yfirstreymisflóðs úr Ufsarlóni en ekki er talin hætta af Kelduárlóni. Tveir bæir eru í Norðurdal og aðrir standa lágt í landi milli Végarðs og Hengifoss. Hætta á stíflurofi er þó talin afar ólíklegur atburður og ekki er talin sérstök hætta á annarri náttúruvá en að ofan sögð
Þekkt er að mikil flóð geta myndast í leysingum og stórrigningum þar sem mikið undirlendi dalsins fer undir vatn. Flóðin valda því að vatnsborð Lagarfljótsins hækkar og áhrifa gætir út eftir Héraði. Síðasta stórflóð var haustið 2017.
Landslag og jarðfræði
breytaFljótsdalur og inndalir eru umluktir fjöllum sem eru svipuð að hæð eða á bilinu 600-700 m og mynda hásléttu sem roföflin, ár og jöklar, hafa grafið sig niður í og myndað einskonar trog. Það er nú fyllt af Lagarfljóti og framburði sem myndar sléttu innan við Fljótsbotn, í aðeins um 25 m h.y.s. Þessi sérstaka umgjörð býður upp á talsverða fallhæð vatna af hásléttunni niður í dalbotn með fjölbreytilegum og fallegum fossum. Fjarlægð frá strönd Héraðsflóa inn í Fljótsdal eru einir 80 km. Innanverður dalurinn greinist um Múla í Suðurdal með Kelduá og Norðurdal með Jökulsá.
Berggrunnur svæðisins samanstendur einkum af basísku storkubergi og rauðleitu setbergi þar á milli og er þetta eitt megineinkenni Fljótsdals.
Lífríki
breytaLandslag er fagurt og fjölbreytt. Lagskipt basaltfjöll setja svip sinn á dalinn og flæðislétta þar sem Kelduá og Jökulsá liðast um og renna saman til Lagarfljótsins ásamt Gilsánni. Hlíðar eru víða vaxnar skógi; villtum birkiskógi og nytjaskógum. Í hlíðum má þó einnig sjá jarðrask eftir skriðuföll sem tekið hafa með sér gróður og jarðveg. Víða eru lyng- og blómjurtir auk grasi gróinna túna og engja. Vegna hagstæðs veðurfars eru ræktunarmöguleikar miklir og fjölbreyttir.
Á hásléttu Fljótsdals eru víðáttumikil og vel gróin heiðalönd, sem sauðfjárbændur nytja fyrir sumarbeit. Sauðfjárrækt er ein stærsta búgreinin í sveitarfélaginu. Aðalbúsvæði hreindýra á Íslandi er á þessu svæði. Hluti Vatnajökulsþjóðgarðs er innan sveitarfélagsmarka sem og Snæfell. Eyjabakkar eru gróið votlendissvæði á hásléttunni og framan við sporð Eyjabakkajökuls í um 640 m h.y.s. Svæðið er alþjóðlega mikilvægt búsvæði fyrir votlendisfugla, einkum heiðargæsir og líffræðilegan fjölbreytileika. Verndarsvæðin innan Vatnajökulsþjóðgarðs lúta samþykktri stjórnunar- og verndaráætlun er varðar náttúruvernd, útivist og byggðaþróun. Þjóðlendur innan staðarmarka Fljótsdalshrepps eru Villingadalur, Suðurfell, Múli og undir Fellum. Auk þess er stór hluti Valþjófsstaðarlands og Skriðuklausturs skilgreint sem þjóðlendur
Samgöngur
breytaVegsamgöngur
breytaGóðar vegasamgöngur og tengingar eru við nágrannabyggðalög sveitarfélagsins. Þjóðvegur nr. 931 liggur umhverfis Lagarfljótið og inn af honum Fljótsdalshringurinn nr. 933. Hægt er að fara af þeim vegi inn á hring um Norðurdal nr. 934 að Óbyggðasetri Íslands og til baka nr. 9340 (malarvegur) framhjá Fljótsdalsstöð og Valþjófsstað. Frá Végarði í Fljótsdal eru um 15 km til Hallormsstaðar og þar í gegn til Egilsstaða um 42 km og inn á þjóðveg nr. 1. Frá Végarði um Fell til Fellabæjar eru einnig um 40 km. Þaðan er malbikaður vegur til Seyðisfjarðarhafnar, Mjóeyrar í Reyðarfirði og til flugvallarins á Egilsstöðum.
Malbikaður hálendisvegur liggur auk þess upp á heiði til Kárahnjúka og malarvegur þaðan yfir á Jökuldal, áhugaverð hálendis leið sem tengir saman fallegar náttúruperlur. Frá hálendisveginum liggja skilgreindir jeppaslóðar að fjallaskálum, s.s. að Fjallaskarði, Snæfelli, Geldingafelli og fleiri áhugaverðum stöðum á Fljótsdalsöræfum
Göngu -, reið - og hjólaleiðir
breytaInnan Fljótsdalshrepps eru stikaðar gönguleiðir að einstökum náttúru fyrirbrigðum á borð við Hengifoss, Strútsfoss og Gjáhjalla. Aðrar vinsælar gönguleiðir eru t.d. Tröllkonustígur, Fossaganga með Jökulsá í Norðurdal og Fossahringur út frá Laugarfelli sem og leiðir við Snæfell. Gönguskíðaleiðir eru einnig til staðar út frá Laugafelli og Óbyggðasetri Íslands þegar færi hentar.
Reiðleiðir liggja í gegnum Hallormsstaðaskóg og inn Fljótsdal um malarveg við Hrafnkelsstaði. Gamlar ferða - og verslunarleiðir liggja til Gautavíkur í Berufirði, yfir í Víðidal og um Fljótsdalsheiði til Hrafnkelsdals og Jökuldals.
Fjallahjólaleiðir í dalnum og uppi á heiðum eru merktar, hnitsettar og aðgengilegar á netinu. Frá árinu 2012 hefur um miðjan ágústmánuð farið fram hin vinsæla hjólreiðakeppni Tour de Ormurinn sem teygir sig allt inn í Norðurdal.
Hafnir
breytaFljótsdalur er inni í landi og liggur því hvergi að sjó. Næstu hafnir frá Végarði eru á Seyðisfirði í Múlaþingi í um 66 km fjarlægð og á Reyðarfirði í Fjarðabyggð í um 75 km fjarlægð. Gamlir ferjustaðir eru við Brekku og Húsatanga.
Flugvellir
breytaEgilsstaðaflugvöllur er í aðeins 45 km fjarlægð frá Végarði í Fljótsdal. Völlurinn er einn af fjórum flugvöllum á Íslandi sem uppfylla kröfur um millilandaflug og er skilgreindur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Slökkvi - og sjúkraþjónusta er á vellinum. Egilsstaðaflugvöllur er opinn allan sólarhringinn og allt árið. Veður - og aðflugsskilyrði eru mjög góð.
Vinnumarkaður
breytaMannauður
breytaÍ Fljótsdalshreppi voru skráir um 100 einstaklingar 1. janúar 2021, 67 karlmenn og 31 kona. Töluverður hópur sækir vinnu frá nágrannasveitarfélagi í Fljótsdalshrepp, einkum í tengslum við Fljótsdalsstöð Landsvirkjunar, Skriðuklaustur og Snæfellsstofu. Einnig sækja íbúar Fljótsdalshrepps vinnu í önnur sveitarfélög
Árið 2018 voru ársverk í Fljótsdalshreppi skilgreind 52 talsins en í janúar 2021 alls 55, samkvæmt Vinnumálastofnun. Vorið 2021 var einnig lögð fram könnun meðal fyrirtækja og stofnana í hreppnum og er hér vísað í niðurstöður hennar um heilsársstörf árið 2021 og um viðbótarþörf 2026. Flest störf tengjast opinberum aðilum og sauðfjárrækt þó vaxtarbroddurinn felist í ferðaþjónustu og afleiddum störfum landbúnaðarins. Lítið sem ekkert atvinnuleysi er í Fljótsdalshreppi.
Á næstu árum er því gert ráð fyrir fjölgun starfa á nær öllum sviðum atvinnulífsins í Fljótsdal. Ársstörfum í sauðfjárrækt mun fækka en á móti eru uppi væntingar um að fjöldinn haldist en færist yfir í akuryrkju og afleidd störf. Væntingar um fjölgun starfa í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð og Snæfellsstofu eru töluverðar, sem og störf án fastrar staðsetningar.
Þjónusta
breytaSveitarfélagið
breytaFljótsdalshreppur veitir íbúum fjölþætta þjónustu er varðar skipulags - og byggingamál, samgöngumál, sorphirðu, fjallskil o.fl. Það tryggir lögbundna grunnþjónustu er varðar menntun með samstarfssamningi við Múlaþing. Heilbrigðisþjónusta og önnur stoðþjónusta, s.s. bankar, pósthús og verslun er sótt til Egilsstaða. Á Egilsstöðum er stjórnstöð Almannavarna, löggæsla og slökkvilið. Fljótsdalshreppur vinnur í samstarfi við Austurbrú og íbúa að samfélagsverkefni er lítur að því að efla og styrkja samfélagið og sjá framtíðarmöguleika byggðarinnar. Sveitarfélagið hvetur íbúa til mennta-, frumkvöðlastarfs og fegrunar umhverfisins með fjölbreyttri aðkomu og styrkjamöguleikum
Opinberar stofnanir
breytaMiðað við höfðatölu voru flest opinber störf í Fljótsdalshreppi (22,4%) árið 2019 eða alls 15 stöðugildi. Skýrist þetta af störfum hjá Landsvirkjun í Fljótsdalsstöð, hjá Vatnajökulsþjóðgarði í Snæfellsstofu og stöðugildum hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri.
Gunnarsstofnun er rekin sem sjálfseignarstofnun með sérstakri skipulagsskrá og er á fjárlögum. Gunnarsstofnun hefur til umráða og umsjónar Skriðuklaustur og rekur þar menningar- og fræðasetur með lifandi menningarstarfsemi árið um kring; sýningum, tónleikum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum. Um er að ræða heilsársstarfsemi með forstöðumanni, staðarhaldara, sumarstarfsfólki og verkefnaráðnum starfsmönnum.
Landsvirkjun rekur Fljótsdalsstöð, stærstu aflstöð á landinu, með 690 GW af uppsettu afli og getur unnið 4.800 GW stundir af rafmagni á ári. Um 15 einstaklingar vinna í stöðinni á föstum vöktum.
Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir 14.141 km 2 svæði og er meðal stærstu þjóðgarða Evrópu. Gestastofa þjóðgarðsins, Snæfells stofa, er á Skriðuklaustri. Þjóðgarðurinn rekur þar upplýsingamiðstöð, minjagripaverslun og sýningu, auk þess að hafa umsjón með skálum á hálendinu. Þjóðgarðsvörður, aðstoðarþjóðgarðsvörður og landverðir starfa við garðinn.
Í Végarði er vinnuaðstaða sem starfsfólk opinberra starfa hafa nýtt sér, s.s. starfs fólk Austurbrúar sem veita þjónustu á sviði viðskiptalífs, menntunar og menningar á Austurlandi. Sendiráðsfulltrúar auk starfsmanna ýmissa fyrirtækja, frumkvöðlar og háskólanemar hafa einnig nýtt aðstöðuna.
Fyrirtæki og þjónusta
breytaÍ Fljótsdal eru flest fyrirtæki tengd búrekstri, úrvinnslu hráefnis og ferðaþjónustu.
Fljótsdalsgrund er rekið við hliðina á félagsheimilinu Végarði. Gistihúsið býður mismunandi aðstöðu til gistingar, allt frá sérherbergjum og fjölskyldurýmum til tjaldstæðis með og án rafmagns. Aðstaðan er því talsvert nýtt í tengslum við ættarmót, brúðkaup og til annarra veisluhalda.
Klausturkaffi er með veitingaþjónustu á Skriðuklaustri. Þar er íslensk matargerð í hávegum höfð og áhersla lögð á að nýta hráefni af svæðinu hvort sem er ræktað eða villt. Fyrirtækið framleiðir einnig einstaka matarminjagripi til sölu á svæðinu.
Óbyggðasetur Íslands á Egilsstöðum í Norðurdal er ferðaþjónustufyrirtæki sem býður upp á lifandi sýningu um ævintýri óbyggðanna. Óbyggðasetrið býður auk þess upp á veitingar, gistingu, heitan pott og ýmis konar afþreyingu. Óbyggðasetrið rekur líka ferðaþjónustu í Laugarfelli á Fljótsdalsheiði. Rekstraraðilar hafa hlotið fjölda viðurkenninga fyrir framúrskarandi hönnun og uppbyggingu.
Könglar Geymt 29 febrúar 2024 í Wayback Machine er frumkvöðlafyrirtæki sem að framleiðir drykkir úr íslenskum jurtum og skógarafurðum
Sauðagull er frumkvöðlafyrirtæki á Egilsstöðum í Norðurdal. Markmið þess er að endurvekja og þróa handverk og matvæli úr sauðfjárafurðum og sauðamjólk.
Skógarafurðir er fjölskyldufyrirtæki á Ytri Víðivöllum II. Það sérhæfir sig í framleiðslu á skógarafurðum úr eigin skógi og aðfengnu íslensku hráefni. Meðal þess sem er framleitt er eldiviður, pallaefni, klæðningar, parket og staurar.
Hengifosslodge er fjölskyldufyrirtæki sem að bíður upp á gistingu í formi smáhýsa og íbúða á Húsum í Fljótsdal
Hel Fjallahjólaleiðir er frumkvöðlafyrirtæki sem tengist Hrafnkelsstöðum og Þuríðarstöðum. Unnið er að kortlagningu fjallahjólaleiða í Fljótsdal og uppbyggingu þjónustu í tengslum við þær.
Verktakastarfsemi er töluverð í Fljótsdal, s.s. á sviði jarðvegsvinnu, snjómoksturs, trésmíða, bílaviðgerða og sérsmíða í tengslum við búrekstur.
Tækifæri í Fljótsdalshreppi
breytaSamfélagið í Fljótsdal er framsýnt og hefur unnið að samfélagsverkefninu Fögur framtíð í Fljótsdal. Horft er til framtíðar og markviss skref tekin í þá átt til frekari uppbyggingar samfélagsins. Samkvæmt greiningu í tengslum við það verkefni eru sóknarfærin í hreppnum talin upp á næstu síðum.
Matvælaframleiðsla
breytaSauðfjárrækt er aðalbúgrein landbúnaðarins. Fjölbreytt tækifæri liggja í nýtingu afurða og margskonar vöruþróun á kjöti, mjólk, ull, beinum og öðru sem til fellur. Unnið hefur verið með sauðamjólk á svæðinu sem hefur gefið góða raun og fengið jákvæðar undirtektir. Í næsta nágrenni er aðgangur að tilraunaeldhúsi í Hallormsstaðaskóla, sem er með nám í sjálfbærni og sköpun. Skólinn býður fram handleiðslu og viðurkennda aðstöðu sem opnar ný tækifæri í heimahéraði. Einföld aðstaða er einnig aðgengileg til matvælavinnslu í eldhúsi Végarðs
Á sambærilegan hátt má horfa til hrossaog nautgriparæktar. Auk þess má horfa til nýtingar býla til fræðslu og sem hluta af meðferðarúrræði þar sem lögð er áhersla á að koma fólki út á vinnumarkaðinn eða efla það andlega og líkamlega.
Svæðið tengist gjöfulum veiðilendum fugla, s.s. rjúpna og gæsa, og hreindýra. Víða er fiskur í vötnum á Fljótsdalsheiði og seld eru veiðileyfi í Kelduá í Suðurdal. Fjölmörg tækifæri eru þar ónýtt en allt til staðar til að byggja undir nýsköpun í tengslum við villibráð og ferðamennsku.
Mikil gróska hefur verið í nýtingu jurta til manneldis og í veitingar meðal veitingastaða á svæðinu. Unnar hafa verið vörur til sölu úr hrútaberjum, rabarbara, sveppum o.fl. Tilraunir hafa auk þess verið gerðar með byggrækt til bjórframleiðslu, ræktun burnirótar til fæðubótarefna og margt fleira. Ýmis tækifæri liggja því í nýtingu villts gróðurs, ræktunar jurta, hvort sem er í sérstakar afurðir, til íblöndunar, í veitingar eða hverskonar handverk.
Fljótsdalshreppur er talinn henta vel til kornræktunar, s.s. byggs, hafra, repju og humla. Tækifærin felast í svæðisbundinni ræktun með sameiginlegri vinnslu og markaðssetningu.
Skógrækt
breytaMikil þekking er á skógrækt í dalnum enda er Hallormsstaðaskógur fyrsti þjóðskógur Íslands.[4] Ræktun til viðarnytja hefur staðið yfir í rúm 50 ár. Jólatrjárækt hefur lengi verið stunduð og mætti gera í meira mæli, sem og að nýta sameiginlega krafta til að auka enn frekar gæði trjánna og söluvirði þeirra
Á skógarsvæðum vex töluverður botngróður sem má nýta til beitar, s.s. sveppi, hrútaber, lækninga- og fæðubótajurtir. Þekkt er af svæðinu að nýta birkisafa, greinar, börk, köngla og fleira til litunar, sútunar eða í matarhandverk. Tækifæri liggja í sölu kolefniseininga með skógrækt og ýmis tækifæri felast einnig í að tengja skógrækt við ferðaþjónustu og útivist sem enn eru vannýtt.
Iðnaður
breytaSkógariðnaður er til staðar í Fljótsdal þar sem framleitt er m.a. parket, panill, pallaefni, girðingastaurar og eldiviður sem fer á helstu pitsustaði landsins. Tækifæri eru því í frekari úrvinnslu íslensks viðar. Landbúnaðargreinar dalsins bjóða auk þess upp á fjölbreytta vinnslu landbúnaðartengdra afurða, ekki hvað síst er tengjast sauðfé, s.s. kjötvinnslu, nýtingu ullar og sútun gæra. Tækifæri í öðrum búgreinum eru ónýtt. Úrvinnsla og fullvinnsla villibráðar eru einnig vannýtt tækifæri svo nærri helstu veiðisvæðum landsins. Í sveitarfélaginu er stærsta orkuver landsins, Fljótsdalsstöð.
Ferðaþjónusta
breytaFjölmörg tækifæri liggja í ferðaþjónustunni, ekki hvað síst vegna nálægðar við Vatnajökulsþjóðgarð og Eyjabakkasvæðið. Náttúran er einstök sem og hið villta dýra - og fuglalíf. Straumur ferðamanna hefur legið að Hengifossi en takmarkað dreifst um dalinn. Tækifæri felst í því að veita þar upplýsingar um aðra afþreyingu og þjónustu um allan hrepp með tilkomu mannaðs þjónustuhúss. Veitingaþjónusta er talsverð frá apríl og fram í október en takmarkast annars við bókanir hópa. Auka má afþreyingu á svæðinu sumar sem vetur. Vatnasport, gönguferðir, fjallaferðir, hestaferðir, veiðiferðir, fuglaskoðun og fleira henta svæðinu. Fjölmörg tækifæri eru til að byggja upp heilsársferðamennsku sem og að auka nýtingu mannvirkja er tengjast ferðaþjónustunni, þar undir má nefna fjallahótelið Laugarfell og fjallaskálana á hálendinu.
Heimildir
breyta- ↑ Rúnar Snær Reynisson (2. júlí 2023). „Þjónustuhús rís við Fljótsdal - RÚV.is“. RÚV.
- ↑ Rúnar Snær Reynisson (2. júlí 2023). „Þjónustuhús rís við Fljótsdal - RÚV.is“. RÚV.
- ↑ Austurfrétt (8. Apríl 2015). „Óbyggðasetur í Fljótsdal: Hugmyndin er að þetta verði upplifun og ævintýri - austurfrett.is“. Austurfrétt.
- ↑ „Hallormsstaðaskógur“. Skógræktin.
„Innviðagreining Fljótsdalshrepps“ (PDF). www.fljotsdalur.is. Fljótsdalshreppur. 26.02.2024.