Hengifoss
Hengifoss er staðsettur í Hengifossárgljúfri sem staðsett er í norðanverðum Fljótsdal, rétt innan við botn Lagarfljóts. Gljúfrið nær frá heiðarbrún og niður að dalbotni og eiga tveir sveitabæir land að því, Melar og Hjarðaból. Melar eru í einkaeigu en Hjarðarból er í eigu ríkisins[1]
Gljúfrið er helst þekkt fyrir hinn mikilfenglega Hengifoss sem fellur frá heiðarbrún 128,5 metra niður í fallegt gil. Gilið myndar stóra skál þar sem áberandi eru mikil rauðalög á milli blágrýtislaga og myndar fallega umgjörð um háan fossinn. Setlögin í Hengifossárgljúfri urðu til í stöðuvatni seint á tertíertímabilinu, í þeim má finna surtarbrand, samanpressaða trjástofna og rótarhnyðjur en setlögin hafa greitt fyrir myndun fossins. Ofan við Hengifoss eru tveir fossar sem ekki eru til heimildir um að þeir hafi nöfn[1][2]
Neðar í gilinu er einnig annar foss, ekki síður fallegri, Litlanesfoss (20-25 m hár), sem skartar mikilfenglegu stuðlabergi. Stuðlarnir eru yfir 10 metra háir og eru með hæstu stuðlum á Íslandi[1]. Neðar í gilinu er Skógarhvammur svo kallaður, hann er um 0,5 ha að stærð og vaxinn birki og reynivið. Skógarhvammur er í landi Hjarðabóls umvafinn klettum. Þrátt fyrir staðsetnigu hans geta bæði menn og sauðfé gengið um hann[2][1].
Neðst í gilsmynninu má finna hlaðna rétt. Réttin er í landi Mela og réttað var í henni síðasta skipti haustið 1901[2][1]. Gljúfrið frá vegi og upp að Hengifossi er einnig mjög fallegt, vaxið birki- og reynitrjám. Stígurinn upp að fossinum liggur í landi Mela ásamt bílastæði og þjónustuhúsi. Ef vel viðrar sést vel inn í skógi vaxinn dalinn.[1].
Bílastæði við Hengifoss er staðsett rétt fyrir neðan Hengifossárgljúfur. Við bílastæðið er staðsett salernishús með klósettum ásamt nestisborði. Við uppgönguna að fossinum eru upplýsingaskilti á vegum vegagerðarinnar. Á skiltunum eru helstu upplýsingar um gönguna upp að fossinum ásamt upplýsingum um helstu þjónustu á nærsvæði gljúfursins.
Landafræði
breytaGönguleiðin
breytaGangan í heild sinni tekur allt að tvær klukkustundir, gönguleiðin er um 5 km og hækkunin um 300 m[3][4].
Gengið er upp stiga frá bílastæðinu í landi Mela, Um hálfa leið upp má finna Litlanesfoss, sem er umlukinn stuðlabergi. Gönguleiðin er að mestu malarstígur, á köflum hafa verið lagðar mottur í stíginn. Einnig hefur verið komið fyrir pöllum á efsta hluta stígsins til að vernda viðkmæma náttúru og bæta aðgengi[5][3].
Til að sjá Hengifoss í sólinni er best að ganga upp að fossinum að morgni til yfir sumarmánuðina.Gönguleiðin veitir líka gott útsýni yfir Fljótsdalinn
-
Hengifoss.
-
Hengifoss um 1900.
-
Göngupallar á efsta hluta göngustígs upp að Hengifossi.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Mannvit (2015). Hengifoss, Fljótsdalshreppur; Deiliskipulag - Greinargerð og umhverfisskýrsla.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Helgi Hallgrímsson (2016). Fljótsdæla, mannlíf og náttúrufar í Fljótsdalshreppi.
- ↑ 3,0 3,1 User, Super. „Hengifoss.is“. Hengifoss.is. Sótt 4. apríl 2021.[óvirkur tengill]
- ↑ „Hengifoss“. www.ferdaf.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. apríl 2021. Sótt 4. apríl 2021.
- ↑ Stígagerð við Hengifoss, sótt 4. apríl 2021