Eysteinn Haraldsson (konungur)

(Endurbeint frá Eysteinn 2.)

Eysteinn Haraldsson eða Eysteinn 2. (d. 1157) var konungur Noregs á árunum 1142-1157 ásamt yngri hálfbræðrum sínum Sigurði munni og Inga krypplingi og frá 1155 aðeins með Inga.

Eysteinn var elsti sonur Haraldar gilla. Hann var fæddur á Bretlandseyjum, líklega nálægt 1125, og hét móðir hans Bjaðök. Hann ólst upp fyrir vestan haf og kom til Noregs ásamt móður sinni árið 1142, en þá sátu barnungir bræður hans þar á konungsstóli því að Haraldur gilli var drepinn árið 1136. Þar sem hann hafði gengist við Eysteini var kröfu hans til ríkis ekki mótmælt og var hann gerður að konungi með þeim Sigurði og Inga, ásamt fjórða bróðurnum, Magnúsi, sem einnig var barn að aldri. Magnús var heilsuveill og dó þremur árum síðar en hinir bræðurnir þrír ríktu saman í þrettán ár. Eysteinn hafði sína eigin hirð en yngri bræðurnir höfðu sameiginlega hirð þar til þeir uxu úr grasi.

Eysteinn fór í víkingaferð til Bretlandseyja laust eftir 1150, herjaði á Orkneyjar, Skotland og England. Annars var merkasti atburðurinn á þessum árum stofnun erkibiskupsstólsins í Niðarósi, sem bræðurnir þrír stóðu allir að.

Smám saman versnaði sambandið milli bræðranna Eysteins og Sigurðar annars vegar og Inga og ráðgjafa hans (Gregoríusar Dagssonar og Erlings skakka) hins vegar. Árið 1155 drápu menn Inga Sigurð konung í Björgvin og næstu tvö ár einkenndust af skærum og átökum milli Inga og Eysteins. Lauk þeim með því að Eysteinn féll fyrir mönnum Inga nálægt Ósló árið 1157.

Snorri lýsir Eysteini svo að hann hafi verið vitur maður og skynsamur en fégirni hans og níska hafi spillt fyrir honum. Hann átti einn son, Eystein meylu Eysteinsson, sem birkibeinar völdu konung sinn á Eyraþingi 1176 en hann féll fyrir mönnum Magnúsar konungs Erlingssonar ári síðar og er ekki talinn með í norsku konungaröðinni.

Heimildir

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Øystein Haraldsson“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. desember 2009.
  • „Heimskringla“.


Fyrirrennari:
Sigurður munnur
Ingi krypplingur
Noregskonungur
með Sigurði munni (til 1155) og Inga krypplingi
(11421157)
Eftirmaður:
Ingi krypplingur