Eyjólfur Brandsson

Eyjólfur Brandsson (d. 1293) var ábóti í Munkaþverárklaustri á síðari hluta 13. haldar, hefur líklega fengið forræði klaustursins 1253, en Árni Hjaltason ábóti dó árið áður, og var svo vígður 1254.

Eyjólfur var sonur Valla-Brands Eyjólfssonar og var lengi prestur á Völlum í Svarfaðardal. Hans er getið á Munkaþverá veturinn 1253, eftir Flugumýrarbrennu, þar sem hann reyndi að bera sættir á milli Gissurar Þorvaldssonar og brennumanna.

Tveimur árum síðar dró til tíðinda í Eyjafirði, þegar laust saman flokki Eyjólfs ofsa Þorsteinssonar, annars foringja brennumanna, og Hrafns Oddssonar annars vegar og Þorgils skarða, Þorvarðar Þórarinssonar og Sturlu Þórðarsonar hins vegar. Þorgils og félagar komu með flokk manna til Eyjafjarðar um sumarið en bændur söfnuðu liði undir forystu Eyjólfs ofsa og Hrafns. Eyjólfur ábóti reyndi að stilla til friðar og fór á milli fylkinganna en það kom fyrir lítið og sló í bardaga á Þveráreyrum, skammt frá klaustrinu. Þar höfðu menn Þorgils skarða og félaga betur, Eyjólfur ofsi féll en Hrafn Oddsson komst undan á flótta. Sumir liðsmenn þeirra leituðu griða í klaustrinu. 16 eða 17 menn féllu og margir særðust og var þeim hjúkrað af ábóta og munkunum, sem sungu svo yfir þeim föllnu.

Nokkru síðar reyndi Eyjólfur ábóti að koma á sáttum með Þorgils og Þorvarði og svo Heinreki Kárssyni Hólabiskupi, sem hafði stutt Eyjólf ofsa og Hrafn, og hittust þeir í klaustrinu, en ekkert varð úr sáttum. Þetta sýnir allt að Eyjólfur ábóti hefur verið maður sátta og friðar og iðulega reynt að lægja öldurnar í ófriðarbáli Sturlungaaldar. Þegar Þorgils skarði var drepinn á Hrafnagili 1258 var lík hans flutt til Munkaþverár þar sem Eyjólfur ábóti tók við því og veitti Þorgils sæmandi útför.

Eyjólfur var frændi Gissurar Þorvaldssonar. Þess er getið í frásögn Sturlungu af Flugumýrarbrennu að þar var staddur Þórólfur munkur og ölgerðarmaður frá Munkaþverá og hefur hann vafalaust verið lánaður til Flugumýrar til að brugga öl fyrir brúðkaupsveisluna.

Eyjólfur hverfur úr sögunni 1293 og hefur vafalaust dáið það ár. Eftirmaður hans var Ljótur Hallsson.


Heimildir breyta

  • „Munkaþverár-klaustur. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Munkaþverárklaustur. Sunnudagsblaðið, 10. apríl 1966“.