Heinrekur Kársson var biskup á Hólum frá 1247 til dauðadags, 1260. Ekkert er vitað um ætt Heinreks, né hvenær hann var fæddur. Hann er talinn hafa verið norskur, en þó eru einnig ágiskanir um að hann hafi verið þýskur að ætterni. Í sumum heimildum er hann sagður Karlsson.

Biskup konungs breyta

Eftir að Bótólfur biskup féll frá, var Heinrekur kjörinn Hólabiskup. Hann fylgdi fram málum Hákonar gamla Noregskonungs hér á Íslandi fastar en nokkur annar. Hefur konungur eflaust staðið á bak við kosningu hans. Hann var vígður 1247 af Vilhjálmi af Sabína kardínála, er þá var staddur í Noregi vegna krýningar Hákonar gamla. Segir sagan að Heinrekur hafi komið út með skriflega áskorun til Íslendinga frá Hákoni konungi um að játast undir ríki sitt, en hún var m.a. gerð í samráði við Vilhjálm kardínála.

Heinrekur kom til Íslands sumarið 1248. Hann var ekki vinsæll biskup, enda lét hann sig kirkjumál og kristnihald litlu skipta en var meira í því að reka erindi konungsvaldsins hér.

Deilur við höfðingja breyta

Urðu brátt fáleikar með Heinreki og þeim Þórði kakala og Gissuri Þorvaldssyni, sem þá voru helstu valdamenn hér á landi. Fann biskup þeim til foráttu að þeir rækju ekki erindi konungs sem skyldi. Má sem dæmi nefna að eftir Flugumýrarbrennu haustið 1253, þar sem reynt var að brenna Gissur inni, riðu brennumenn heim til Hóla. Tók Heinrekur biskup vel við þeim, veitti þeim aflausn fyrir glæp sinn og hélt þeim svo veislu. Í miðri veislunni bárust þau tíðindi til Hóla að Gissur hefði komist af úr brennunni. Sló þá talsvert á fögnuð veislugesta.

Heinrekur var biskup á Hólum í 13 ár, en dvaldi þó ekki á Íslandi nema u.þ.b. 5 ár af þeim tíma. Veturinn 1250-1251 var hann við hirð konungs og er þá nefndur meðal ráðgjafa hans. Heinrekur fór af landi brott 1256 og er svo að sjá að hann hafi síðan dvalist við hirð konungs og verið ráðunautur hans um íslensk málefni. Hann andaðist í Noregi sumarið 1260.

Heimildir breyta

  • Jón Helgason biskup: Kristnisaga Íslands I, 131-153.
  • Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands II, 139.
  • Sturlunga saga.



Fyrirrennari:
Bótólfur (biskup)
Hólabiskup
(12471260)
Eftirmaður:
Brandur Jónsson