Árni Hjaltason
Árni Hjaltason (d. 1252) var ábóti í Munkaþverárklaustri og var vígður 1229, eftir lát Ketils Hallssonar ábóta sama ár. Árni var Eyfirðingur að ætt, sonur Hjalta Klængssonar Hallssonar. Föðurbróðir hans var Kleppjárn Klængsson, faðir Halls Kleppjárnssonar goðorðsmanns, sem Kálfur Guttormsson lét drepa á jólaföstu árið 1212.
Í Sturlungu segir frá því að þegar Þórður kakali kom til Gása með skipi 1242 fór Árni ábóti til fundar við hann og ráðlagði honum að hverfa sem fyrst á brott úr Eyjafirði því að honum væri ekki óhætt fyrir Kolbeini unga, og fara fremur suður á land og leita liðsinnis þar, sem Þórður og gerði.
Eyjólfur Brandsson tók við sem ábóti eftir lát Árna.