Eric Robertson Dodds (26. júlí 18938. apríl 1973) var breskur fornfræðingur.

Dodds fæddist í Banbridge, County Down á Norður-Írlandi. Foreldrar hans voru kennarar. Robert, faðir hans, lést af völdum áfengissýki þegar Dodds var sjö ára gamall. Anne, móðir hans, var af ensk-írskum ættum. Þegar Dodds var tíu ára gamall flutti hann ásamt foreldrum sínum til Dyflinnar. Hann hlaut menntun í St Andrew's College (þar sem móðir hans kenndi) og í Campbell College í Belfast. Hann var rekinn úr síðarnefnda skólanum fyrir „mikla og ítrekaða ósvífni af yfirlögðu ráði“.

Árið 1912 hlaut Dodds skólastyrk til náms í í fornfræði við University College í Oxford. Meðal vina hans í Oxford voru Aldous Huxley og T.S. Eliot. Árið 1916 var hann beðinn um að yfirgefa Oxford vegna stuðnings síns við páskauppreisnina en hann sneri aftur næsta ár til að þreyta próf og brautskráðist með ágætiseinkunn.

Að námi loknu hélt Dodds aftur til Dublin og kynntist þar W.B. Yeats og George Russell. Árið 1919 var hann skipaður lektor í fornfræði við University of Reading og árið 1923 giftist hann Annie Edwards Powell (1886-1973), lektor í enskum bókmenntum.

Dodds var skipaður prófessor í grísku við University of Birmingham árið 1924 og kynntist þar W. H. Auden (faðir Audens var samstarfsmaður hans). Dodds bar einnig ábyrgð á því að Louis MacNeice var skipaður lektor við háskólann í Birmingham árið 1930. Hann aðstoðaði MacNeice við þýðingar á verkum Æskýlosar og varð forráðamaður ritverka skáldsins að MacNeice látnum. Dodds gaf sjálfur út eitt safn ljóða árið 1929.

Árið 1936 varð Dodds Regius Professor of Greek við Oxford háskóla og tók við þeirri stöðu af Gilbert Murray. Murray hafði sjálfur valið Dodds sem eftirmann sinn en sú ákvörðun var ekki vinsæl - Dodds var málamiðlun; hann var valinn í stað tveggja fræðimanna sem störfuðu þegar við háskólann. Sú staðreynd að hann hafði ekki barist í fyrri heimsstyrjöldinni (hann vann um skamma hríð á herspítala í Serbíu) og stuðningur hans við myndun lýðveldis á Írlandi og við sósíalisma gerðu hann einnig óvinsælan meðal samstarfsmanna sinna í upphafi.

Dodds er höfundur bókanna The Greeks and the Irrational og Pagan and Christian in an Age of Anxiety og var ritstjóri margra klassískra texta fyrir Clarendon Press, þ.á m. Bacchae eftir Evripídes og Gorgías eftir Platon. Sjálfsævisaga hans, Missing Persons, kom út árið 1977.

Dodds hafði ávallt mikinn áhuga á dulspeki og sálrænum rannsóknum. Hann var meðlimur í ráði Society for Psychical Research frá 1927 og forseti þess árin 1961-1963.