Eignarfornafn
Eignarfornöfn (skammstafað sem efn.) eru fornöfn[1] og eru helst minn og þinn í íslensku[1] en vor og sinn teljast einnig til eignarfornafna. Sumir málfræðingar telja eignarfornafnið sinn eiga heima í flokki afturbeygðra fornafna þar eð það vísar aftur til þriðju persónu.[1] Þessi skilgreining er umdeild enda nýleg og á sér ekki hefð í íslenskri málfræði. Í fornu máli voru eignarfornöfn þremur fleiri: okkar, ykkar og yðar. Þau beygðust öll á sama veg og nokkurn veginn eins og fornöfnin annar og nokkur í nútímamáli. [2]
Vor og minn (þinn og sinn)
breytaVor er aðeins notað í hátíðlegu máli; „Heill forseta vorum og fósturjörð“ og beygist þannig:
Eintala | Fleirtala | |||||
---|---|---|---|---|---|---|
karlkyn (kk.) | kvenkyn (kvk.) | hvorugkyn (hk.) | karlkyn (kk.) | kvenkyn (kvk.) | hvorugkyn (hk.) | |
nefnifall | vor | vor | vort | vorir | vorar | vor |
þolfall | vorn | vora | vort | vora | vorar | vor |
þágufall | vorum | vorri | voru | vorum | vorum | vorum |
eignarfall | vors | vorrar | vors | vorra | vorra | vorra |
Minn beygist þannig (þinn og sinn beygjast eins):
Eintala | Fleirtala | |||||
---|---|---|---|---|---|---|
karlkyn (kk.) | kvenkyn (kvk.) | hvorugkyn (hk.) | karlkyn (kk.) | kvenkyn (kvk.) | hvorugkyn (hk.) | |
nefnifall | minn | mín | mitt | mínir | mínar | mín |
þolfall | minn | mína | mitt | mína | mínar | mín |
þágufall | mínum | minni | mínu | mínum | mínum | mínum |
eignarfall | míns | minnar | míns | minna | minna | minna |
Eignarfornöfnin í íslensku
breytaÍ íslensku er meginreglan að hafa eignarfornöfn á eftir, en ekki á undan nafnorði. Dæmi: Sonur minn er tólf ára . Óeðlilegt þykir að snúa þessu við og segja: Minn sonur er tólf ára þar eð slík orðaröð er ekki eðlileg í íslensku (heldur í ensku). En frá þessari meginreglu er undantekning og hún er veigamikil. Ef leggja þarf sérstaka áherslu á eignarfornafnið, er réttlætanlegt að færa það fram fyrir. Dæmi: Vera má að þú hafir mikið fylgi, en minn stuðning færðu aldrei. Það er þó ekki einhlítt. Í töluðu máli má ná réttum tóni, þótt orðaröðin sé eftir venjulegum lögmálum tungunnar. En stuðning minn færðu aldrei.
Fleira kemur til sem undantekning frá meginreglunni. Það eru föst orðatiltæki t.d. Eins og: Sinn er siður í landi hverju. Einnig má líta til orða Benedikts Gröndal: Mitt er að yrkja, ykkar að skilja. Sitthvað í kveðskap lætur oft meginregluna lönd og leið vegna hrynjandi, ríms og stuðla, og jafnvel tilfinningalegra blæbrigða, og þá getur jafnvel verið „rétt“ að hafa eignarfornafnið fyrirsett. En meginreglan er samt sterk í íslensku, eins og sést t.d. á orðum Rósu Guðmundsdóttur frá Fornhaga: Augun mín og augun þín, ó, þá fögru steina!... [3]
Líkamshlutar
breytaÍ íslensku eru eignarfornöfn ekki notuð um líkamshluta nema í formlegu máli og skáldskap (lítil börn eigna sér líkamshluta sína en venjast fljótt af því). Í fréttatexta eða skýrslu þykir slæmt að segja: Hann var með verk í augunum sínum. Í daglegu tali á íslensk er venjulega talað um hárið, fótinn, bakið, höfuðið, magann, augun (á/í okkur) án eignarfornafns: Hárið á mér er úfið, ég er slæmur í baki, ég meiddi mig í fætinum, annar fóturinn á honum er styttri en hinn, mér er illt í augunum o.s.frv. Í málinu ríkir þegjandi samkomulag um það að ekki þurfi að taka fram hverjum líkamshlutarnir tilheyri; enginn er í vafa um að það er fóturinn á þeim sem talar þegar sá hinn sami kvartar um að sér sé illt í fætinum. [4]
Hin forna beyging á vor
breytaTil forna breygðist eignarfornafnið vor með öðrum hætti en nú tíðkast. Sú beyging var þannig:
Eintala | Fleirtala | |||||
---|---|---|---|---|---|---|
karlkyn (kk.) | kvenkyn (kvk.) | hvorugkyn (hk.) | karlkyn (kk.) | kvenkyn (kvk.) | hvorugkyn (hk.) | |
nefnifall | vor | ór | vort | órir, ossir | órar, ossar | ór |
þolfall | vorn | óra, ossa | vort | óra, ossa | órar, ossar | ór |
þágufall | órum, ossum | vorri | óru, ossu | órum, ossum | órum, ossum | órum, ossum |
eignarfall | vors | vorrar | vors | vorra | vorra | vorra |
Athugið að stofninn oss- í fornmáli kemur því aðeins fyrir, að endingin byrji á sérhljóða, en stofninn ór- því aðeins, að endingin byrji á sérhljóða eða fallið sé endingarlaust. Annars er stofn orðsins í fornmáli vár-, miðmáli vór-, og í nýmáli vor-.
„Afturbeygt eignarfornafn“
breytaSinn er stundum nefnt eina „afturbeygða eignarfornafnið“, þó það sé umdeilt.
Eintala | Fleirtala | |||||
---|---|---|---|---|---|---|
karlkyn (kk.) | kvenkyn (kvk.) | hvorugkyn (hk.) | karlkyn (kk.) | kvenkyn (kvk.) | hvorugkyn (hk.) | |
nefnifall | sinn | sín | sitt | sínir | sínar | sín |
þolfall | sinn | sína | sitt | sína | sínar | sín |
þágufall | sínum | sinni | sínu | sínum | sínum | sínum |
eignarfall | síns | sinnar | síns | sinna | sinna | sinna |
Eignarfornafn eða afturbeygt eignarfornafn?
breytaÞað er ekki óalgengt að menn ruglist á eignarfornöfnum og „afturbeygðu eignarfornöfnum“ og hvenær eigi að nota hvað. Gísli Jónsson íslenskufræðingur svaraði eitt sinn spurningu varðandi „hans og sinn“ í Morgunblaðinu 1986. [5] Spurningin var þannig:
- Hvort á ég að segja: Ég þakkaði honum fyrir hjálp hans eða ég þakkaði honum fyrir hjálp sína?
Gísli svaraði þá:
Best væri kannski að segja hvorugt, snúa sig út úr vandanum og segja: Ég þakkaði honum fyrir hjálpina. En annars er hið síðara rétt: ég þakkaði honum fyrir hjálp sína. Um þetta kann umsjónarmaður aðeins eina haldbæra reglu (sem þó er ekki algild). Við notum hans, ef viðmiðunarorðið er í nefnifalli, en eitthvert fall af sinn, ef viðmiðunarorðið er í aukafalli. Dæmi: Enginn vissi að börnin hans voru komin, en [aftur á móti]: Hann talaði um börnin sín. Okkur þótti boðskapur hans fagur, en: Við lofuðum Guð fyrir boðskap sinn. | ||
— Íslenskt mál
|
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Hugtakaskýringar - Málfræði“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. ágúst 2010. Sótt 23. júlí 2010.
- ↑ Íslenskt mál; grein í Morgunblaðinu 1983
- ↑ Íslenskt mál; grein í Morgunblaðinu 1985
- ↑ „Íslenskt mál; grein í Morgunblaðinu 1988“
- ↑ Íslenskt mál; grein í Morgunblaðinu 1986