Ehrenreich Christopher Ludvig Moltke
Ehrenreich Christopher Ludvig Moltke greifi (18. júní 1790 – 10. ágúst 1864) eða Ludvig Moltke var danskur aðalsmaður, embættismaður og sendiherra sem var stiftamtmaður á Íslandi 1819–1823 og jafnframt amtmaður í Suðuramti.
Moltke fæddist í Hróarskeldu en faðir hans, Werner Moltke, var þá amtmaður í Hróarskelduamti og voru þeir af gamalli þýsk-danskri aðalsætt sem hefur komið töluvert við sögu Danmerkur. Moltke lærði við háskólana í Kiel og Kaupmannahöfn og lauk embættisprófi í lögfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1816. Þá fékk hann starf í utanríkisþjónustunni og var sendur til Stokkhólms og síðan fljótlega til Berlínar. Árið 1819 var hann skipaður stiftamtmaður á Íslandi og amtmaður í Suðuramti og varð þar hlutskarpari Grími Jónssyni, sem einnig hafði sótt um stiftamtmannsembættið. Þeim embættum gegndi Moltke til 1823 en varð þá amtmaður í Præstø og ári síðar stiftamtmaður í Álaborg. Þar var Stefán Gunnlaugsson, síðar landfógeti, í þjónustu hans um tíma.
Hann gat sér gott orð í embætti, bæði á Íslandi og í Álaborg, og þegar Friðrik 6. heimsótti Álaborg 1828 hvatti hann Moltke eindregð til að gerast hirðmarskálkur Friðriks prins (seinna Friðriks 7.) og féllst Moltke á endanum á að taka það að sér. Hann sagði af sér því embætti fjórum árum síðar með þeim ummælum að sér hefði engin áhrif tekist að hafa á prinsinn og minnti um leið á að sér hefði verið lofað sendiherraembætti ef hann yrði ekki ánægður við hirðina. Friðrik 6. brást þegar við og útnefndi Moltke sendiherra Danmerkur í Svíþjóð og bjó hann í Stokkhólmi í 14 ár. Árið 1846 var hann gerður að sendiherra í París og var þar í áratug við góðan orðstír. Grímur Thomsen skáld starfaði hjá honum um tíma sem eins konar blaðafulltrúi sendiráðsins. En árið 1856 var Moltke skyndilega sviptur embætti og taldi hann sjálfur að það væri vegna þess að hann hafði talað eindregið gegn því að Friðrik 7. og Danner greifynja, eiginkona konungs „til vinstri handar“, heimsæktu frönsku hirðina.
Moltke sárnaði embættissviptingin mjög og settist hann að í Kiel fyrst í stað. Árið 1863 flutti hann þó til Kaupmannahafnar og dó þar á næsta ári.
Moltke í Reykjavík
breytaKona Moltkes (gift 1819) var Reinholdine Frederikke Vilhelmine Bardenfleth (18. apríl 1800 – 14. ágúst 1890), systir Carls Emils Bardenfleth, sem síðar varð stiftamtmaður á Íslandi. Hún fluttist nýgift með manni sínum til Reykjavíkur. Á Íslandi fór orð af því að hún liti mjög stórt á sig. Þeim hjónum leist afar illa á þann bústað sem beið þeirra og fengu þau leyfi til að láta innrétta tugthúsið á Arnarhóli, sem þá stóð ónotað, sem embættisbústað og bjuggu þar. Var húsið eftir það stiftamtmanns- og síðar landshöfðingjabústaður og að lokum Stjórnarráðshús.
Moltke gekkst líka fyrir því 1820 að lögð var steinstétt eftir forarstíg sem kallaður var Tværgaden, frá Aðalstræti austur að læk, og skolpræsi meðfram henni. Þetta þótti mikið mannvirki og var stéttin kölluð Langafortóv. Þar er nú Austurstræti.
Heimildir
breyta- „Carl Frederik Bricka: Dansk biografisk lexikon. XI. bindi. 1887–1905“.
- „Moltke greifi. Morgunblaðið, 12. janúar 1997“.
- „Stjórnarráðshúsið. Á vef forsætisráðuneytisins. Skoðað 27. nóvember 2010“.
- „Hús sem hverfur bráðum. Lesbók Morgunblaðsins, 20. nóvember 1960“.