Edit af Skotlandi (um 10801. maí 1118) var drottning Englands frá 11. nóvember 1100 til dauðadags og var fyrri kona Hinriks 1. Englandskonungs. Hún tók sér nafnið Matthildur þegar hún varð drottning.

Matthildur/Edit Englandsdrottning.

Edit var dóttir Melkólfs 3. Skotakonungs og konu hans, heilagrar Margrétar. Hún ólst upp ásamt systur sinni í ensku klaustri frá sex ára aldri. Þegar Hinrik varð konungur í ágúst árið 1100 var eitt hans fyrsta verk að finna sér brúði og varð Edit fyrir valinu. Edit og Hinrik virðast hafa þekkst fyrir brúðkaupið og í tveimur samtímaheimildum er talað um langvarandi aðdáun Hinriks á henni. Reyndar var í fyrstu talinn leika vafi á því hvort hún væri nunna eða ekki og leitaði Hinrik því leyfis hjá Anselm erkibiskupi af Kantaraborg, sem kallaði saman biskupanefnd til að úrskurða hvort hún gæti gengið í hjónaband. Edit vitnaði þar að hún hefði aldrei svarið klaustureiða, heldur hefðu þær systur verið sendar til Englands til að njóta menntunar hjá móðursystur sinni, Kristínu abbadís, og þær hefðu borið blæju sem vernd gegn ástleitnum Normönnum. Biskuparáðið úrskurðaði að hún væri ekki nunna og gæti því gifst Hinrik.

Edit var af gömlu ensku konungsættinni. Móðir hennar var dóttir Játvarðs útlaga, sonar Játmundar járnsíðu og sonarsonar Aðalráðs ráðlausa. Hjónabandið varð því til þess að auka mjög vinsældir Normannakonungsins Hinriks meðal landsmanna. Hins vegar voru margir Normannar ósáttir og Edit tók sér því normannskt nafn, Matthildur, og gekk undir því síðan. Einnig bætti hjónabandið samskipti Englendinga og Skota. Þrír bræður Matthildar urðu Skotakonungar og voru samskipti landanna með besta móti á meðan hún lifði.

Hinrik og Matthildur giftust í Westminster Abbey 11. nóvember árið 1100 og áttu tvö börn, Matthildi, fædda 1102, og Vilhjálm, fæddan 1103. Hún var trúrækin og lítillát, unnandi tónlistar og ljóðlistar og tók þátt í stjórn ríkisins þegar maður hennar var fjarstaddur. Hún var vinsæl og eftir að hún lést var hún kölluð Góða drottningin Matthildur og jafnvel var reynt að fá hana tekna í dýrlingatölu.

Sonur þeirra Hinriks, Vilhjálmur Adelin, drukknaði tveimur árum eftir að móðir hans lést. Systir hans, Matthildur, deildi árum saman við Stefán frænda sinn um ríkiserfðir. Eftir dauða Stefáns varð sonur Matthildar, Hinrik 2., konungur Englands.

Heimildir

breyta