Mosadýr

(Endurbeint frá Ectoprocta)

Mosadýr (fræðiheiti: Bryozoa, Ectoprocta eða Polyzoa)[1] eru fylking hryggleysingja sem lifa í vatni. Þau eru yfirleitt um 0,5 mm löng og nærast á fæðuögnum í vatni sem þau sía frá með kórónu af örmum með örsmáum bifhárum.[2] Ein ætt mosadýra hefst eingöngu við í ferskvatni og nokkrar tegundir kjósa sér ísalt umhverfi en langflestar tegundir þeirra lifa í höfunum og finnast helst í hitabeltinu, en þau hafa þó líka fundist í djúpsjávarrennum og á heimskautunum. Rúmlega 4000 tegundir eru þekktar. Ein ættkvísl mosadýra lifir sem einstaklingar en annars lifa þau í þyrpingum og nefnast þá mosakórallar.[3][4]

Mosadýr
„Bryozoa“, úr bók Ernst Haeckel: Kunstformen der Natur, 1904.
„Bryozoa“, úr bók Ernst Haeckel: Kunstformen der Natur, 1904.
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Yfirfylking: Lophotrochozoa
Fylking: Mosadýr (Bryozoa / Ectoprocta)
Ættir

Í fyrstu var fræðiheiti þessarar fylkingar Polyzoa en það vék fyrir Bryozoa árið 1831. Í kjölfarið annar hópur dýra sem þóttu lík mosadýrunum, sérstaklega hvað varðar síunarbúnað þeirra, og voru þau dýr talin með undir Bryozoa fylkingunni þangað til 1869 þegar það uppgötvaðist að þessir hópar dýra voru ólík að innri gerð. Hópurinn sem uppgötvaðist síðar fékk þá fræðiheitið Entoprocta (stilkormar) en farið var að kalla mosadýrin Ectoprocta. Bryazoa heitið hefur þó aldrei fallið úr notkun er notað jafnhliða Ectoprocta.

Einstaklingar í þyrpingum mosadýra eru ósjálfstæðar einingar (zooid) í stærri heild þyrpingarinnar.[5] Í öllum þyrpingum eru "hreyfanlegir" (autozooid) einstaklingar sem eru sérhæfðir í fæðuöflun og þveiti fyrir þyrpinguna sem heild. Sumar ættir dýranna hafa sérhæfða einstaklinga sem t.d. sjá um að klekja út eggjum eða að verja þyrpinguna fyrir afræningjum. Cheilostomata-ætt mosadýra hefur mestan fjölda tegunda, mögulega vegna þess að sú ætt hefur gengið lengst í sérhæfingu einstaklinganna. Sumar tegundir geta fært sig úr stað með því að nota broddótt varnardýr sem fætur fyrir þyrpinguna. Þau dýr sem sjá um fæðuöflun koma næringarefnum til hinna dýranna um rásir í þyrpingunni.[2]

Á meðal ferskvatnstegunda mosadýra eru eru öll dýrin tvíkynja alla sína ævi. Margar sjávartegundanna er hins vegar þannig að dýrin eru fyrst karlkyns en kvenkyns síðar á ævinni. Allar tegundirnar losa sæði sitt út í vatnið en misjafnt er hvort að þær losi líka egg sín út í vatnið eða hvort að dýrin noti arma sína til þess að safna sæði og beina í því í innvortis hólf þar sem eggið er frjóvgað. Sumar tegundir mosadýr klekjast úr eggjunum sem feitar lirfur með góðan næringarforða sem finna sér fljótlega yfirborðsflöt til þess að festa sig við en aðrar tegundir hafa minni forða við klak og eyða lengri tíma í að synda á lifrustiginu og nærast áður en þær setjast varanlega. Allar lirfunar undirgangast algjöra myndbreytingu þar sem nánast allir líkamsvefir þeirra eru leystir upp og byggðir á ný í annari mynd. Ferskvatnsmosadýr hafa einnig sérstæða leið til þess að tryggja framtíð sína þó að aðstæður verði óhagstæðar í umhverfinu um stund. Sú leið felst í því að sleppa litlum kítín-hylkjum sem innihalda frumur foreldrisins í dvala. Ef eitthvað veldur því að þyrpingin þurrkast út, þá geta þessi hylki þraukað í erfiðum aðstæðum og opnast svo þegar betur árar. Þá vaxa upp af þeim ný mosadýr.[4]

Skeljar mosadýra hafa fundist í 490 milljón ára jarðlögum frá kambríumtímbilinu sem gerir þau að síðustu fylkingunni til þess að koma fram á sjónarsviðið þannig að það hafi skilið eftir steingervinga. Mögulega voru þau komin fram fyrr en án þess að byggja sér skeljar úr steinefnum sem hafa varðveist. Flokkun mosadýra er umdeild og margt á huldu um skyldleika þeirra við aðrar fylkingar svosem stilkorma annars vegar eða armfætlur hins vegar. Jafnframt er ekki ljóst hvort að þau teljist til frummunna (Protostomia) eða nýmunna (Deuterostomia).

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Bryozoa“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. desember 2012.

  1. Brusca; Brusca (2003). „21: The Lophophorate Phyla“. The Invertebrates.
  2. 2,0 2,1 Ruppert, E.E., Fox, R.S., and Barnes, R.D. (2004). „Lophoporata“. Invertebrate Zoology (7. útgáfa). Brooks / Cole. bls. 829–845. ISBN 0-03-025982-7.
  3. Giere, O. (2009). „Tentaculata“. Meiobenthology (2. útgáfa). Springer Verlag. bls. 227. ISBN 978-3-540-68657-6. Sótt 7. júlí 2009.
  4. 4,0 4,1 Doherty, P.J. (2001). „The Lophophorates“. Í Anderson, D.T. (ritstjóri). Invertebrate Zoology (2. útgáfa). Oxford University Press. bls. 363–373. ISBN 0-19-551368-1.
  5. Little, W. (1964). „Zooid“. Shorter Oxford English Dictionary. Oxford University Press. ISBN 0-19-860613-3.

Tengill

breyta