Dreifð eignaraðild
Lagt hefur verið til að þessi grein verði sameinuð við Einkavæðing bankanna 2002. Hægt er að ræða þessa tillögu á spjallsíðu greinarinnar. |
Dreift eignarhald (eða dreifð eignaraðild) er hugtak í viðskiptafræði og á (oftast) við það þegar ríkiseign er seld með skilyrðum um að enginn einn eða tveir aðilar eigi meirihluta í fyrirtækinu, heldur að eignarhald þess sé dreift á marga aðila.[heimild vantar] Dreift eignarhald er talið koma í veg fyrir áhættusækni eigenda.
Dreift eignarhald og einkavæðing bankanna á Íslandi
breytaRíkisstjórnin á Íslandi einkavæddi ríkisbankanna árið 2002 með því að selja þá kjölfestufjárfestum. Áður hafði verið talað um að viðhafa dreifða eignaraðild við sölu þeirra. Sú aðgerð, að gefa dreift eignarhald upp á bátinn við sölu bankanna, var talin ein helsta orsök á bankahruninu árið 2008 og efnhagskreppunni sem fylgdi í kjölfarið.
Davíð Oddsson var forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem einkavæddi bankanna árið 2002. Hann talaði snemma fyrir dreifðri eignaraðild ríkisbankanna, og lagði línurnar áður en FBA var einkavæddur. Föstudaginn 8. mars 1998 vitnaði leiðarahöfundur Morgunblaðsins í Davíð og hefur eftir honum um lög varðandi eignarhald:
- „Sumar þjóðir hafa það reyndar svo, að þær binda það í lög hversu mikil eignarhlutdeild má vera í bönkunum. Ég hygg að það sé til að mynda þannig í Noregi. Það má vel vera, að slíkt gæti verið skynsamlegt að gera einnig hér á landi. A.m.k. er ekki æskilegt að menn hafi á tilfinningunni, að það séu einhver önnur sjónarmið, sem ráði stefnu banka, en almenn arðsemissjónarmið, eins og einhverjir þröngir hagsmunir ráðandi hóps“. [1]
8. ágúst sama ár sagði Davíð að þó nú væri í tísku að tala um kjölfestufjárfesta teldi hann að „í bankastofnun geti alveg dugað að stærstu eignaraðilar, sem komi til með að hafa leiðbeinandi forystu um reksturinn, eigi eignarhluti á bilinu 3% til 8% til dæmis“. Hann taldi hins vegar ekki æskilegt að einn aðili eða skyldir aðilar réðu 30%-40% eignarhlut í bankastofnun. [2] Þann 7. ágúst árið 1999 hélt hann hinu sama fram og sagði: „Íslenzka þjóðríkið er þannig vaxið, að það er ekki hollt fyrir það að vera í höndunum á mjög fáum aðilum.“ [3] Þegar ríkið síðan tók tilboði fjárfesta í 51% hluta í FBA, sagði Davíð Oddson við þeirri athugasemd, að hætta væri á að eignarhald dreifðist á færri hendur í eftirsölu hlutabréfa í FBA, að rétt væri að að átta sig á því að margir fjárfestanna sem að kaupunum á FBA koma hefðu víðtæka reynslu og væru þekktir fjárfestar.
- „Þetta höfum við séð í Íslandsbanka og víða. Það er ekkert endilega fyrirséð að þessir aðilar muni láta frá sér sinn hlut og að hann safnast á fárra hendur. Ég tel engar líkur á því sérstaklega í þessu dæmi en svona almennt framhald þá held ég að menn eigi aðeins að huga að því og skoða það meðal annars í þinginu hvort rétt sé að setja reglur, sem ná megi sátt um, sem tryggi að eignarhald verði jafnan dreift. Ég er fylgjandi því“. [4]
Sama dag lét Finnur Ingólfsson, þáverandi viðskiptaráðherra, þau orð falla að lagasetning um dreifða eignaraðild væri óþörf, og bætti við: „Þetta eru fyrst og fremst fagfjárfestar og ég held að þeir muni passa upp á það sjálfir að enginn einn fjárfestir verði ráðandi í bankanum. Þegar reynslan af sambærilegri einkavæðingu ríkisstofnana er skoðuð í Danmörku og Svíþjóð kemur í ljós að dreifð eignaraðild hefur haldist á eftirmarkaði.“ [5]
Þegar svo kom að sölu Landsbankanum og Búnaðarbankanum árið 2002 höfðu engin lög verið sett. Fréttablaðið sagði frá því í grein, sem skrifuð var árið 2005 um sölu bankanna, að Davíð Oddsson hefði fallið frá kröfu sinni um dreifða eignaraðild eftir að hafa talað við Björgólf Guðmundsson í síma. [6] Valgerður Sverrisdóttir, sem þá var iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lét þau orð þá falla, eftir að Samson hafði keypt 45,8% í Landsbankanum, að dreifð eignaraðild yrði aldrei tryggð nema með lögum. Og bætti við að EES samningurinn „heimili hins vegar ekki slíka lagasetningu og því sé tómt mál að tala um tryggingu fyrir slíku. Viðskiptum verði vart stjórnað“. [7]
Eignarhald á bönkum á Norðurlöndum
breytaEignarhald á bönkum á Norðurlöndum var kannað árið 1999 vegna sölu bankana á Íslandi. [8] Í könnuninni kom í ljós að stærstu hluthafar í dönsku bönkunum Den Danske Bank, Unibank og Jyske Bank voru lífeyrissjóðir og aðrir sjóðir. Eignarhlutur eins sjóðsins var 14,1% og var það stærsti hlutur sem einstakur aðili átti í dönskum banka. Í Svíþjóð var stærsti einstaki eignarhluturinn 18,6% í Foreningssparbanken í eigu stofnunar sem sparisjóðir eiga en annars fer stærsti eignarhlutinn ekki yfir 10%. Norska ríkið var stærsti hluthafinn í tveimur bönkum þar í landi, en það átti 52% í Den Norske Bank og 35% í Christiania Bank. Í Union Bank of Norway var Chase Manhattan Bank stærsti hluthafinn með 5,22% eign.
Tilvísanir
breyta- ↑ Stórfiskarnir ríkja; grein í Morgunblaðinu 2002
- ↑ Dreifð eignaraðild að bönkunum; grein í Morgunblaðinu 2002
- ↑ Hefur áhrif á hugmyndir um sölu á öðrum bönkum; grein í Morgunblaðinu 1999
- ↑ Ánægður með að ná settum markmiðum; grein í Morgunblaðinu 1999
- ↑ Lagasetning um dreifða eignaraðild óþörf; grein í Morgunblaðinu 1999
- ↑ Símtal breytti bankasölunni; grein í Fréttablaðinu 2005
- ↑ Samson borgar allt í dollurum; grein í Fréttablaðinu 2002
- ↑ Áberandi dreifð eign