Danubio F.C.
Danubio Fútbol Club er úrúgvæskt knattspyrnulið frá Montevídeó, stofnað þann 1. mars árið 1932. Stórliðin Peñarol og Nacional bera höfuð og herðar yfir önnur félög í Úrúgvæ, en Danubio hefur þó fjórum sinnum orðið landsmeistari og er það lið fyrir utan risana tvo sem síðast fagnaði sigri (2013-14). Félagið leikur í efstu deild úrúgvæsku deildarkeppninnar.
Danubio Fútbol Club | |||
Fullt nafn | Danubio Fútbol Club | ||
Gælunafn/nöfn | La Franja, Los de la Curva, La Universidad del Fútbol Uruguayo | ||
---|---|---|---|
Stytt nafn | Danubio | ||
Stofnað | 1932 | ||
Leikvöllur | Jardines del Hipódromo María Mincheff de Lazaroff | ||
Stærð | 18 000 | ||
Stjórnarformaður | Jorge Lorenzo | ||
Knattspyrnustjóri | Jorge Fossati | ||
Deild | Úrúgvæska úrvalsdeildin | ||
2023 | 8. sæti | ||
|
Sagan
breytaDanubio var stofnað bræðrunum Mihail (Miguel) og Ivan (Juan) Lazaroff, sem fæddir voru í Búlgaríu. Nafnið vísar til stórfljótsins Dónár sem markar einmitt landamæri Búlgaríu til norðurs. Árið 2017 ákváðu stuðningsmenn félagsins í almennri kosningu að minnast stofnenda sinna enn betur með því að endurnefna heimavöll sinn, Jardines del Hipódromo María Mincheff de Lazaroff Stadium til heiðurs móður þeirra Lazaroff-bræðra. Til að minna enn á búlgarskar rætur félagsins hefur þriðji búningur Danubio verið með borða í búlgörsku fánalitunum yfir brjóstið.
Aðalbúningur Danubio er svartur og hvítur og var tekinn upp þegar við stofnun félagsins. Var hann innblásinn af búningi Montevideo Wanderers, sem urðu árið 1931 síðasta áhugamannaliðið til að verða landsmeistari í Úrúgvæ.
Í skugga stórliða
breytaDanubio keppti fyrst í efstu deild árið 1948, þar sem það afrekaði að sigra Peñarol sem verið hafði ósigrað í þrjátíu leikjum. Félagið hafnaði í þriðja sæti á þessu fyrsta ári. Það sem eftir var aldarinnar lék Danubio í efstu deild með tveimur undantekningum, árið 1959-60 og 1969-70 þegar liðið féll en fór beint aftur upp.
Á níunda áratugnum átti Danubio sitt fyrra blómaskeið. Það fagnaði sínum fyrsta meistaratitli árið 1988 eftir að hafa unnið 18 leiki af 24 og tapað bara tvívegis. Árið eftir komst félagið í undanúrslit Copa Libertadores í fyrsta og eina sinn, eftir að hafa slegið báða úrúgvæsku risana úr keppni, en tapaði að lokum gegn meistaraefnunum í Atlético Nacional de Medellín.
Keppnisfyrirkomulagið í Úrúgvæ hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina og í kringum aldamótin var mótinu tvískipt þar sem krýndir voru meistarar bæði fyrri og seinni hluta tímabilsins, sem mættust svo í úrslitaeinvígi. Árin 2001 og 2002 komst Danubio í úrslitin en tapaði í bæði skiptin fyrir Nacional.
Betur tókst til árið 2004 þegar Danubio varð meistari í annað sinn. Sigurmark í þriðju mínútu uppbótartíma í úrslitaleiknum gegn Nacional réði þar úrslitum. Leiktíðina 2006-07 endurtók liðið leikinn og varð úrúgvæskur meistari eftir að hafa unnið bæði fyrri og seinni hluta deildarkeppninnar, en endaði í þriðja sæti í úrslitakeppninni og missti því af sæti í Copa Libertadores.
Síðasti titillinn
breytaFjórði og síðasti meistaratitillinn vannst leiktíðina 2013-14. Mótið var afar óvenjulegt þar sem hvorgt stóru liðanna tveggja komst í úrslitaeinvígið. Danubio og Montevideo Wanderers þurftu þrjá leiki til að knýja fram sigurvegara og réðust úrslitin ekki fyrr en í vítaspyrnukeppni, en áður hafði Danubio jafnað leikinn með hjólhestaspyrnumarki á lokamínútu framlengingar.
Eftir meira en hálfrar aldar samfellda dvöl í efstu deild féll Danubio niður um deild árið 2020. Dvölin í næstefstu deild varð þó aðeins eitt ár og komst það strax aftur í hóp þeirra bestu.
Titlar
breytaÚrúgvæskur meistari (4): 1988, 2004, 2006–07, 2013–14