Daniel Noboa
Daniel Roy Gilchrist Noboa Azín (f. 30. nóvember 1987) er ekvadorskur viðskiptamaður og stjórnmálamaður sem er núverandi forseti Ekvador.
Daniel Noboa | |
---|---|
Forseti Ekvador | |
Núverandi | |
Tók við embætti 23. nóvember 2023 | |
Varaforseti | Verónica Abad Rojas |
Forveri | Guillermo Lasso |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 30. nóvember 1987 Guayaquil, Ekvador |
Þjóðerni | Ekvadorskur |
Stjórnmálaflokkur | Acción Democrática Nacional |
Maki | Gabriela Goldbaum (g. 2018; sk. 2021) Lavinia Valbonesi (g. 2021) |
Börn | 2 |
Háskóli | New York-háskóli (BBA) Northwestern-háskóli (MBA) Harvard-háskóli (MPA) George Washington-háskóli (MA) |
Daniel Noboa er sonur Álvaro Noboa, sem er ríkasti maður Ekvador og eigandi bananaræktar- og útflutningsveldis í landinu. Álvaro Noboa hefur sjálfur boðið sig fimm sinnum fram til forseta án árangurs.[1]
Daniel Noboa tilkynnti í ágúst 2023 að hann hygðist gefa kost á sér í forsetakosningum Ekvador í október sama ár. Noboa lagði áherslu á að fjölga störfum og lagði til skattaafslætti fyrir ný fyrirtæki og að hvetja erlenda fjárfesta til landsins. Hann lagði jafnframt áherslu á að ráða bót á glæpafaraldri í Ekvador og stakk upp á því að koma verstu glæpamönnum landsins fyrir á bátum úti fyrir ströndum landsins. Þá talaði hann fyrir því að hernaðarviðvera við landamæri og strendur Ekvador yrði aukin til þess að hindra fíkniefnasmygl.[2]
Noboa náði miklu fylgi meðal ungra kjósenda, sem eru um þriðjungur kjörgengra landsmanna.[2] Þann 16. október 2023 vann Noboa sigur í seinni umferð forsetakosningnana með um 52,29 prósentum atkvæða gegn Luisu González, sem hlaut 47,71 prósent. Við embættistöku sína varð Noboa yngsti forseti í sögu landsins. Vegna þess hvernig efnt var til kosninganna mun Noboa þó aðeins gegna forsetaembættinu í sextán mánuði, sem eru eftirstöðvar kjörtímabils fráfarandi forsetans Guillermo Lasso.[3]
Noboa lýsti yfir neyðarástandi í Ekvador í kjölfar ofbeldisöldu þann 10. janúar 2024. Skotbardagar höfðu þá brotist út víða um landið og vopnaðir menn höfðu tekið starfsfólk sjónvarpsstöðvar í gíslingu í miðri sjónvarpsútsendingu.[4]
Tilvísanir
breyta- ↑ Kjartan Kjartansson (21. ágúst 2023). „Bananaerfingi og bandamaður spillts forseta í aðra umferð“. Vísir. Sótt 24. október 2023.
- ↑ 2,0 2,1 Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (16. október 2023). „Bananaprins kjörinn forseti í Ekvador“. Vísir. Sótt 21. október 2023.
- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (16. október 2023). „Daniel Noboa kjörinn forseti Ekvador“. RÚV. Sótt 21. október 2023.
- ↑ Samúel Karl Ólason (10. janúar 2024). „Óöld í Ekvador“. Vísir. Sótt 10. janúar 2024.
Fyrirrennari: Guillermo Lasso |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |